Pistlar

Aflafréttir: Fer förðun og útgerð saman?
Föstudagur 24. apríl 2020 kl. 13:19

Aflafréttir: Fer förðun og útgerð saman?

Það líður að lokum aprílmánaðar og það líður líka að lokum vetrarvertíðarinnar árið 2020.

Inni í vetrarvertíðinni eru reyndar kannski tvær aðrar vertíðir ef þannig má kalla það sem eru svo til árviss atburður. Sú fyrri er loðnuvertíðin en hún var engin í ár og ekki heldur árið 2019. Hin er grásleppuvertíðin. Það eru reyndar ekki margir bátar sem stunda grásleppuveiðar frá Suðurnesjum og fyrsti báturinn sem fór á þær veiðar var Tryllir GK í Grindavík. Hefur hann landað 15,1 tonn í átta róðrum og af því er grásleppa 13,7 tonn. Garpur RE kom næstur en hann fór líka í Grindavík og hefur landað 10,3 tonnum í þremur róðrum og af því er grásleppa 9,3 tonn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bátarnir hafa verið með netin ekki langt frá Grindavík en þó á sitthvorum staðnum. Tryllir GK hefur verið með netin meðfram ströndinni að Stað og Garpur RE hefur verið með netin utan við Hópsnesið.

Reyndar er nokkuð merkilegt með þennan bát Garp RE, alla þessa öld hefur báturinn minnst verið á því sem kalla mætti hefbundnum botnfiskveiðum. Báturinn hefur að mestu verið að veiða beitukóng í gildrur í Breiðafirðinum og landað þá á Grundarfirði að mestu. Báturinn lá reyndar við bryggju frá því í júní 2013 og alveg fram í júní 2018 þegar að báturinn hóf veiðar aftur.

Alla þessa öld hafði báturinn aldrei komið í hafnir á Suðurnesjunum, ekki fyrr en í ágúst 2018 til Sandgerðis og hefur reyndar landað nokkuð oft þar þegar báturinn er á skötuselsveiðum en þetta er í fyrsta skipti sem að báturinn landar í Grindavík á þessari öld. 

Annars var Garpur RE smíðaður á Seyðisfirði árið 1989 og þá að mestu gerður út frá Austurlandi. Merkilegt má segja að útgerðarfyrirtækið sem gerir út Garp RE heitir Neglur og list ehf. og er staðsett á Grensásvegi í Reykjavík. Ansi sérstakt að fyrirtæki sem er í naglasnyrtingu og förðun geri líka út stálbát.

Bátarnir frá Sandgerði eru líka byrjaðir veiðum og hafa lagt netin sín en eru ekki búnir að landa afla þegar að þessi pistill er skrifaður. Addi Afi GK er búinn að leggja netin en hann lagði þau skammt utan við Sandgerði og áleiðis að Hvalsnesi. Guðrún KE er líka búin að leggja svo til á svipuðum slóðum og Svala Dís KE líka komin á sömu slóðir. 

Eins og fram kom í síðasta pistli þá er hrygningarstopp í gangi og það þýðir að þeir bátar sem ætla sér að vera að veiðum fyrir utan grásleppubátanna þurfa að fara út fyrir tólf sjómílurnar.

Vörður ÞH kom til Grindavíkur með 47 tonn og Pálína Þórunn GK kom til Sandgerðis með 62 tonn, báðir voru búnir að vera að veiðum utan við tólf mílurnar. Reyndar eru hinir togarar Nesfisks komnir við Austurlandið, Berglín GK og Sóley Sigurjóns GK, en voru ekki búnir að landa afla þegar þessi pistill er skrifaður.

Með þessum pistli fylgir líka smá myndband sem kannski á smá tengingu í efni þessa pistils, það er tekið út innsiglingarrennuna í Sandgerði en þar fyrir utan hafa grásleppubátarnir sem minnst er á að ofan lagt netin sín.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is

SJÁIÐ NÝJUSTU VÍKURFRÉTTIR 62 BLS. TROÐFULLAR AF FLOTTU EFNI!