Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Sækir orku og gleði í fjöruna og sjóinn í Stóru-Sandvík
Föstudagur 28. ágúst 2020 kl. 08:58

Sækir orku og gleði í fjöruna og sjóinn í Stóru-Sandvík

Hrafn Andrés Harðarson er fæddur í Kópavogi, að Sælundi, árið 1948. Hann er fráskilinn í dag og býr einn í fínu parhúsi í Garði. Hrafn starfaði í Bókasafni Kópavogs allan sinn starfstíma eða í um 36 ár. Þegar hann hætti þar tók hann sig upp og settist að í Garðinum og unir sér þar vel. Hrafn svaraði nokkrum spurningum frá Víkurfréttum í netspjalli.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin:

Public deli
Public deli

Foreldrar mínir komu báðir að norðan, pabbi úr Þingeyjarsýslu og mamma úr Eyjafirði og Svarfaðardal. Ég ólst upp í Kópavogi, ásamt fjórum systkinum, og þar var gott að vera. Frelsið mikið til leikja og ævintýra. Bærinn á þeim tíma var hrár og fámennur. Gott fólk víðs vegar að af landinu og tilbúið að takast á við erfiðleika og barning. Flestir sóttu þá vinnu til Reykjavíkur.

Pabbi okkar dó langt um aldur fram, aðeins 42 ára gamall. Hafði verið með berkla frá því hann gekk í kaþólskan skóla í Hollandi, frá tólf til sextán ára, í litlum bæ sem heitir Schimmert. Árið 1959 var komin ný aðferð til að skera skemmd úr lungum en því miður var honum gefið vitlaust blóðvatn við aðgerðina og af því lést hann.

Mamma okkar þurfti því að fara út að vinna og það varð mikil breyting á högum okkar.

Ég fór í MA og varð stúdent 1968. Þar voru nokkrir nemendur frá Suðurnesjum. Ég kvæntist árið 1969 og við bjuggum í London í þrjú ár meðan ég nam bókasafnsfræði en konan mín starfaði á skrifstofu Flugfélagsins þar í borg og vann fyrir okkur. Svo lærði hún sömu fræði í HÍ þegar við vorum komin heim og ég vann á Borgarbókasafninu í Reykjavík. Við eigum dóttur sem er verkfræðingur og frábær messósópransöngkona. Einnig eigum við son, ári yngri en hún, og ég á svo yngri dóttur. Þá eigum við yndislegan ömmu- og afastrák sem er nú læknir.

Ég starfaði í Bókasafni Kópavogs allan minn starfstíma eða í um 36 ár. Tók við af Jóni skáldi úr Vör árið 1977 og lét af störfum í maí 2015. Ég er mikið gefinn fyrir bókmenntir og ljóðlist og var einn af frumkvöðlum Ritlistarhóps Kópavogs. Hef gefið út níu ljóðabækur en sú síðasta kom út í fyrra og ber nafnið Þaðan er enginn. Ljóðin í henni tengjast fæðingarbæ mínum, Kópavogi, á einn eða annan hátt.

Ég keypti mér parhús í Garði í maí 2015, hef búið hér síðan og líkar vel. Stunda garðinn minn í Garði.

– Hvert var ferðinni heitið í sumarfrínu?

Á síðasta ári fór ég fimm sinnum til útlanda. Þannig vildi það bara til. En í ár ferðast ég aðeins innanlands og það er fínt. Fór með systrum mínum tveimur í Suðursveit og dvöldum við í Sléttaleiti sem er krúttlegt hús rétt austan við Hala í eigu Rithöfundasambandsins. Við skoðuðum okkur um á þeim slóðum og heimsóttum m.a. Höfn í Hornafirði. Var gaman að geta gefið sér tíma til að skyggnast um á stöðum þar sem maður hafði áður aðeins brunað um – og það er virkilega gaman að gefa sér tíma til að skoða Þórbergssetur! Mæli með því.

– Skipulagðir þú sumarfríið fyrirfram eða var það látið ráðast af veðri?

