Pistlar

Glasið hálffullt eða hálftómt?
Föstudagur 6. janúar 2023 kl. 06:45

Glasið hálffullt eða hálftómt?

Árið 2023 er gengið í garð. Það markar m.a. þau tímamót að 50 ár eru liðin frá því Íslandsbikarinn í knattspyrnu kom síðast til Keflavíkur og kannski rétt að minnast þess líka að Bílaleigan Geysir á 50 ára afmæli. Geri aðrir betur. Besta bílaleiga landsins að mati erlendra ferðamanna.

Ef við hugsum til baka, þá erum við væntanlega flest sammála um að Verbúðin var besta íslenska sjónvarpsefnið á síðasta ári. Í desember hlustaði ég á frábæra þætti á RÚV um Jósafat nokkurn Arngrímsson, kaupmann í Kyndli. Eða Joe Grimson eins og hann kallaði sig því kappinn var í alþjóðlegum viðskiptum. Þessir þættir ættu að vera skylduhlustun í efri bekkjum grunnskóla. Fyrir Suðurnesjamenn er þetta mun áhugaverðara efni en Verbúðin. Stendur okkur nær.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég las ræðu bæjarstjóra Reykjanesbæjar sem hann flutti í Ljónagryfjunni þegar íþróttafólk bæjarins var heiðrað. Þar kom fram að íbúar Reykjanesbæjar væru 20.000 en 30% þeirra væru af erlendu bergi brotin og bærinn væri að reka átak sem kallaðist „Allir með“, þar sem reynt væri að virkja erlenda íbúa bæjarins. Við skulum átta okkur á því að 30% af 20.000 eru 6.000 manns. Það eru fleiri íbúar en bjuggu í Njarðvík fyrir 50 árum. Við verðum öll að leggjast á árarnar með verkefninu.

Þessi staða er mjög áhugaverð. Þurfum að spyrja okkur áleitinna spurninga um hvernig við getum komist áfram og gert vel fyrir alla. Það er á engan hátt einfalt að reka grunnskólakerfi þar sem töluð eru næstum 100 tungumál og kerfið á að vera fyrir alla. Helsta umræðan um grunnskólakerfið snýst núna um drengi sem ekki geta lesið sér til gagns. En hvernig tekur kerfið á börnum sem eru afburðanemendur? Eru þau að fá verkefni við hæfi þegar kennarinn þarf að sinna börnum með 5-6 mismunandi móðurmál. Eru afburðarnemendurnir dregnir niður í meðalmennsku og fá ekki að blómstra. Afburðanemendurnir hafa ekki endilega íslensku sem móðurmál.

Það sama á við um íþróttir. Af hverju þarf barn sem æfir íþróttir 5 sinnum í viku eða jafnvel oftar að stunda leikfimi í grunn- og framhaldsskólum. Er það af því bara eða af því það var svoleiðis fyrir 50 árum?

Fyrir 50 árum voru fleiri íbúar á Ásbrú en í Njarðvík. Þessir íbúar voru að vísu bandarískir ríkisborgarar, hermenn. En þeir bjuggu samt hér. Eitt af viðskiptamódelum Joe Grimson tengt skemmtistaðarekstri á Ásbrú gekk út á að velta ávísunum fram í tímann. Það módel riði ekki feitum hesti í dag enda þekkja þau sem eru af X og Z kynslóðinni ekki ávísanahefti frekar en skífusíma. Bæði eru úrelt. Það vitum við öll.

En er ekki grunnskólakerfið okkar úrelt líka? Við viljum bara ekki viðurkenna það. Kerfið er uppfullt af hæfileikaríkum kennurum sem eru fastir í ónýtu kerfi. Kennurum sem eru múlbundnir af því að fá hvorki að halda uppi aga né veita nemendum þá fræðslu sem þeir vilja - því þau þurfa að nota skífusíma þegar snjalltölvan er búin að taka völdin? Fyrir utan að við ættum að borga þeim laun til samræmis við þingmenn.

Þetta er kannski ekki spennandi nýárskveðja til ykkar en ef við nálgumst þessi verkefni öll þannig að glasið sé hálffullt en ekki hálftómt, þá munum við sigra. Og Íslandsbikarinn snýr aftur til Keflavíkur.

Gleðilegt nýtt ár. Megi það vera ykkur öllum farsælt. Sérstakar kveðjur fær 1973 árgangurinn!