Mannlíf

Undirbúningur fyrir Ljósanótt í fullum gangi
Guðlaug María Lewis
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 12. ágúst 2022 kl. 14:05

Undirbúningur fyrir Ljósanótt í fullum gangi

Undirbúningur fyrir Ljósanótt er í fullum gangi og gengur vel. Hefðbundin dagskrá verður á hátíðinni í ár. Kjötsúpa, heimatónleikar, Ljósanæturball, myndlistarsýningar og hin ýmsu atriði verða á sínum stað rétt eins og áður. Þó verða gerðar breytingar hvað varðar setningu Ljósanætur en hún mun fara fram fimmtudaginn 1. september klukkan 10:30 í Skrúðgarðinum og munu tveir árgangar, þriðji og sjöundi bekkur, úr hverjum skóla taka þátt í setningunni. Hver og einn skóli mun einnig hafa viðburð, hver í sinni útfærslu, á föstudeginum í tilefni Ljósanætur. 

Guðlaug María Lewis, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, segir það vera fyrirkomulag sem er komið til að vera ef tekst vel til. „Við erum orðinn svo stór bær og það var orðið alveg risa mál að ferja öll börn bæjarins að Myllubakkaskóla. Tvö eða þrjú síðustu skipti hefur þetta verið á eftirmiðdegi í Skrúðgarðinum. Nú ætlum við að taka aftur upp gamla þráðinn nema með færri börnum,“ segir Guðlaug eða Gulla eins og hún er oftast kölluð. 

Aðspurð hvernig undirbúningurinn fyrir hátíðina gengur segir Gulla: „Það er bara allt að frétta, allt á fullu. Undirbúningi miðar vel áfram, við erum að vinna að fullbúinni hátíð eins og við þekkjum, með dagskrá frá fimmtudegi til sunnudags og undirbúningur fyrir alla okkar föstu liði eru í gangi. Svo erum við að vonast eftir góðri þátttöku frá íbúum og öðrum. Þetta er svolítið þannig að við búum til umgjörðina í kringum hátíðina og svo þarf fólk að fylla upp í með einhverjum skemmtilegum viðburðum.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Miðasala á Heimatónleikana, sem haldnir eru í heimahúsum í Gamla bænum hófst rétt fyrir hádegi í dag, 12. ágúst, og má segja að þeir séu meðal þeirra viðburða sem hafi slegið rækilega í gegn á síðustu árum. Gulla hefur þetta að segja um heimatónleikana: „Heimatónleikarnir er eitt af þessum íbúa verkefnum sem ekki eru á vegum okkar [bæjarins]. Það væri gaman að sjá meira af svona, að fólk taki sig saman og búi eitthvað skemmtilegt til. Það er einmitt verið að búa til nýtt svona verkefni núna, mér finnst það vera ótrúlega spennandi viðbót.“ Hér vitnar Gulla í viðburðinn Í Holtunum heima sem mun fara fram í Holtaskóla hverfinu með svipuðu sniði og heimatónleikarnir. Þar munu koma fram flottir tónlistarmenn og er von á meiri upplýsingum um viðburðinn á næstu dögum.

Þá hefur Reykjanesbær auglýst eftir hugmyndum og athugasemdum frá íbúum sem og áhugasömum einstaklingum til að koma fram á svo kölluðu Götupartýssviði á hátíðinni. Meiri upplýsingar um framkomu á sviðinu má sjá hér: https://www.ljosanott.is/is/frettir/viltu-koma-fram-a-gotupartyssvidi-ljosanaetur