Sumt þarf að skipuleggja fyrirfram, t.d. ef maður ætlar að leigja sér húsnæði. Annað kemur af sjálfu sér, til dæmis ferðir hér um Suðurnesin.

– Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

Einn af uppáhaldsstöðum mínum hér er Stóra-Sandvíkin, þangað fer ég oft og sæki mér orku og gleði í fjöruna og sjóinn! Þetta er falinn fjársjóður og ég vona að sem fæstir fái að vita það!

Þá fer ég oft austur um og ek þá Suðurstrandaveginn. Kem stundum við í hverfinu við Strandarkirkju. Fæ mér heitt kakó og vöfflur! Á kæra systur í Keflavík og við förum saman vítt og breitt um svæðið. Hún þekkir vel til og hefur frætt mig um margt. Ég uppgötvaði Stóru-Eldborg fyrir nokkrum árum og gekk á hana. Hún er undur sem fáir vita um þótt hún sé nánast í alfaraleið! Sama á við um margar perlur hér á Suðurnesjunum og kannski er best að láta sem fæsta vita af þeim.

Annar uppáhaldsstaður er Grindavík og nesið þar utar. Fæ mér humarsúpu á Bryggjunni og eða heitt súkkulaði og marengstertu! Jummí! Í sumar gekk ég á Þorbjörn en varð ekki var við neina lyftingu þar!

Svo fékk ég lánað bjálkahús í Vaðlaheiðinni fyrir norðan í júlí. Þar var ég með elstu systur minni í eina fjóra daga, við ókum m.a. út í Grenivík, komum við í Laufási og kíktum í Nes í Höfðahverfi en þar bjó langalangafi okkar, Einar Ásmundsson í Nesi. Einnig ókum við eins langt norður og við komumst, í átt að Látraströnd og lentum þar í óvegi. Urðum að snúa við þar sem varla var hægt um vik en nýi Jimny-inn minn kallar ekki allt ömmu sína!

– Hvaða stað fannst þér áhugaverðast að heimsækja í sumar?

Ég er mjög hændur að Fljótshlíðinni og þar á ég vini, meðal annars félaga í Rótaríklúbbi Rangæinga. Fór með þeim í Hekluskóga í vor og plantaði birki. Ég á einnig rætur til Eyjafjallanna og þaðan kom annar langafi minn til Innri-Njarðvíkur, Árni Pálsson, sem bjó í Narfakoti, mikill barnakennari og bindindisfrömuður með meiru. Kona hans var Sigríður Magnúsdóttir, mikil merkis- og kjarnorkukona. Þarna voru komin Narfakotssystkinin Ásta málari, Magnús Á. Árnason og Þórhallur Árnason, afi minn, sem var sellóleikar í sinfóníunni.

– Ætlar þú að ferðast eitthvað meira innanlands á næstunni?

Í haust ætla ég að skoða mig um á Snæfellsnesi en ég fór þar um þrisvar sinnum á síðasta ári. Þar er ótrúleg náttúra og fyrirbæri sem vert er að kynna sér og endalaus undur, bæði norðanvert og sunnanvert á nesinu. Ég mun líka heimsækja kirkjur sem geyma listaverk Wilhelms Beckmann. Hann var þýskur flóttamaður undan nazistum og gekk að eiga konu frá Syðri-Knarrartungu á sunnanverðu Snæfellsnesi. Í haust kemur út bók um listamanninn og mun hún vekja athygli.

– Hvert er þitt helsta áhugamál?

Ég stunda ræktina af ákafa en hún felst í puði í garðinum mínum hér í Garði. Hann er ákaflega erfiður og er mikið átak að grafa fyrir einu tré. Það kemur urð og grjót upp úr hverri holu og engin er moldin, svo ég verð að kaupa mér mold og reyna að búa hana til með safnhaugi.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Ég slaka á með glápi á Netflix. Horfi sennilega einum of mikið á framhaldsþætti þar. Helst horfi ég á kóreska framhaldsþætti, suma sögulega, og hef mikið gaman af. Þá eru líka í uppáhaldi hjá mér tyrkneskir þættir sem margir byggja á sögulegum þráðum. Ég horfi orðið lítið á ríkissjónvarpið enda fátt þar annað en glæpaseríur sem ég hef lítinn sem engan áhuga á. Sé fréttir og einstaka fróðlega þætti og get þar nefnt þáttinn um Pál á Húsafelli, sem var hreinasta gull!

