Bilakjarninn
Bilakjarninn

Aðsent

Ferðaþjónustan á Reykjanesskaganum undir þrýstingi
Miðvikudagur 2. júlí 2025 kl. 10:04

Ferðaþjónustan á Reykjanesskaganum undir þrýstingi

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur leggur nú til að taka upp kílómetragjald sem er nýtt, flókið og íþyngjandi gjaldakerfi sem kemur harðast niður á landsbyggðinni, ferðaþjónustu og atvinnulífinu. Hugmyndin gengur út á að leggja af eldsneytisgjöld (fyrir utan kolefnisgjald) og rukka þess í stað sérstakt gjald eftir akstri. Þetta hefur miklar og raunverulegar afleiðingar, ekki síst fyrir Reykjanesskagann, þar sem ferðaþjónusta og vöruflutningar eru alltumlykjandi hluti af atvinnulífinu.

Íþyngjandi breyting fyrir heimili og fyrirtæki

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Fyrir almenna ökumenn á bensín- og dísilbílum felur þetta í sér reglulega skráningu, eftirágreiðslur og flókin kerfi sem krefjast tækni og utanumhalds. Þeir sem standa höllum fæti í fjármálum eða eru lítt tæknivæddir munu finna fyrir aukinni byrði. Og það í kerfi þar sem kostnaðurinn er ekki lengur sýnilegur við dæluna, heldur kemur síðar og oft óvænt.

En atvinnulífið mun einnig bera þungan bagga. Fyrirtæki þurfa að fjárfesta í nýjum tölvukerfum, ráða til sín starfsfólk í utanumhald og standa straum af auknum umsýslukostnaði vegna gjalds sem hingað til hefur einfaldlega verið innheimt við eldsneytiskaup. Það er því engin tilviljun að umsagnir atvinnulífsins um málið eru harðorðar.

„Þetta hefur gríðarleg áhrif á bílaleigur og þar með ferðaþjónustu á Reykjanesskaganum. Áætlað er að kílómetragjaldið muni hækka kostnað bílaleigubíla um 12–17%“

Veikir samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar

Þetta hefur gríðarleg áhrif á bílaleigur og þar með ferðaþjónustu á Reykjanesskaganum. Áætlað er að kílómetragjaldið muni hækka kostnað bílaleigubíla um 12–17%. Það er hækkun sem mun óhjákvæmilega skila sér til ferðamanna, draga úr komu þeirra og veikja samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar. Slíkar breytingar eru sérstaklega varhugaverðar á svæðum eins og Reykjanesskaganum, þar sem ferðaþjónustan gegnir lykilhlutverki. 

Við ættum að styðja við ferðaþjónustuna, ekki veikja hana með flóknum og íþyngjandi gjaldtökuformum sem ýta undir verðbólguþrýsting og draga úr aðgengi og vilja ferðamanna til að ferðast um landið vegna íþyngjandi kostnaðar.

Skattlagning á nauðsynjar og verðmætasköpun

Fyrir rekstraraðila þungra ökutækja, sem annast vöruflutninga um land allt, hefur frumvarpið alvarlegar afleiðingar. Með auknum kostnaði við flutning nauðsynjavara og útflutningsafurða er verið að grafa undan grunnstoðum samfélagsins og veikja samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsgreina á erlendum mörkuðum.

Þetta bitnar ekki eins mikið á höfuðborgarsvæðinu, heldur fyrst og fremst á landsbyggðinni, þar sem vöruflutningar eru ekki valkostur heldur forsenda fyrir daglegu lífi og atvinnustarfsemi.

Af hverju skiptir þetta máli? Jú, það er vegna þess að hærri flutningskostnaður þýðir hærra vöruverð. Nauðsynjavörur verða dýrari, útgjöld almennings aukast, og áhrifin smitast út í allt verðlag. Vöruþróun og nýsköpun á landsbyggðinni veikist og verða síður samkeppnishæf.

Nýtt bákn fyrir það sem þegar virkar

Það sem gerir málið enn alvarlegra er að núverandi kerfi virkar. Eldsneytisgjöld eru innheimt við dæluna, skýrt, einfalt og skilvirkt. Enginn þarf að halda utan um ferilbækur eða hlaða upp akstursgögnum. Með því að skipta því út fyrir flókið kerfi með auknu eftirliti, skráningu og ófyrirsjáanlegri gjaldtöku, er verið að skapa nýtt bákn sem mun kosta meira, valda villum og krefjast meiri mannafla hjá ríkinu sjálfu. Það er dapurt að ríkisstjórnin virðist staðráðin í að flækja það sem virkar.

Nú reynir á pólitíska forgangsröðun. Veljum við einfaldleika og skynsemi, eða kerfisflækjur og aukin útgjöld? Sjálfstæðisflokkurinn mun hafna þessari leið og standa vörð um þá sem minna mega sín, atvinnulífið og landsbyggðina.

Á svæðum eins og í Reykjanesbæ, þar sem ferðaþjónusta, bílaleigur og útflutningsstarfsemi eru burðarásar atvinnulífsins, eru afleiðingar kílómetragjaldsins ekki abstrakt hugtak á blaði, heldur raunveruleg ógn við störf, verðlag og framtíðaruppbyggingu.

Við eigum að velja leiðir sem styðja við vaxtarbrodda, ekki grafa undan þeim.

Vilhjálmur Árnason,

ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins