Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

Aflafréttir: Löndunum fækkar á Suðurnesjum
Fimmtudagur 10. desember 2020 kl. 17:40

Aflafréttir: Löndunum fækkar á Suðurnesjum

Þá er desember byrjaður og hann byrjaði heldur betur með látum. Því það var bara spænuvitlaust veður og það komst enginn bátur á sjó í um fimm daga og því er lítið um aflatölur í þessum pistli en þó má geta þess að loksins þegar að bátarnir komust á sjóinn núna á laugardaginn þá hefur veiðin verið nokkuð góð hjá þeim og áfram fjölgaði í bátaflotanum sem er að róa frá Sandgerði, því að Jón Ásbjörnsson RE kom til Sandgerðis frá Þorlákshöfn. Núna eru um tuttugu bátar að róa frá Sandgerði á línu og þeim á eftir að fjölga. 

Stóru línubátarnir eru ennþá út á landi en þeir eru að koma suður hægt og rólega. Páll Jónsson GK var að koma til Grindavíkur þegar að þessi pistill er skrifaður og Valdimar GK á að koma til Grindavíkur á miðvikudaginn.

Það er náttúrlega gleðiefni að bátarnir úr Grindavík landi í sinni heimahöfn en undanfarin ár hefur verið frekar lítið verið um að vera í Grindavíkurhöfn einmitt út af því að línubátarnir þaðan landa ekkert í sinni heimahöfn. Í staðinn fá trukkarbílstjórarnir hjá Jóni og Margeir nóg að gera við að keyra fiskinum frá Austur- og Norðurlandi til vinnslu í Grindavík.

Reyndar er fiski nú líka ekið til Sandgerðis og Garðs en það er þó ekki í eins miklu magni og til Grindavíkur. Yfir haustið er það helst togarafiskurinn af Berglínu GK, Sóley Sigurjóns GK og Pálínu Þórunni GK sem er ekin suður – og það alla leið frá Ísafirði. 

Í byrjun þessara aldar var þetta svo til óþekkt að bátar frá Suðurnesjum væru að landa út á landi og allir þessi fiskflutningar færu fram.

Við skulum aðeins skoða þetta nánar. Við skulum bera saman tímabilið 1. nóvember til 8. desember árið 2000 og árið 2020.

Grindavík: Landanir alls 487 og afli alls 8.269 tonn árið 2000. Inni í þessari tölu eru loðna 5.368 tonn tonn af síld og því er bolfiskaflinn 2.901 tonn.

Grindavík árið 2002: Landanir alls 54 og afli alls 1.284 tonn. Inni í þessari tölu er afli frá frystitogurunum Hrafni Sveinbjarnarssyni GK og Tómasi Þorvaldssyni GK um 700 tonn og því er bátaafli einungis 584 tonn.

Þetta er alveg rosalega mikill munur og sýnir kannski tvo hluti ansi vel. Hið fyrra er að loðnuverksmiðja Fiskimjöls og Lýsis í Grindavík brann og var loðna aldrei brædd þar eftir það, hið seinna er að þrátt fyrir að Grindavík sé ein kvótastærsta höfn landsins þá er lítið af þeim fiski sem kemur í löndun þar,  t.d var afli línubátanna frá Grindavík á þessu tímabili árið 2020 alls 2.400 tonn sem öllu var landað út á landi og langmestum hluta af þeim afla var ekið til Grindavíkur til vinnslu.

Lítum á Sandgerði sem hefur alltaf verið stærsta löndunarhöfn Íslands. Árið 2000 voru landanir alls 664 og afli 2.912 tonn. Af þessu voru 952 tonn af loðnu og því var bolfiskafli 1.960 tonn sem allt var af bátum. Árið 2020 voru landanir alls 198 og afli alls 874 tonn sem allt er bátaafli. 

Þetta er ekki eins mikill munur og í Grindavík en þó nokkur.

Keflavík er munurinn ennþá meiri. Árið 2000 voru landanir alls 265 og aflinn alls 544 tonn. Árið 2020 voru landanir aðeins 37 og aflinn alls 89 tonn.

Þetta er ótrúlega mikill munur og eins og sést  mjög vel þá er höggið mikið í Grindavík og Keflavík en þó svo að höggið sé mikið líka í Sandgerði þá er samt sem áður mesta lífið í höfnum á Suðurnesjum í Sandgerði og var það þannig árið 2000 og er þannig líka árið 2020.

Kannski ekki neitt rosalega skemmtilegur samanburður en því miður þá er þetta bara staðan, bátum hefur fækkað mjög mikið, enda er fiskveiðistjórnunarkerfi okkar Íslendinga kannski ekki beint hentugt fyrir nýliða að koma sér á fót báti og hefja útgerð. 

Talandi um það, þá er nú samt sem áður bjart í Sandgerði því tveir nýir bátar bættust í flotann í Sandgerði núna. Sá fyrri er Gjafar SU sem heitir núna Gjafar GK og mun róa á línu frá Sandgerði og hinn þekkja Sandgerðingar mjög vel, það er Njáll HU sem er orðinn Njáll GK 63 og með heimahöfn í Sandgerði.

Umsjón: Gísli Reynisson.