Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

Ekki þessa endalausu neikvæðni
Mánudagur 24. ágúst 2020 kl. 10:32

Ekki þessa endalausu neikvæðni

Makríll. Já, því miður þá þurfum við ekkert að hugsa um þann fisk lengur. Því nú er orðið ljóst að enginn makrílvertíð verður þetta sumar, árið 2020. Mikil áfall fyrir margar útgerðir héðan því menn voru búnir að græja bátanna sína og voru tilbúnir.

Það er samt einhvern veginn þannig að það er voðalega mikið um neikvæðar fréttir af sjávarútvegi frá Suðurnesjum, t.d kviknaði í netabátnum Langanesi GK sem Hólmgrímur gerir út, sem betur fór þá urðu ekki miklar skemmdir á bátnum og komst eldurinn t.d. ekki í mannaíbúðir eða þá aftur í bátinn þar sem netin voru geymd. Báturinn er ekki kominn á veiðar en það styttist í það – og það má geta þess að nýr skipstjóri verður núna með Langanesi en það er Jón Árni Jónsson.

Förum í hinn stóra bátinn sem Hólmgrímur gerir út, Grímsnes GK. Báturinn lenti í mjög alvarlegri vélarbilun í febrúar síðastliðinn og var það nokkuð mikil vinna að laga vélina en báturinn er klár og kominn á veiðar, Sigvaldi sonur Hólmgríms er skipstjóri á bátnum. Grímsnes GK fór beint í ufsann og hefur verið á veiðum í kringum Vestmannaeyjar.

Þriðji stóri netabáturinn, Erling KE, er búinn að vera á grálúðuveiðum í allt sumar og hefur landað um 340 tonnum af grálúðu sem mest hefur verið landað á Vopnafirði. Núna þegar þessi pistill er skrifaður þá er Erling KE að nálgast Njarðvík.

En já, neikvæðar fréttir frá Suðurnesjum eru eins og fram kemur að ofan nokkrar en kannski sú neikvæðasta og kannski sú sorglegasta tengist báti sem var viðloðandi í útgerð frá Suðurnesjum í hátt í 50 ár.

Þarna er ég að tala um bátinn sem er með skipaskrárnúmerið 288. Sá bátur hét fyrst Árni Geir KE og var smíðaður árið 1959. Báturinn var seldur árið 1970 og fékk þá nafnið Þorsteinn Gíslason KE en árið 1975 fékk báturinn nafnið Þorsteinn Gíslason GK og með því nafni var hann gerður út frá Grindavík í 33 ár eða fram til ársins 2008 þegar báturinn var seldur, ásamt kvóta, til Hornafjarðar, Skinney Þinganes hirti kvótann af bátnum og seldi síðan bátinn áfram kvótalausan.

Árið 2010 fékk þessi bátur nafnið Jökull SK og stundaði rækjuveiðar fram í maí árið 2014 þegar hann hætti veiðum og síðan þá hafði báturinn legið við bryggju í Hafnarfirði.

Alla þá tíð sem að þessi bátur réri frá Suðurnesjum, og lengstan tímann í Grindavík undir nafninu Þorsteinn Gíslason GK, var báturinn mjög fengsæll og gekk útgerð hans mjög vel þau ár sem hann var gerður út.

Af hverju er ég að minnast á þennan bát og af hverju myndi það flokkast undir það neikvæða eða sorglegast?

Jú, því 17. ágúst síðastliðinn kom leki að bátnum þar sem hann lá við bryggju í Hafnarfirði og sökk hann við bryggju þar – og þegar þessi pistill er skrifaður þá liggur báturinn á botni hafnarinnar í Hafnarfirði.

Við skulum samt ekki hafa þennan pistil endalaust neikvæðan, það er þó jákvætt að netaveiðin er búinn að vera mjög góð núna í ágúst en Bergvík GK, Sunna Líf GK, Hraunsvík GK, Halldór Afi GK og Maron GK hafa allir fiskað mjög vel. Halldór Afi GK hefur mest komist í 3,9 tonn, Sunna Líf GK mest í 6,4 tonn, Hraunsvík GK mest í 4,3 tonn, Bergvík GK mest í 6,9 tonn og Maron GK mest í 8,1 tonn. Mjög góður afli.

Allir netabátarnir hafa lagt netin sín í Faxaflóanum og landað í Keflavík og Njarðvík.