Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Mannlíf

Reykjanesið er ótrúleg náttúruperla
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 28. maí 2023 kl. 06:56

Reykjanesið er ótrúleg náttúruperla

– segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, sem er ötull áhugaljósmyndari og hafa glæsilegar landslagsmyndir hans heillað marga. Má þar kannski helst nefna stórbrotnar ljósmyndir Ingibergs frá gosstöðvunum í Meradölumsem hafa m.a. birst í miðlum Víkurfrétta og víðar.

„Ég hef oft hugsað um að klára ljósmyndanámið sem ég byrjaði á en það er orðið svo ógeðslega langt síðan. Ég fór á samning í ljósmyndun en endaði svo á að fara á sjóinn af því að afi átti bát,“ segir Ingibergur sem fékk ljósmyndabakteríuna þegar hann var í grunnskóla.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég eignaðist fyrstu myndavélina mína þegar ég var tólf eða þrettán ára gamall. Það var austur-þýsk 35 mm vél af gerðinni Praktica, ég á meira að segja mynd af mér með hana um hálsinn.

Siggi Ágústar, lögreglumaður, var með ljósmyndaklúbb í Grunnskóla Grindavíkur og dró mig þangað inn. Maður var að framkalla svarthvítar myndir, þar byrjaði ég og gerði ekkert annað. Þetta var ógeðslega gaman, ég hélt tvær ljósmyndasýningar áður en ég varð fimmtán ára gamall.“

Ingibergur tólf, þrettán ára gamall með Praktica-vélina um hálsinn.


Hefurðu alltaf verið í landslagsmyndum, eða mannlífsmyndum og allskonar?

„Landslagið hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Mér finnst mjög gaman að ferðast og taka myndir af fólki úti á gangi, svona „street life“ eins og þeir kalla það. Þegar ég þarf að hreinsa hausinn og fá smá frið og ró þá finnst mér voðalega gott að fara eitthvert upp á fjöll með vélina og drónann og mynda landslagið,“ segir Ingibergur en hann og Jón Þorkell, bróðir hans, hafa verið sérstaklega iðnir við að leggja land undir fót og mynda það sem fyrir augu ber. „Ég ýtti honum út í það að byrja að mynda aftur. Hann átti enga vél en við erum búnir að vera mjög duglegir, svo hef ég haft allt of lítinn tíma undanfarið. Það er svo mikið að gera í vinnu,“ segir hann en Ingibergur hefur atvinnu af því að mynda fasteignir. „Það er svona aukavinna hjá mér en ég er að vinna í Össur Iceland. Þetta er sex þúsund manna alþjóðlegt fyrirtæki og ég sé til þess að fólk komist erlendis og heim aftur. Mitt er að skipuleggja ferðir, það eru kannski tíu manns að fara á vegum fyrirtækisins og þá þarf kannski tvo, þrjá bíla og þar fram eftir götunum. Mitt er svo að sækja fólkið, sem býr kannski vítt og breytt um höfuðborgina, og koma þeim á réttum tíma í flug og skila þeim svo heim aftur. Ég keyri svona tíu til tólf þúsund kílómetra á mánuði. Svo er maður náttúrlega í körfunni svo það er brjálað að gera.“

Þú ert líka eitthvað að fjórhjólast, er það ekki?

„Jú, helling. Gerði meira af því en ég geri í dag. Ég er búinn að vera í Melrökkum í nokkur ár og ferðast mikið upp á hálendið. Ég er með hjólhýsi á Flúðum, þannig að það er stutt að fara upp í Kerlingarfjöll, Landmannalaugar eða taka Sprengisand. Ég er í þessum félagsskap og er búinn að hjóla fleiri þúsund kílómetra um hálendið með þeim.“

Ertu þá að taka lengri ferðir og gista á hálendinu?

„Já, við höfum tekið Flúðir, Kaldadal og sofið í Húsafelli. Keyrt vestanmegin upp með Langjökli, þaðan inn á Kjöl og upp í Kerlingarfjöll, gist þar og keyrt bara heim. Við höfum tekið Sprengisand alla leið norður í Varmárhlíð og til baka, gist í fjóra daga og farið í Hólaskóg og Mælifellssandinn, inn í Eldgjá og gert þetta allt á þremur, fjórum dögum.

