Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Ansi fallegt hljóð heyrist þegar hann er að sigla í land
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 28. október 2022 kl. 07:02

Ansi fallegt hljóð heyrist þegar hann er að sigla í land

Tíminn líður áfram og ekkert sem er hægt að gera sem stoppar það. Í síðustu pistlum hef ég skrifað um það að enginn línubátur sé á veiðum hérna frá Suðurnesjunum. Þangað til núna.

Því að fyrsti báturinn til að hefja línuveiðar núna á þessu hausti hefur hafið veiðar – og heitir sá bátur Katrín GK og er í eigu Stakkavíkur ehf. í Grindavík. Rær báturinn frá Sandgerði á þekkt línumið utan við Sandgerði og fyrsti róður bátsins var ansi góður, eða um 7,2 tonn. Reyndar þegar þetta er skrifað þá er Jón Ásbjörnsson RE að koma frá Þorlákshöfn og líka á miðin þarna fyrir utan Sandgerði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi bátur, Katrín GK, er nokkuð merkilegur í það minnsta fyrir ansi fallegt hljóð sem heyrist þegar hann er að sigla í land, því að ansi mikið vélarhljóð heyrist nokkuð langt að og minnir það á gamla tíma, þegar sjómenn gátu þekkt báta bara með því að hlusta á vélarhljóðið.

Sjálfur man ég vel eftir báti sem átti fyrst sögu sína í Grindavík og hét þá Hrafn Sveinbjarnarsson II GK, um borð í þeim báti var ALPHA aðalvél sem var um 600 hestöfl en sú vél var hæggeng og frekar slaglöng. Mikið og ansi flott vélarhljóð var í þeim báti og síðar meir þá fór þessi bátur til Sandgerðis og hét þar Siggi Bjarna GK.

Á kyrrlátum kvöldum þá heyrði ég alveg heim í vélinni í Sigga Bjarna GK þegar hann var á leið í land og í Katrínu GK heyrist líka ansi vel í vélinni.

Með þessum pistli fylgir með myndband einmitt af Katrínu GK koma í land og heyra má vélarhljóðið sem er nú bara ansi flott, þegar komið er að u.þ.b. 1 mín. og 30 sek. í myndbandinu má heyra ansi vel í bátnum.

Annars fyrir utan Katrínu GK þá hefur veiði bátanna verið svona nokkuð góð. Netabátunum hefur fjölgað um einn því að einn stærsti netabátur landsins, Kap VE, er kominn á netin í Faxaflóanum og hefur verið með netin við Garðaskagavita eins og t.d. Maron GK, Halldór Afi GK og Erling KE.  Maron GK er kominn með 66 tonn í þrettán róðrum og Halldór Afi GK 22 tonn í átta, þeir landa í Njarðvík og Keflavík. Erling KE kominn með 104 tonn í ellefu en hann landar í Sandgerði.

Veiði dragnótabátanna er mjög góð og er Sigurfari GK kominn með 165 tonn í tólf róðrum og mest 31 tonn, Siggi Bjarna GK 104 tonn í tíu og mest 21 tonn, Benni Sæm GK 81 tonn í tíu og mest 18 tonn og Maggý VE 79 tonn í tólf og mest 14 tonn. Ísey EA með 14 tonn í fjórum, landar í Grindavík.

Ef við lítum á hina línubátanna sem ennþá eru úti á landi þá er veiðin hjá þeim nokkuð góð. Fjölnir GK kominn með 404 tonn í fjórum, Sighvatur GK 384 tonn í þremur og Páll Jónsson GK 319 tonn í þremur og allir að landa á Skagaströnd. Valdimar GK 269 tonn í fjórum.

Af minni bátunum þá er t.d. Auður Vésteins SU með 121 tonn í tólf og mest 20 tonn, Gísli Súrsson GK 102 tonn í tólf og mest 19 tonn, Margrét GK 108 tonn í fimmtán og Vésteinn GK 84 tonn í sjö og mest 18 tonn. Allir á veiðum fyrir austan land.

Fyrir norðan eru t.d. Óli á Stað GK með 95 tonn í fimmtán, Sævík GK 81 tonn í þrettán, Daðey GK 61 tonn í tíu, Hópsnes GK 22 tonn í sex og Dúddi Gísla GK 39 tonn í átta, allir á Skagaströnd nema Óli á Stað GK sem er á Siglufirði. Hulda hefur verið á báðum stöðum og er kominn með 75 tonn í ellefu róðrum.