Max 1
Max 1

Pistlar

Fólki fjölgar sem veiðir fisk á bryggjunni í Keflavík
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 7. júlí 2023 kl. 06:09

Fólki fjölgar sem veiðir fisk á bryggjunni í Keflavík

Tíminn æðir áfram, júlímánuður kominn í gang og þessi fyrsta vika í júlí er mjög furðuleg. Því eins og hefur verið greint hérna frá hefur metfjöldi af færabátum verið á veiðum frá Suðurnesjum og langflestir frá Sandgerði. Stór hluti af þeim flota er á strandveiðum en núna ber svo við að kvótinn, sem bátarnir hafa og miðast við þorskinn, hann er að vera búinn.

Leyfilegt var að veiða um tíu þúsund tonn af þorski. Núna er staðan sú að þessi vika er líklegast síðasta vikan sem að strandveiðibátarnir mega veiða. Ekki nema að kvótinn verður aukinn, því að núna hefur verið sótt eftir því að fá aukningu upp á fjögur þúsund tonn.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Í síðasta pistli fór ég með ykkur 30 ár aftur í tímann og skoðuðum júní árið 1993. Núna skulum við fara beint í júní árið 2023.

Byrjum í Keflavík: Í júní árið 1993 voru 33 bátar sem lönduðu í Keflavík/Njarðvík og heildaraflinn samtals 1.241 tonn.

Júní árið 2023. Aðeins tveir bátar lönduðu afla, samtals 8,6 tonnum. Klettur ÍS með 6,7 tonn af sæbjúgu og Byr GK með 1,9 tonn í tveimur róðrum á netum. Þetta er ótrúlegur munur. Þó svo til engum afla hafi verið landað í Keflavík/Njarðvík þá er nú ekki þar með sagt að höfnin sé steindauð því að í Njarðvík er búið að vera þónokkuð líf – og þá aðallega gagnvart slippnum. Því mikið er um að vera í slippnum og bátar að koma og fara þaðan nýskveraðir.

Grindavík: Árið 1993 voru þar 63 bátar og togarar sem lönduðu samtals 3.594 tonnum. Í júní árið 2023 voru samtals 26 bátar og togarar sem lönduðu afla, samtals 1.825 tonnum. Af þessum afla voru þrír 29 metra togarar með samtals 1.133 tonn; Áskell ÞH var með 353 tonn í fjórum, Vörður ÞH 300 tonn í fjórum og Sturla GK 481 tonn í átta róðrum. Línubáturinn Fjölnir GK var með 253 tonn í þremur róðrum og Særif SH með 114 tonn í sex en uppistaðan í aflanum hjá þeim er langa.

Færabátarnir voru nokkrir og ber hæst að tveir bátar frá Stakkavík voru að eltast við ufsann og gekk mjög vel. Geirfugl GK var með 34 tonn í fimm róðrum og mest 7,7 tonn og Hópsnes GK 21,6 tonn í fjórum róðrum og mest 7,2 tonn. Hraunsvík GK var á strandveiðum og var með 14,6 tonn í ellefu og mest 1,9 tonn. Sigurvon ÁR 16,3 tonn í ellefu á strandveiðum og mest 2,1 tonn.

Í Sandgerði var mikið um að vera og þar var líka mestur fjöldinn af bátum en þó enginn togari öfugt við Grindavík þar sem um 1.100 tonn af fiski komu frá togurunum.

Í Sandgerði í júní árið 1993 voru bátarnir alls 81 og samtals með 2.765 tonna afla. Í júní árið 2023 voru bátarnir svipað margir því samtals lönduðu 76 bátar í Sandgerði en það var svo til allt smábátar á færum og heildaraflinn alls 862 tonn – en landarnir voru mjög margar. Alls 635 landanir samanborið við 125 landanir í Grindavík.

Aðalbjörg RE var aflahæstur bátanna í Sandgerði með 113 tonn í fjórtán róðrum á dragnót. Þar á eftir kom Sigurfari GK með 84 tonn í fimm. Nesfisksbátarnir fóru allir í fimm róðra en fóru síðan í stopp og verða stopp fram í ágúst.

Enginn netabátur eða línubátur landaði í Sandgerði. Af færabátunum var Addi Afi GK hæstur með 27 tonn í sex róðrum og mest 7,7 tonn og Ragnar Alfreðs GK var með 23 tonn í sex róðrum og mest 5 tonn. Báðir að veiða ufsa.

Af strandveiðibátunum var Snorri GK hæstur með 14,3 tonn í tólf róðrum og mest 2,1 tonn. Sandvík KE var með 13,1 tonn í tólf og Arnar ÁR 13,1 tonn í níu en báturinn fór síðan til Þorlákshafnar. Una KE 12,3 tonn í tólf róðrum og Dóri í Vörum GK 12,2 tonn í tólf.

Já, nokkuð mikill munur á 30 árum og þá sérstaklega í Keflavík/Njarðvík – og þar sem júlímánuðurinn er kominn í gang þá verður nokkuð áhugavert að sjá hvort makríllinn láti sjá sig. Í það minnsta hefur fólki sem veiðir fisk á bryggjunni í Keflavík fjölgað mjög mikið síðustu daga og færabátar hafa fengið makríl á krókana hjá sér.

Ef makríllinn kemur þá verður nóg um að vera í Keflavík ef sagan endurtekur sig.