Ég er búinn að fara nokkrar svona þriggja til fjögurra daga ferðir. Ógeðslega gaman.“

Er helsjúkur fíkill

Ingibergur hefur ekki þorað að fara út í veiði en hann segist vera algjör fíkill þegar kemur að áhugamálum. „Ég á marga vini sem eru í veiðinni og þeir hafa legið í mér að byrja. Ég hef farið í laxveiði í nokkrar ár en ef ég myndi byrja þá færi ég „all in“. Ég er svo mikill fíkill.

Ég á fjórar myndavélar, nú er ég kominn með fimmuna [Canon EOS R5] sem er speglalaus og ég sá fyrir mér að fara rólega í það að skipta yfir í hana. Það gekk auðvitað ekki eftir og núna er maður kominn með allar linsurnar, maður er náttúrlega sjúkur,“ segir Ingibergur og beinir talinu að fjórhjólinu sínu.

„Það er eins með fjórhjólið mitt, þú finnur ekki öflugra hjól á landinu. Það er á þrjátíu tommu dekkjum, stærra en á Yaris sko, þetta er svakalegt. Ég þyrfti nú að taka þig hring og sýna þér hérna á Reykjanesinu. Ef þú hefur bara keyrt bíl á Reykjanes þá áttu eftir að sjá margt, þetta er ótrúleg náttúruperla. Það segja margir að hér sé ekkert að sjá en það er svo mikið kjaftæði.

Ég hef mjög gaman af því að mynda vötnin hérna og svo eru tveir fossar á Reykjanesi. Ég spyr stundum að gamni á Facebook: „Vitið þið hvaða vatn þetta er?“ Fólk veit ekki neitt, það hefur ekki skoðað þetta svæði. Reykjanesið á túrismann svolítið inni, þetta hefur ekki verið mikið sótt af ferðamönnum. Ég er búinn að fara þetta allt og þekki svæðið eins og lófann á mér.“

Margar mynda Ingibergs eru hreinasta listaverk.


Fyrstur til að mynda gos á Reykjanesi síðustu átta hundruð ár

„Það er gamana að segja frá því að ég held að ég hafi náð fyrstu myndinni af rennandi hrauni sem hefur verið tekin hérna síðustu átta hundruð árin,“ segir Ingibergur. „Ég keyrði eins og óður maður hérna austur eftir og þeir lokuðu veginum þannig að ég henti drónanum upp og flaug einhvern þrjá og hálfan kílómetra til að ná þessari mynd. Hún er ekkert sérstök en söguleg. Svo bara daginn eftir hringir RÚV í mig og vill fá að komast upp að gosstöðvunum. Ég hringdi í þrjá aðra félaga mína í Melrökkum og við fórum með þá uppeftir og komum fyrir fyrstu vefmyndavélinni sem allur heimurinn horfði svo á. Það var svolítið gaman.

Ég á GPS-track af mér þar sem ég var á þeim stað sem gígurinn myndaðist viku fyrr. Þetta var leiksvæðið okkar, Meradalir og sérstaklega á veturna þegar allt var á kafi í snjó. Við leikum okkur ekki meira þarna, alla vega ekki næstu tíu árin.“

Ingibergur hvetur Grindvíkinga til dáða í sigurleik gegn Njarðvík. VF/JPK

Mikill hugur í Grindvíkingum

Að lokum beinist talið lítillega að körfuboltanum í Grindavík en þar er mikill hugur í mönnum og hafa nokkrir leikmenn gengið til liðs við Grindavík fyrir næsta tímabil. Menn eins og Dedrick Basile frá Njarðvík, Valur Orri Valsson frá Keflavík og þá hefur Ólöf Rún Óladóttir snúið aftur heim eftir að hafa leikið undanfarin tímabil með Keflavík. Einnig hafa nokkrir útlendingar bæst í hóp Grindvíkinga og virðist stefnan tekin á að vinna titla.

„Það væri mjög gaman að fara alla leið með bæði liðin og það er ekkert leyndarmál að okkur langi það. Það var haldinn fundur og við komumst að því að það væri allt of lítill peningur til hjá deildinni. Við höfum verið að reka karla- og kvennaliðið fyrir minni pening en Höttur var að reka karlaliðið sitt. Þannig að við blésum til sóknar og höfum fengið góðan meðbyr hjá stuðningsfólki og styrktaraðilum. Það gekk einnig ótrúlega vel að semja við leikmenn og við bíðum spennt eftir næsta tímabili,“ sagði Ingibergur Þór að lokum.


Glæsilegt myndasafn Ingibergs má sjá neðst á síðunni og í spilaranum hér að neðan er fyrsta myndskeiðið sem tekið var af gosinu í Meradal.

Ljósmyndir Ingibergs Þórs Jónassonar