Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Mannlíf

Vantar sárlega app til að maður geti fundið næstu fríu pylsu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 26. apríl 2021 kl. 09:15

Vantar sárlega app til að maður geti fundið næstu fríu pylsu

Guðmundur Ragnar Magnússon, stýrimaður og sigmaður hjá Landhelgisgæslunni, segir að það verði nóg að gera í allt sumar. Hann á löngu bókaða ferð til útlanda sem hann á þó von á að detti upp fyrir. Svo á að fara í ferðalög um landið með hjólhýsið.

– Hvað er efst í huga eftir veturinn?

Sólning
Sólning

„Ætli það sé ekki bara veðrið, var einhvern veginn endalaust haust og svo endalaust vor. Alltaf að bíða eftir vetrinum og svo bíða eftir sumrinu. Rok og rigning. Ekkert að því samt, það bara herðir mann.“

– Er eitthvað eftirminnilegt í persónulegu lífi frá vetrinum?

„Þetta var frekar rólegur vetur svona heilt yfir. Fyrir mig persónulega eru sennilega smá breytingar á starfsvettvangi hjá mér. Flýg minna á þyrlu núna en meira á eftirlitsflugvél Gæslunnar. Er samt ekkert hættur að þyrlast. Tek bara stóru útköllin en læt yngri menn um æfingarnar.“

– Hversu leiður ertu orðinn á Covid?

„Æ, pínu svona – en samt ekki þetta gefur manni bara tíma til þess að horfa inn á við og njóta meira með þeim sem standa manni næst. Við höfum það nú alveg þokkalegt flest hérna á Íslandi miðað við hvernig ástandið er í öðrum löndum.“

– Ertu farin að gera einhver plön fyrir sumarið t.d., ferðalög? Ætlarðu til útlanda?

„Það verður nóg að gera í allt sumar. Byrja á ferð til Austurríkis í júní með góðum vinum (löngu bókað og dettur sennilega upp fyrir). Svo eru bara ferðalög út um allt með hjólhýsið. Stefnum á ferð um Vestfirðina en annars látum við veðrið bara ráða hvert verður farið. Á inni miða á Þjóðhátíð frá því í fyrra.“

– Hvað myndir þú gera ef heimurinn yrði Covid-frír í næstu viku?

„Ég myndi halda geggjaða veislu með vinum mínum í Roundtable 10 Keflavík. Við eigum inni nokkur góð gigg sem hafa fallið upp fyrir í vetur.“

– Uppáhaldsmatur á sumrin?

„Fríar grillaðar pylsur. Ég elska hvað það er mikið verið að gefa grillaðar pylsur út um allt á sumrin. Það þyrfti einhver snillingur að búa til svona app þar sem maður getur fundið næstu fríu pylsu. Konan mín deilir ekki þessari skoðun, hún bíður inni í bíl.“

– Ertu mikill grillari? Hvað finnst þér best á grillið?

„Já, sumrin eru til þess að grilla á. Ég grilla allskonar, lamb, naut, svín og humar. En ætli ég haldi ekki mest upp á lambalærissneiðar.“

– Uppáhaldsdrykkur á sumrin?

„Pepsi Max, alvöru bragð, enginn sykur.“

– Hvert myndir þú fara með gest á Reykjanesinu (fyrir utan gosslóðir)?

„Ég færi að kvöldi til rétt fyrir ljósaskipti upp í Háabjalla/Snorrastaðatjarnir. Kyrrðin þar er alveg guðdómleg og ótrúlega fallegur staður.“

– Hver var síðasta bók sem þú last?

„Rauður stormur eftir Tom Clancy.“

– Hvaða lag er í uppáhaldi hjá þér núna?

„Ég er alveg fastur á Helga Björns síðan í fyrra. Það bera sig allir vel.“

– Hvað viltu sjá gerast í þínu bæjarfélagi á þessu ári?

„Gaman ef það væri hægt að fjölga leikvöllum fyrir börn inni í hverfunum – en það yrði náttúrulega best ef Ljósanótt yrði haldin með hefðbundnu fyrirkomulagi.“