– Hvaða matur er í uppáhaldi hjá þér?

Ég vil helst borða gamaldags, íslenskan mat og svo austurlenskan, tælenskan og indverskan. Er mjög ánægður með fisk og franskar sem nú eru í boði á Fitjum!

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Ég á mína tónlist, hlusta á diska úr mínu eigin safni. Uppáhald er t.d. Imogen Cooper, píanóleikari sem leikur Schubert betur en nokkur annar.

– Besta kvikmyndin?

Uppáhaldskvikmynd mín er Tvöfalt líf Veroníku eftir Kieslowsky og myndirnar Rauður, Hvítur og Blár. Auk þess er Andrei Tarkovsky í miklu uppáhaldi. Ég er hrifinn af kvikmyndatónlist, t.d. Maurice Jarre.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða -rithöfundur?

Ég hef lesið mikið en les minna núna. Er að lesa bók sem heitir Cicero og samtíð hans eftir Jón Gíslason. Cicero sagði: Quousque tendem, Catiline, abutere patientia nostra? eða Hversu lengi enn, Catalína, ætlar þú að ofgera þolinmæði okkar? (og mætti heimfæra á t.d. Miðflokkinn og Dónann Trömp). Það sem ég læri af lestri þeirrar bókar er sú staðreynd að ekkert er nýtt undir sólu og ekkert breytist í raun.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Í fari mínu fer mest í mína fínu hvað ég er gráðugur í mat! Ég er síétandi og get ekki hætt að láta mig langa í eitthvað gómsætt og gott. Ég er fínn kokkur fyrir minn smekk!

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Í fari annarra ... ég held að best sé að segja sem fæst um það! Ætla að eiga nokkra vini enn um sinn.

– Uppáhaldsmálsháttur eða -tilvitnun:

„Svo lengi lærir sem lifir“ er málsháttur sem á vel við annað áhugamál mitt, sem er U3A Suðurnes, eða Háskóli þriðja æviskeiðsins, sem starfar hér á Suðurnesjum og veitir mér og mörgum öðrum ómælda ánægju. Allir eru velkomnir í U3A Suðurnes! Þá er ég nýorðinn sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og það er mjög gefandi og gaman að kynnast fólki frá fjarlægum löndum.

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Elsta minningin er hjartsláttur og þungur andardráttur móður minnar þegar hún hafði hlaupið mig uppi á Skjólbrautinni þar sem ég hafði gert í buxurnar og kærði mig ekki um að fara heim. Hún varð því að hlaupa mig uppi og bera mig heim og upp á borð í eldhúsinu þar sem hún gerði að mér!

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

„Bölvað vesen,“ segi ég oft við sjálfan mig – og reyni að stilla mig.

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Ég færi helst til Rómar hinnar fornu og yrði þar konsúll með mikil völd og gæti etið vínþrúgur og franskbrauð alla daga!

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Ef ég skrifa ævisögu mína mun hún heita: Sjálfum mér var ég verstur.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

2020 er ár þrenginga og áskorana. Kvíðvænlegt og óhuggulegt ár veirunnar skæðu en ég beiti mig sjálfsaga og segi í tíma og ótíma: „Hvað er það versta sem gæti gerst? Ég dey – og það mun áreiðanlega verða, það er það eina sem er alveg víst í henni veslu!“

– Hver er tilfinning þín fyrir haustinu og komandi vetri?

Ég hlakka ekki til vetrarins en mun reyna að kveikja oft ljós á kertum, hugsa til þeirra mörgu sem eru farnir á undan og hlakka til að komast til þeirra sem mér eru kærastir.

– Hver er besti brandari sem þú hefur heyrt nýlega?

Einn af mörgum bröndurum ársins er þessi: „Árið 1917 geisaði spænska veikin og hún varð til þess að stöðva síðari heimsstyrjöldina!“ (Dóninn Trömp, 2020).