Vor á Vatnsnesi: „Sameina gömlu rótina og nýja drauma“
Hótel Keflavík fagnar 39 ára afmæli með nýrri bæjarhátíð og framtíðarsýn fyrir miðbæinn
„Við viljum fagna með bæjarbúum og kveikja nýja von um uppbyggingu og samveru á Vatnsnesinu,“ segir Steinþór Jónsson, stofnandi Hótel Keflavík, sem ásamt eiginkonu sinni Hildi og dætrum þeirra heldur utan um nýjan viðburð sem ber nafnið Vor á Vatnsnesi. Hátíðin verður haldin um helgina og markar bæði afmæli hótelsins, sem opnaði 17. maí 1986, og nýtt upphaf í þróun svæðisins við Vatnsnes.
„Markmiðið er einfalt – að skemmta okkur og öðrum í upphafi sumars,“ segir Lilja Karen, dóttir hjónanna, sem ásamt systur sinni Unni Maríu, tekur virkan þátt í rekstri hótelsins. „Við viljum bjóða upp á gleði, menningu og upplifun fyrir alla aldurshópa og með þessari hátíð vonumst við til að leggja grunn að árlegri bæjarhátíð.“
KEF fjölskyldan horfir til framtíðar
Í samtali við Víkurfréttir leggja hjónin og dæturnar áherslu á að Vor á Vatnsnesi sé hluti af stærri sýn. „Við trúum á framtíð Vatnsnessins sem nýs miðbæjarkjarna,“ segir Unnur María. „Við höfum fjárfest í lykileignum, eins og gamla Olís-húsinu og Framnesvegi 29, og sjáum fyrir okkur svæði þar sem KEF SPA, KEF Restaurant og Hótel Keflavík tengjast í upplifun, þjónustu og menningu. Við köllum þetta KEF CENTER.“
„Þetta er draumur sem á rætur að rekja aftur til 1995, þegar pabbi og afi okkar, Jón William, horfðu fyrst til þessara lóða með framtíð hótelsins í huga,“ bæta þær við.
Dagskrá fyrir allt samfélagið
Hátíðin hefst á fimmtudag með konukvöldi í KEF SPA og afmælismatseðli í KEF Restaurant. Föstudagurinn býður upp á listasýningu í Vatnsneshúsinu, 80’s kvöld í heilsulindinni og tónlist með Kósýbandinu.
Á laugardag fer fram Moët kampavínshlaup, verðlaunaafhending með Lúðrasveitinni og skemmtun fyrir börnin með hoppuköstulum og matarvögnum. Kvöldið endar á Eurovision partýi í KEF SPA. Á sunnudag er fjölskyldudagur með barnabröns og sýningu Leikhópsins Lottu.
„Við erum þakklát fyrir traust bæjarbúa í gegnum árin,“ segir Hildur. „Við viljum með þessari hátíð sameina gömlu rótina og nýja drauma – og við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin.“
Steinþór bætir við með brosi: „Ég lofa sól alla dagana – og stend við það, eins og áður.“