Mannlíf

Síðasti Íslendingurinn  sem slapp til New York
Elmar Þór Hauksson.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 8. maí 2021 kl. 08:16

Síðasti Íslendingurinn sem slapp til New York

Elmar Þór Hauksson verkstjóri og starfsmaður í móttöku hjá Nýsprautun ehf. vill að Ljósanótt verði sú stærsta og flottasta í ár með tilheyrandi gleði í hjarta hvers bæjarbúa.

– Hvað er efst í huga eftir veturinn?

Allar utanlandsferðirnar og litlu krúttlegu stundirnar með fjölskyldu, maður hefur lítið farið út fyrir boxið síðastliðið ár.

– Er eitthvað eftirminnilegt í persónulegu lífi frá vetrinum?

Svo sem ekki frá síðasta vetri, en það sem lifir hvað skærast í huga mínum er afmælisferð sem ég fór með foreldrum mínum til New York í marsmánuði á síðasta ári, þar fögnuðum við 70 ára afmæli pabba. Sumir segja að ég hafi verið síðasti Íslendingurinn sem slapp til New York.

— Hversu leiður ertu orðinn á Covid?

Maður er náttúrulega orðin mjög þreyttur á því og sem betur fer hefur maður sloppið ennþá og vonandi sleppur maður alveg fram að stungunni. Þetta er ekki eitthvað sem maður ræður við og ekki hægt að pirra sig á þessu.

— Ertu farin að gera einhver plön fyrir sumarið, ferðalög t.d. ætlarðu til útlanda?

Já það er svona aðeins farið að huga að þessu, búið að fá úthlutað orlofshúsi og svo kíkir maður vonandi eitthvað á Þórshöfn, heimahaga pabba. Einnig er stefnan tekin á að keppa í Íslandsmótinu kvartmílu og slá persónulega met. Svo væri algjör draumur að komast til útlanda, stefnan er að skreppa til Þýskalands, Ítalíu og Flórída.

– Hvað myndir þú gera ef heimurinn yrði Covid-frír í næstu viku?

Hrópa þrefalt húrra og drífa sig að panta flug. Svo væri gaman að henda í smá kveðju Covid tónleika.

– Uppáhaldsmatur á sumrin?

Grillmatur er voðalega góður, svo væri gaman að fjárfesta í Uni pizzaofn eða sambærilegu og prófa sig áfram á þeim bænum. Mér finnst pizzur voðalega góðar.

– Ertu mikill grillari? Hvað finnst þér best á grillið?

Því miður þá hef ég ekki náð tökum á grillinu, en það stendur til bóta. En það besta sem ég fæ á grillið er svínahnakki a la Mamma. Hennar töfrabragð er leyni marineringin sem slær öllu við.

– Uppáhaldsdrykkur á sumrin?

Það er bara þetta hefðbundna, Coca Cola eða Pepsi. Ég hef ekki ennþá náð þeim aldri að mega smakka áfengi og er ég stoltur af því.

– Hvert myndir þú fara með gest á Reykjanesinu (fyrir utangosslóðir)?

Reykjanesið er algjör perla í heild sem gaman er að skoða. Maður er alltaf að sjá eitthvað nýtt. Ég myndi sýna völlinn þar sem mikil saga er, heilt samfélag til áratuga sem var sópað í burtu á einu augnabliki. Einnig er hægt að taka dagstúr sem byrjar í Kúagerði og endar í Krýsuvík, þar sem stígvélið væri alveg þrætt.

– Hver var síðasta bók sem þú last?

Lífið á vellinum eftir Dagný Maggýjar er sú síðasta. Ég er ekki mikill lestrarhestur því miður.

– Hvaða lag er í uppáhaldi hjá þér núna?

Þau eru svo mörg, ekki hægt að festa puttann á eitt, en það sem ég hlustaði síðast á var Shine a light með Rolling Stones.

– Hvað viltu sjá gerast í þínu bæjarfélagi á þessu ári?

Að ljósanótt verði sú stærsta og flottasta í ár, með tilheyrandi gleði í hjarta hvers bæjarbúa. Þetta var hlutlaust svar, ekki satt?