Mannlíf

Opnun Silviu V. Björgvins í Bíósal Duus Safnahúsa
Miðvikudagur 24. maí 2023 kl. 11:17

Opnun Silviu V. Björgvins í Bíósal Duus Safnahúsa

Listamaðurinn, Silvia Björgvins, opnar „Frjósemi” sumarsýningu 2023 í Bíósal Duus Safnahúsa í samstarfi við Listasafn Reykjanesbæjar. Sýningin opnar laugardaginn 3. júní kl. 14:00.

Útgangspunkturinn eru minningar um náttúrulegt umhverfi, myndir sem festust í minni Silviu eftir dvöl úti í náttúrunni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Listamaðurinn teflir saman náttúrulegum efnum og gerviefnum, hún lítur á að samsetning þeirra sé nauðsynleg til að sýna óvissuna milli þess sem er raunverulegt og þess sem er gervi.

Það sem augu Silviu nema á láréttu plani, flytur hún yfir á lóðrétt plan í augnhæð. Þannig sér áhorfandinn myndina frá nýjum sjónarhóli. Náttúrulega umhverfið, sem við mennirnir erum hluti af, krefst virðingar sem glataðist fyrir löngu. Við skulum gæta vel að hvar við göngum og menga ekki uppsprettu lífsins.

Listakonan er þverfaglegur myndlistarmaður sem meðal annars hefur unnið við málverk, skúlptúr og myndskreytingu, stafræna ljósmyndun, innsetningar og skartgripi. Hún notar mismunandi tækni til að endurspegla sína persónulegu heimsmynd.

Silvia V. Björgvins

Myndlistarkonan Silvia er spænsk-íslensk. Hún stundaði myndlistarnám í fimm ár í Listaháskóla í Vigó á Spáni og útskrifaðist árið 2005 með Mastersgráðu í höggmyndalist og menntun í sjónlistarkennslu við framhaldsskóla frá Háskólanum í Santiago de Compostela á Spáni. Hún lærði skartgripahönnun og gullsmíði í sex ár hjá List- og Hönnunarskóla í Santiago de Compostela og vann á eigin verkstæði á Spáni. Silvia hefur haldið einka- og samsýningar bæði á Íslandi og á Spáni og verk hennar má finna í opinberum og einkasöfnum í Bandaríkjunum, Lúxemborg, Haítí, Dominíska Líðveldinu, Spáni og Íslandi. Náttúran hefur verið sterkur áhrifavaldur í allri list Silvíu.