Flugger
Flugger

Mannlíf

Stærri áskoranir matráða í dag vegna ofnæmis
Sabina mun blanda matargerðarlist frá Ghana við þá íslensku.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 23. september 2023 kl. 06:06

Stærri áskoranir matráða í dag vegna ofnæmis

Af hverju eru ofnæmi hjá börnum algengari í dag? Allur matur unninn frá grunni á Akri. Afrísk áhrif í matargerð á næstunni?

Matráðsskipti urðu á dögunum í stærsta leikskóla Reykjanesbæjar, Akri í Innri-Njarðvík, en Sabina Arthur Rúnarsdóttir, sem er frá Ghana, tók við af Sigríði Guðrúnu Ólafsdóttur, eða Sirrý eins og hún er jafnan kölluð. Sirrý er komin á eftirlaunaaldur og Sabina, sem var henni til aðstoðar, tekur við og því gætu börnin á Akri fengið að smakka á íslenskum mat undir afrískum áhrifum á næstunni.

Sirrý fór yfir ævistarf sitt en hún er fædd og alin upp í Reykjanesbæ og hefur átt heima bæði í Keflavík og Njarðvík en undanfarin ár búið í Innri-Njarðvík. „Ég byrjaði að vinna á leikskólanum Akri þegar hann opnaði árið 2007, þá var ég aðstoðarmatráður en tók svo við eldhúsinu árið 2012. Áður en ég byrjaði á Akri bar ég út póstinn hér í Innri-Njarðvík svo ég hafði ekki neina starfsreynslu sem kokkur áður en ég en hóf störf. Ég hafði auðvitað rekið heimili og eldað mat, ég bjó líka vel af því að eiga tengdamömmu sem var bóndakona, hún var alltaf með fullt hús af fólki sem þurfti að elda ofan í, hún gerði allan mat frá grunni og það var gott að geta leitað til hennar þegar ég byrjaði. Það voru vissulega viðbrigði að fara elda ofan í hátt í 200 manns en það eru 130 börn hér á Akri og tugir starfsmanna en maður þarf að aga sig og skipuleggja, þá gengur þetta vel. Það þarf að skipuleggja viku fram í tímann hvað maður ætlar sér að elda, það þarf að panta allt í það en með skipulögðum vinnubrögðum gekk þetta vel myndi ég segja.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Engar unnar matvörur

Leikskólinn Akur er rekinn undir Hjallastefnunni, ekki verður farið nánar út í hvað felst í þeirri stefnu en þegar kemur að fæði er skýrt kveðið á um hvernig það eigi að vera. Engar unnar matvörur eru í boði og allt er gert frá grunni, meira að segja er brauðið bakað á staðnum á Akri. Eins er svínakjöt ekki í boði af trúarlegum ástæðum. Mesta áskorun fyrir matráða í dag er tíðari ofnæmi barna. „Ég man ekki eftir öðru eins, þetta hefur aukist mjög mikið frá því að ég byrjaði í þessu starfi. Það hefur alltaf verið eitthvað um ofnæmi, þá helst hnetuofnæmi og einhver bráðaofnæmi en það er miklu meira um þetta í dag. Ég veit ekki hvað hefur breyst eða hvað veldur þessu. Hér áður fyrr var þetta ekki eins algengt og út af hverju þetta hefur breyst er bara athyglisverð spurning, kannski er of mikið hreinlæti í dag. Þetta býr auðvitað til áskoranir fyrir okkur sem erum að elda matinn en við mætum hverju barni eins og það er, foreldrarnir þekkja betur hvað barnið má borða og hvað ekki, við finnum einfaldlega leiðir. Þegar ég var t.d. með fiskibollur, bauð ég upp á kjötbollur fyrir börnin sem eru með ofnæmi fyrir fiski. Annað sem hefur líka aukist er fólk sem er vegan, í dag eru t.d. tvö börn á Akri sem eru vegan. Oft gat ég eldað mat sem hentaði öllum, bæði vegan og þeim sem eru með ofnæmi fyrir einhverju, það var auðvitað hentugast en það er einföld stefna okkar hér á Akri, við mætum öllum börnum eins og þau eru og gerum okkar besta, með gleði og jákvæðni að vopni. Ef ég á að rifja upp eitthvað skemmtilegt frá þeim tíma sem ég var í eldhúsinu, hafði ég alltaf gaman af því að fá heimsóknir barnanna inn í eldhús til mín, þau voru kannski að sækja sleif eða eitthvað sem átti að nota í leik og alltaf spurðu þau hvað væri í matinn. Ef það var fiskur var gaman að horfa á eftir þeim og hlusta á hvað þau sögðu, nánast undantekningarlaust heyrði maður; „ooo, það er alltaf fiskur í matinn,“ og svo komu þau í hádegismat og borðuðu af bestu lyst. Grænmeti hefur líka oft verið ekki svo vinsælt hjá börnum en þá maukaði ég það bara saman og bauð upp á grænmetis-lasagne og börnin brostu út að eyrum. Einn guttinn sem er orðinn fullorðinn núna, vildi alls ekki borða grænmeti en honum fannst súpa sem ég kallaði Löggusúpu, vera eitthvað það besta sem hann fékk en uppistaðan í súpunni var sætar kartöflur, gulrætur og laukur, ekkert nema grænmeti. Þegar ég kom að borðinu eitt sinn þegar hann var að borða, kallaði hann hvað væri eiginlega í þessari æðislegu súpu og ég sagði honum bara að það væru svo góð krydd í henni,“ sagði Sirrý.

Sabina var Sirrý fyrst til aðstoðar en tekur núna við.

Blöndum smá Ghana í matinn

Sabina hefur búið á Íslandi í tuttugu ár. „Ég var sextán ára þegar ég flutti með mömmu til Íslands frá Ghana. Við bjuggum fyrst á Reyðarfirði en svo fluttum við til Reykjanesbæjar. Þegar ég bjó í Ghana lærði ég matargerð í framhaldsskóla og hjálpaði frænku minni mikið sem var að elda fyrir stóran hóp. Eftir að ég flutti suður vann ég í eldhúsi í leikskóla í Reykjavík áður en ég fékk starfið sem aðstoðarmatráður á Akri í ágúst í fyrra og svo tók ég við af Sirrý eftir sumarfrí fyrir rúmum mánuði. Það var gott að vera Sirrý til aðstoðar, ég lærði mikið af henni en var líka með mínar hugmyndir um hvernig ég vil gera hlutina. Ég er auðvitað vön íslenskum mat og mun bjóða upp á hann en mun líka koma með matargerð frá Ghana á matseðilinn. Mesti munurinn á matargerð þessara landa er að maturinn í Ghana er sterkari á bragðið, meira kryddaður. Það verður gaman að blanda þessum matargerðarlistum saman, hingað til hef ég bara fengið hrós frá leikskólakennurunum og börnin virðast líka vera ánægð. Ég finn hvernig sjálfstraust mitt eykst við þetta og hlakka til að bjóða öllum á Akri upp á góðan mat í framtíðinni,“ sagði Sabina að lokum.