Valhöll
Valhöll

Mannlíf

Þegar höggið kemur, þá finnur þú engin svör á Instagram
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 27. maí 2023 kl. 06:48

Þegar höggið kemur, þá finnur þú engin svör á Instagram

segir Guðmundur Brynjólfsson djákni af vatnsleysuströnd

Guðmundur Brynjólfsson er djákni á Selfossi. Guðmundur er fæddur og uppalinn á Vatnsleysuströnd og predikaði í Kálfatjarnarkirkju á sérstökum kirkjudegi sem haldinn var í tilefni af 130 ára afmæli Kálfatjarnarkirkju nú á dögunum en kirkjan var vígð 1893. Predikun Guðmundar var bæði létt og hressandi, blönduð af húmor og einnig alvarlegum undirtóni. Guðmundur náði að hreyfa við kirkjugestum og prestum Kálfatjarnarkirkju þótti svo mikið til predikunar Guðmundar koma að þeir fengu kirkjugesti til að standa upp og klappa fyrir predikaranum.

Guðmundur gerði skoðanakannanir að umtalsefni í prédikun sinni, þar sem honum þykir halla á kirkjuna, þar sem spurningar sem fólk fái séu kannski ekki endilega þær réttu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Hvað finnst þér um kirkjuna þína?

„Já, mér fannst skoðanakönnun sem gerð var um skoðun fólks á þjóðkirkjunni, ekki sanngjörn. Þetta á alls ekki bara við um þessa skoðanakönnun um kirkjuna, heldur finnst mér þetta í mun víðara samhengi. Fólk er spurt hvaða hug það ber til Landhelgisgæslunnar t.d. en hvað veit fólk um þá starfsemi yfir höfuð? Ekki neitt. Þegar fólk er spurt hvaða hug það ber til þjóðkirkjunnar, er erfitt fyrir fólk að tjá sig að einhverju viti því þjóðkirkjan er ekkert annað en yfirheiti yfir allar kirkjur landsins. Þetta er svipað og spyrja aðdáendur Njarðvíkur og Keflavíkur í körfu og fótbolta, með hvaða liði þeir haldi í íþróttum. Þessir aðdáendur segjast ekki halda með KKÍ [Körfuknattleikssamband Íslands] eða KSÍ [Knattspyrnusamband Íslands], þeir halda með sínum liðum. Það sama gildir um kirkjuna, nær væri að spyrja viðkomandi um hug þess til sinnar kirkju. Þjóðkirkjan sem slík er bara bákn, með sínu embættisfólki í vinnu sem er að sýsla með fjármagn, fasteignir, eitt og annað. Stundum kemur upp gagnrýni á að það fari miklir peningar í þessi málefni og það má alveg vera réttmæt gagnrýni en ef fólk ákveður að segja sig úr þjóðkirkjunni, er það að skerða heimaþjónustuna. Í því felst barnastarfið, eldriborgarastarfið o.s.frv. sem fram fer í kirkjunum. Sóknargjöldin fara í það og ef fólk ákveður að segja sig úr þjóðkirkjunni, er það að skerða þessa þjónustu við heimabyggð sína, þjónusta sem er mjög mikilvæg. Það skiptir engu máli þótt viðkomandi segi sig úr þjóðkirkjunni, það bákn mun alltaf verða til enda borgar ríkið þann kostnað. Þess vegna vona ég að fólk staldri við og hugleiði hvaða hug það beri til sinnar kirkju, svona skoðanakönnun ætti því miklu frekar að fjalla um kirkju viðkomandi, ekki þjóðkirkjuna.“

Hvað skyldi hafa rekið Guðmund í þá átt sem hann starfar við í dag?

„Ég hef alltaf haft áhuga á trúmálum og verið trúaður yfir höfuð. Ég starfaði hitt og þetta og lærði guðfræðina frekar seint. Ég hef verið nokkuð mikið í afleysingum þar sem vantaði fólk tímabundið, ég hef aldrei verið niðurnegldur á einhverjum einum stað. Í dag er ég t.d. að vinna á Selfossi, hef verið þar síðan síðasta haust. Ég er mikið að vinna með eldri borgurum þar og sé hversu mikilvægt þetta starf er. Svo það er trúin sem rekur mig áfram, ég hef sinnt öðru í gegnum tíðina, skrifað bækur og leikrit, sinnt háskólakennslu og fræðistörfum. Mér lætur líklega best að gera eitt og annað, að vera með eggin í fleiri en einni körfu,“ segir Guðmundur.

Kirkjan mun alltaf lifa

Guðmundur hefur ekki áhyggjur af minni kirkjusókn og er með sínar skýringar.

„Fólk fer í kirkju þegar það þarf að fara í kirkju. Það eimir ennþá af COVID, það eru fleiri aðilar en kirkjan sem finna fyrir minni mætingu áður en heimsfaraldurinn reið yfir. Svo er veruleikinn orðinn öðruvísi en hann var, fólk telur sig næra sig í dag á því að skrifa færslu á Facebook eða setja mynd af sér frá Tene inn á Instagram en þegar höggið kemur, þá fer það ekki inn á      Instagram, það finnur engin svör þar. Fólk mun áfram þurfa láta skíra börnin sín, ferma o.s.frv. og þá er hátíð og það blundar held ég alltaf í fólki, þörfin á að lifa andlegu lífi. Þú nærir þann hluta ekki á neinu veraldlegu, það kemur í raun kirkjunni ekkert við.

Alls staðar er fólk að sækja í eitthvað dulið og hulið

Það er ekki hægt að fara neitt út í heim og finna þar samfélag sem gerir ekkert nema nærast, míga, skíta og þræla, alls staðar er fólk að sækja í eitthvað dulið og hulið, það þarf á því að halda til að næra í sér sálina, það er margsannað mál. Ég er á því að þessa næringu sé að finna í boðskap Jesú Krists.

Allt leitar jafnvægis, t.d. mæting fólks í leikhús en ég er nokkuð tengdur inn í þann heim. Oft hafa komið upp áhyggjuraddir með mætinguna vegna Netflix t.d. en það hafa komið miklu stærri byltingar en það fyrirbæri. Leiklist hefur tíðkast frá því að mannfélög á jörðu urðu til svo ég hef engar áhyggjur af því. Sama með bókina, vissulega hefur lestur bóka minnkað en fólk hlustar í staðinn meira á hljóðbækur. Þetta fer allt í hringi og t.d. er segin saga að þegar fjárhagskreppa skellur á, eykst bóksala. Þá hugsar fólk með sér að bók sé ekki svo dýr gjöf en þegar allt er í blóma kaupir fólk frekar nýja þvottavél og ferð fyrir alla fjölskylduna til Toscana á Ítalíu. Svo kreppir að og þá þarf fólk að líta inn á við, að eiga samtal við sjálft sig. Þar kemur bænin svo sterk inn, hún þarf ekki að snúast um að biðja til Guðs, heldur bara að tala við sjálfan sig, að finna þann hluta af sér sem maður veit að er góður. Maður getur verið óttalegur skíthæll að sumu leyti, en allir hafa eitthvað gott inn í sér og það er nauðsynlegt að tala við þann aðila í sér, sá mun leiða þig til góðs,“ sagði Guðmundur að lokum.