Bilakjarninn
Bilakjarninn

Aðsent

Ekki vænlegt til árangurs að kenna öðrum um vandann
Fimmtudagur 3. júlí 2025 kl. 11:28

Ekki vænlegt til árangurs að kenna öðrum um vandann

Á síðasta bæjarráðsfundi fór meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar mikinn í bókun sinni. Þar kenndi meirihlutinn öllum öðrum um hvað miður hefur farið undanfarin misseri, en neitar að horfast í augu við áhrif eigin stjórnunar og forgangsröðunar síðustu ellefu ár. Eins er látið að því liggja í bókuninni að ekkert hafi verið athugavert við fjármálastjórnun meirihlutans. Þessum atriðum skal svarað hér.

  1. Á ellefu ára valdatíð meirihlutans hafa tekjur sveitarfélagsins hækkað um 18 milljarða, úr 9,7 milljörðum árið 2014 í 27,8 milljarða árið 2024. Hafa tekjur hækkað um 4 milljarða umfram neysluvísitölu. Auk þess þurfti engar fjárfestingar í upphafi þar sem innviðir voru til staðar. 

Meirihlutinn segir í bókun sinni að sveitarfélagið hafi verið nær gjaldþrota árið 2014. Í ársreikningi 2014 voru þó innistæður í banka hlutfallslega mun hærri en í dag miðað við rekstrargjöld. Í dag eru mánaðarleg rekstrargjöld Reykjanesbæjar að meðatali um 2,1 milljarður, en um áramót voru bankainnistæður, samkvæmt ársreikningi, 113 milljónir. Augljóst er að ómögulegt er að standa við skuldbindingar sveitarfélagsins, með svo lágar bankainnistæður og alvarlegt að ekki hafi verið brugðist við fyrr en raun bar vitni. 

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Síðan segir í bókuninni „við höfum náð að safna í sjóði og lifað á eigin fé í allnokkur ár“. Það er væntanlega í fyrsta skipti í sögunni sem nærri gjaldþrota sveitarfélag getur lifað af eigin fé í allnokkurn tíma, enda felst gjaldþrot í því að eigið fé er uppurið. Sá sjóður sem meirihlutinn bendir á að safnað hafi verið í, felst í greiðslu upp á um 5 milljarða króna,  sem sveitarfélagið fékk fyrir svokölluð Magmabréf, og kom það sér vissulega vel þegar byggja þurfti nýjan skóla í innri Njarðvík. Eins var verulega dregið úr viðhaldi bygginga bæjarins, sem hefur svo heldur betur komið í bakið á okkur.

Gagnrýni á framferði meirihlutans gagnvart fyrirtækjum í einkarekstri í sveitarfélaginu og víðar, sem ekki hafa fengið greitt á réttum tíma, og þar af leiðandi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar er einnig svarað í bókun meirihlutans. Þar segir: „Reykjanesbær sem sveitarfélag sem gætir að fjármunum skattgreiðenda sinna greiðir ekki dráttarvexti“. Það er óneitanlega sérstakt að tilkynna lögbrot með slíku stolti í formlegri bókun. Það á auðvitað að vera stefna sveitarfélagsins að greiða ekki dráttarvexti, en til að svo geti verið eru tvær leiðir færar; að greiða á réttum tíma eða semja við kröfuhafa. Að taka svona einhliða ákvörðun er óboðlegt og ólöglegt.  

  1. Í bókun meirihlutans segir „..Við erum að sækja um 2,5 milljarða….“. Það eykur ekki traust okkar á fjármálaskilningi meirihlutans, að hann nefni aðeins 2,5 milljarða í bókuninni. Samtals hefur bæjarstjórn samþykkt lántöku sem nemur 5 milljörðum. Þann 18. nóvember 2024 var óskað eftir 2,5 milljörðum og þeir greiddir út þann 15. janúar 2025. Þann 3. apríl 2025 var óskað eftir heilmild til lántöku að upphæð 2,5 milljarðar sem staðfest var í bæjarstjórn þann 15. apríl 2025. Var asinn þvílíkur að boða þurfti til aukafundar í bæjarstjórn að morgni 4. apríl, degi eftir að óskin um langtímalántöku var samþykkt í bæjarráði. Á þeim fundi kom fram ósk um samþykki fyrir skammtímafjármögnun að upphæð 1 milljarður sem átti að brúa bilið þar til langtímafjármögnunin yrði greidd út. Á þessum tíma hafði bæjarstjórn ekki staðfest heimild til langtímalántöku upp á 2,5 milljarða til viðbótar. Samtals er langtímalántakan því komin í 5 milljarða. Þetta er ekki góð fjármálastjórnun og ljóst að mikill skortur er á yfirsýn meirihlutans.

Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekki athugasemdir við þessar langtímalántökur, en þær þurfa að vera skipulagðar mun betur, tímanlegar og í samræmi við fyrirséð fjárútlát sveitarfélagsins.

  1. Í fjárfestingaáætlun Reykjanesbæjar voru samþykktar 1.750 milljónir í fjárfestingar í hin ýmsu verkefni. Þar sem verkefnin við Holtaskóla, Myllubakkaskóla og leikskólann Drekadal hafa farið töluvert yfir áætlun, þá hefur þurft að skera niður öll önnur verkefni sem framundan voru. Samþykkt hefur verið að einblína á að ljúka við þau þrjú sem talin eru hér að framan. Í ljósi framúrkeyrslu fjárfestingaverkefna og lausafjársvanda sveitarfélagsins er það skynsamlegt. 
  2. Í bókun meirihlutans segir: „… höfum við verið að yfirfara laun sveitarfélagsins. Við höfum tekið þá ákvörðun, til hagræðingar, að lækka laun sviðsstjóra og bæjarstjóra um 10%. Í framhaldi af því verður framtíðarfyrirkomulagi þeirra launa breytt sem tengist þá við hækkun kjarasamninga þeirra fagstétta í stað þess að vera vísitölutengd“. Sjálfstæðisflokkur fagnar þessari ákvörðun sem er löngu tímabær og í samræmi við tillögur okkar í upphafi kjörtímabils, þar sem við bentum á að það væri í hæsta máta óeðlilegt að vísitölutengja laun stjórnenda Reykjanesbæjar þegar hinn almenni launþegi fær krónutöluhækkanir á sín laun. Við vísum til bókana okkar í bæjarstjórn í júní 2022. 

Það eru ýmsar áskoranir í rekstri sveitarfélaga og á þessu kjörtímabili samþykktum við svokallað innviðagjald sem átti að standa undir innviðauppbyggingu og er þegar farið að skila sér í töluverðum tekjum til Reykjanesbæjar.

Undanfarin ár hafa tekjur Reykjanesbæjar hækkað mikið og íbúum fjölgað.  Mikil tækifæri eru til staðar, enda býr Reykjanesbær einstaklega vel að umgjörð varðandi atvinnuuppbyggingu, með frábærar hafnir, alþjóðaflugvöll, nægt landsvæði og vinnuafl. Þessi tækifæri þarf að nýta. Skýr framtíðarsýn og góð stýring á sveitarfélaginu gerir okkur kleift að verða öflugasta sveitarfélag landsins. Það þarf að takast á við tímabundinn lausafjárvanda og efla stjórnun. Það er ekki vænlegt til árangurs að kenna þeim um vandann,  sem benda á það sem betur má fara, heldur ganga í málin og stýra skútunni í rétta átt með faglegum hætti. Þannig sköpum við Reykjanesbæ bjarta framtíð.

Margrét Sanders,

Sjálfstæðisflokki.