Bygg
Bygg

Mannlíf

Öryggi á ungmennaþingi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 10. maí 2025 kl. 06:25

Öryggi á ungmennaþingi

Rúmlega 150 börn úr grunnskólum Reykjanesbæjar tóku þátt í barna- og ungmennaþingi Reykjanesbæjar

Barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar var haldið á dögunum og mættu tuttugu ungmenni úr hverjum grunnskóla Reykjanesbæjar, alls á milli 150-160 börn, og réðu ráðum sínum. Yfirskriftin í ár var Verum örugg og var talað um allt frá umferðaröryggi til öryggis á netinu. Ekki er loku fyrir það skotið að einhver erindi verði borin upp af ungmennaráðinu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í nánustu framtíð.
Betsý Ásta Stefánsdóttir.

Betsý Ásta Stefánsdóttir er starfsmaður Fjörheima sem er frístundamiðstöð ungmenna í Reykjanesbæ en auk þess er hún önnur umsjónarmanna Ungmennaráðs Reykjanesbæjar. Starfsemi Ungmennaráðs fer fram að Hafnargötu 88, í húsnæði sem í daglegu tali er kallað 88 húsið.

„Þetta barna- og ungmennaþing er haldið á tveggja ára fresti og var öryggi þemað í ár. Við fáum tuttugu ungmenni úr áttunda til tíunda bekk úr öllum grunnskólum Reykjanesbæjar til að taka þátt í þinginu og eru þau annað hvort lýðræðislega kjörin af sínum bekk eða að kennararnir þeirra mæla með því að þau taki þátt í þinginu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Á þinginu í ár ræddum við öryggi frá ýmsum hliðum, öryggi í umhverfinu, öryggi í samskiptum, netöryggi, öryggi í skóla o.s.frv. Við skiptum þessum hlutum niður á borð og var einn úr ungmennaráði sem stýrði umræðum um viðkomandi málefni, börnin fluttust svo yfir á næsta borð og svo koll af kolli, þannig gátu allir tekið þátt í öllum umræðuþáttum.

Undirbúningur fyrir þingið hófst í september og eru það krakkarnir í Ungmennaráðinu sem stjórna ferðinni frá a-ö, allt frá því hvað er rætt á þinginu yfir í hvaða veitingar boðið er upp á. Þau vildu hafa yfirskriftina í ár öryggi og eins vildu þau hafa bleikt þema, til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur sem lést í hörmulegri hnífsstunguárás á síðasta ári.

Mér heyrist á krökkunum og umræðunni að netöryggi hafi verið þeim efst í huga, bæði samfélagsmiðlanotkun og svo er gervigreindin alltaf að ryðja sér meira til rúms, þeim finnst ógnvænlegt að vita ekki hverju sé hægt að trúa á netinu og hverju ekki. Ákveðið var að hafa þingið í ár skjálaust, þ.e. engir símar og engar tölvur. Gamli góði penninn var tekinn upp og skrifuðu krakkarnir uppástungur á post it miða, svo var kosið á milli uppástunga með handauppréttingu í stað þess að notast við eitthvað forrit. Þetta kom mjög vel út, krakkarnir voru himinlifandi að hvíla símana og tölvurnar.“

Flottasta ungmennaráðið á Íslandi?

Blaðamaður hefur séð meðlimi ungmennaráðs Reykjanesbæjar halda erindi fyrir bæjarstjórn og án þess að þekkja til allra ungmennaráða, hefur hann á tilfinningunni að ungmennaráð Reykjanesbæjar standi ansi framarlega á landsvísu.

„Ég er kannski ekki hlutlaus en ég vil meina að ungmennaráðið okkar sé ofboðslega flott og er alltaf gaman þegar skólar utan af landi hafa samband við okkur og vilja fræðast um hvernig ungmennaráðið okkar starfar. Það er alltaf stór og myndarlegur hópur sem kemur að ungmennaráðinu okkar og það er tekið eftir þeim, þau eru ótrúlega flott þegar þau halda erindi fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar, koma vel undirbúin og eru ótrúlega flott í ræðupúltinu. Við eigum eftir að leggjast yfir hvað kom fram á þessu þingi en það kæmi mér ekki á óvart að eitthvað af því sem var til umfjöllunar hér í dag eigi eftir að rata inn á fund bæjarstjórnar Reykjanesbæjar,“ sagði Betsý.

Katrín Alda Ingadóttir.

Allir krakkar hafa skoðun á strætó

Katrín Alda Ingadóttir er í Ungmennaráði Reykjanesbæjar og setti þingið í ár. Hún segir að það hafi verið gaman að fá að setja þingið og útskýra fyrir þátttakendum hvernig það færi fram og hvert niðurstöðurnar myndu rata.

„Sumir halda að það sé ekki gert neitt með þær en það er alls ekki svo. Ég sagði krökkunum líka frá hversu vel hefði gengið á síðasta þingi og hve mikið af þeim niðurstöðum rötuðu inn á borð bæjarstjórnar. Ég myndi vilja sjá þetta barna- og ungmennaþing haldið á hverju ári en það hefur hingað til bara verið haldið annað hvert ár. Ég er búin að vera í ráðinu síðan ég var formaður nemendaráðs Stapaskóla en í dag er ég í FS á fyrsta ári, mér finnst þetta mjög skemmtilegt.

Ég held að þingið í ár hafi tekist mjög vel. Ég var mest að tala um öryggi í samskiptum og umhverfinu, samskiptaflokkurinn er svolítið breiður og því var pínu flókið og erfitt að tala um það en samt voru góðar umræður sem sköpuðust. Það var auðveldara að tala um umhverfið, allir krakkar hafa skoðun á strætókerfinu t.d., krakkar vilja bæta lýsingu á fjölförnum leiðum og leikvöllunum í gömlu hverfunum, það er eins og bara sé hugsað um lýsingu í nýju hverfunum.

Netmálin báru líka á góma og það var mikið talað um símana í skólum og voru skiptar skoðanir, sumir vilja alveg banna síma í skólanum en aðrir eru algjörlega ósammála því en flestir eru á því að það eigi sömu reglur að gilda í öllum skólum Reykjanesbæjar.

Ég er búin að vera í nokkur ár í ungmennaráðinu og þekki til ungmennaráða í öðrum bæjarfélögum. Þótt ég reyni að vera hlutlaus þá tel ég að við hér í Reykjanesbæ séum að gera mjög góða hluti, við erum að spá í öðrum hlutum en jafnaldrar okkar í Reykjavík t.d., það getur líka ekki verið tilviljun að aðrir skólar leyti til okkar varðandi hvernig við erum að gera hlutina. Það er mjög gaman að vera hluti af Ungmennaráði Reykjanesbæjar,“ sagði Katrín Alda að lokum.