Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Snýst um að hitta vini og vandamenn
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 25. desember 2020 kl. 07:21

Snýst um að hitta vini og vandamenn

Hrafnhildur Kristjánsdóttir er eiginkona Fannars Jónassonar, bæjarstjóra í Grindavík.

„Hefðirnar hafa breyst nokkuð hjá okkur í gegnum árin. Meðan krakkarnir voru litlir þá fórum við ásamt stórfjölskyldunni í skógræktarsvæði nærri heimahögunum og hjuggum okkur jólatré. Við skárum líka út og bökuðum laufabrauð í nokkuð mörg ár og fórum í skötu á Þorláksmessu hjá bróður mínum og hans fjölskyldu. Nú snýst aðventan frekar um að hitta vini og vandamenn, heimsækja börnin, barnabörn og aðra í stórfjölskyldunni. Við höfum líka reynt að sækja jólatónleika og aðra hátíðlega viðburði í aðdraganda jólanna en vegna Covid verður dagskráin því miður lítilfjörleg utan þess að hitta nánustu ættingja. Það er líka fastur siður hjá fjölskyldunni að borða saman í hádeginu á aðfangadag og í framhaldinu förum með kertaljós og skreytingu á leiði foreldra Fannars sem hvíla í Gufuneskirkjugarði. Á aðfangadagskvöld er systir Fannars, dætur okkar tvær og fjölskyldur þeirra hjá okkur. Á jóladag hafa svo verið jólaboð. Jólin í ár verða að mörgu leyti öðruvísi þar sem mamma mín féll frá í ágúst síðastliðnum. Hún spilaði stórt hlutverk í lífi okkar allra í fjölskyldunni og við söknum mjög vináttu hennar og samverustunda,“ segir Hrafnhildur Kristjánsdóttir eiginkona Fannars Jónassonar, bæjarstjóra í Grindavík.

„Best við jólin er samveran með fjölskyldunni og þær ljúfu og notalegu stundir sem jólahátíðin býður upp á. Við höfum reynt að taka lífinu með ró á öðrum degi jóla og haldið okkur heima við, lesið góðar bækur og notið tilverunnar. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég hlakka til jólanna þó að þau verði með öðrum hætti en venjulega. Við munum einungis hitta nánustu fjölskyldumeðlimi en stórfjölskyldan verður aðeins sýnileg á samskiptamiðlunum. Við hugsum hlýlega hvert til annars og gerum það besta úr aðstæðum. Von mín er sú að ekkert okkar smitist af veirunni en því miður eru ekki allir landsmenn sem sleppa undan þeim vágesti. 

Ég mundi segja að ég væri jólabarn. Ég hef gaman af og reyni að njóta þess sem jólin hafa upp á að bjóða. Nýt samverunnar, ljósanna, kyrrðarinnar og hátíðleikans.

Ég skreyti ekkert sérstaklega mikið, svona hæfilega fyrir minn smekk. Ég nýt þess að kveikja á kertum og er mikið fyrir allt greni, nota það nokkuð mikið og geri alltaf útikrans. Ég á mitt uppáhaldsskraut sem ég set upp um hver jól og hef gert öll mín búskaparár, ekkert mikið verið að breyta þar. Ég er að tína skrautið upp smátt og smátt alla aðventuna og enda á að setja upp jólatréð stuttu fyrir jól. Það spaugilega er að jólaskrautið sem börnin bjuggu til á unga aldri fer alltaf upp, þó að það standist ekki samanburð við flottustu skreytingar nútímans.

Mér finnst einstaklega gaman og gott að fá að búa hér, kynnast mannlífinu og kraftinum í fólkinu sem hér býr. Í Grindavík er öflugt atvinnulíf með stórum og smáum fyrirtækjum sem og listamenn og handverksfólk sem auðgar tilveruna. Hér er líka óhemju fallegt, ógnarkraftur í sjónum og stórbrotin náttúra, hraunið og gróðurinn með sínum óendanlega fallegu litum. Það er gaman að geta sagt með stolti frá því hvar þú býrð.

Nú eru aðrir tímar vegna Covid en það hefur skapast skemmtileg stemmning í kringum „fjörugan föstudag“ sem haldinn hefur verið nokkru fyrir jól. Þá eru verslanir og fyrirtæki hér í Grindavík með opið fram á kvöld og ýmislegt í boði fyrir gesti og gangandi. Þarna hefur verið margt um manninn og fyrstu merki þess að það styttist í jól. Það sem ég hef tekið eftir er hversu bæjarbúar eru duglegir að setja upp falleg jólaljós og eins má ég til með að nefna ljósin sem HS Orka varpar á mannvirkin í Svartsengi í kringum jólin. Lýsingin og gufan sem stígur uppljómuð frá iðrum jarðar setur hátíðarbrag á hið dulmagnaða umhverfi. Svo hafa tónlistarmenn lagt sitt af mörkum við að auðga á hátíðleika jólanna.

Það er aðeins ein smákökutegund sem ég baka alltaf fyrir jólin en það eru súkkulaðibitkökur sem bakaðar voru á mínu heimili þegar ég var að alast upp. Þessi uppskrift er í miklu uppáhaldi og það mun þurfa mikið til að ég sleppi þeim bakstri fyrir jól.  Annað baka ég eftir því sem mig langar og hef tíma til, ekkert stress í kringum það.“

Súkkulaðibitakökur

1 bolli smjör

1 bolli sykur

1 bolli púðursykur

2 egg

3 bollar hveiti

1 bolli kókosmjöl

1 tsk. natron

½ tsk. salt

200 gr. suðusúkkulaði

Byrjið á að þeyta vel saman smjör og  sykur, bætið eggjunum við og þeytið áfram. Blandið þurrefnum og brytjuðu súkkulaði varlega saman við. Búið til litlar kökur og bakið í 200° heitum ofni í u.þ.b. 10 mínútur.