Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Aflafréttir: Gaf vel á sjóinn og bátunum fjölgar
Föstudagur 20. nóvember 2020 kl. 07:11

Aflafréttir: Gaf vel á sjóinn og bátunum fjölgar

Í síðasta pistli var aðeins minnst á það að tíðarfarið hafi verið ansi leiðinlegt og erfitt til sjósóknar við Suðurnesin. Það hefur heldur betur breyst síðan sá pistill kom, því mjög vel gaf á sjóinn og veiði bátanna var svona nokkuð góð og bátunum fjölgar.

Núna á einni viku hafa ansi margir bátar komið að mestu frá Norðurlandi, enginn bátur er enn kominn frá Austurlandi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þeir bátar sem komu voru Birta Dís GK sem kom frá Bolungarvík, nýi Víkingur NS sem er að fara að róa frá Sandgerði og er þetta nýr bátur í Sandgerði, Dúddi Gísla GK kom til Grindavíkur og hefur hafið veiðar frá Grindavík og kom með um fjögur tonn í fyrstu löndun sinni þar.

Sævík GK kom frá Skagaströnd eins og Dúddi Gísla GK, Sævík GK byrjaði á að leggja línuna sína skammt frá Arnarstapa og kom til Sandgerðis með fjórtán tonn þaðan. Í næsta róðri var Sævík GK með línuna skammt utan við Stafnes en aflatölur voru ekki komnar þegar að þessi pistill var skrifaður.

Dragnótabáturinn Ísey EA kom frá Bolungarvík og hefur hafið veiðar frá Sandgerði, fyrsta löndun bátsins þar var 10,3 tonn. Von er á fleiri bátum á næstum dögum.

Reyndar er nafnið Guðrún ansi vinsælt á bátum frá Sandgerði, alls eru þrír bátar sem róa þaðan sem heita Guðrún. Fyrsti er Guðrún Petrína GK en eigandinn af honum á harðfiskverkun sem heitir Stafnes, mjög flott nafn, og ég mæli alveg hiklaust með harðfisknum frá honum Dóra sem á bátinn og Stafnes.

Síðan er það Guðrún GK 47 sem Sigurður Aðalsteinsson og Gylfi fótboltamaður eiga, sá bátur er gerður út á línu og hefur landað um fjórtán tonnum í fimm róðrum.

Að lokum er það Guðrún GK 96. Sá bátur er gerður út á netum og hóf netaveiðar um miðjan september, hann hefur landað alls um 28 tonnum í haust og þar af sjö tonn núna í nóvember.

Gerð varnargarða við ströndina

Talandi um Stafnes en ég hef minnst á það tvisvar í þessum pistli. Í sumar var Ellert Skúlason að vinna við dýpktun við löndunarkrananna í Sandgerðishöfn, og var meðal annars búið til myndband af því, en þær framkvæmdir voru með nokkru öðruvísi sniði en vanalega er með dýpkun. 

Mjög mikið af efni kom upp úr þeirri framkvæmd og var allt efnið sett á land, bak við hús fræðasetursins í Sandgerði. Þó nokkuð mikið af þessu efni er stórgrýti og núna hefur Ellert Skúlason fengið það verkefni að nota efnið til þess að keyra í og búa til varnargarða við ströndina.

Í raun er verkefnið tvíþætt, í seinni hlutanum á að gera varnargarð framan við Nesjar og þarf þá að gera varnargarð inn í vog sem þar er. Fyrri hlutinn, og það er sá hluti sem að hafnar eru framkvæmdir á, er að gera varnargarð við Burstshús og Nýlendu. Nýlenda er bærinn sem stendur neðan við Hvalsneskirkju en sá staður er mjög lágt í landinu og í stórsjó, og líka í bara þegar er stórstraumsflóð, þá flæðir mikið magn af sjó inn á lóðina Nýlendu og þegar verst er þá stendur húsið eins og eyja í sjónum.

Á Nýlendu býr þýsk kona sem er þarna með hesta sína, og með þessum pistli fylgir með myndband sem er fyrsta drónamyndandið sem ég bý til, en það sýnir hluta af þessum framkvæmdum. Konan kom til mín þegar ég var að mynda og lýsti mikilli ánægju og gleði með þessar framkvæmdir því þá vonandi losnar hún við að húsið hennar verði eins og eyja í miklum flóðum og stórsjó.