Norræna félagið á Suðurnesjum stofnað – fyrsti viðburður í janúar
Norræna félagið á Suðurnesjum var stofnað 20. september 2025. Félagið varð til við sameiningu félagsdeilda Norræna félagsins í Vogum, Suðurnesjabæ og Reykjanesbæ og nær því nú yfir allt Suðurnesjasvæðið.
Stjórn félagsins hefur þegar mótað þá stefnu að standa fyrir a.m.k. einum norrænum viðburði í hverjum bæ á starfssvæðinu á komandi ári. Áhersla verður lögð á mennta- og menningarmál og að kynna norrænt samstarf í nærsamfélaginu.
Leshringur hefst í Hljómahöll 14. janúar.
Fyrsti viðburður nýja félagsins verður miðvikudaginn 14. janúar 2026 kl. 19:30 í Bókasafni Reykjanesbæjar í Hljómahöll. Þá hefur leshringur Norræna félagsins á Suðurnesjum göngu sína.
Á fyrsta fundi leshringsins verður rætt um bókina Dánar konur fyrirgefa ekki eftir sænsku skáldkonuna Katarinu Wennstam. Bókin fjallar um líf kvenna af ólíkum stéttum í Stokkhólmi undir lok nítjándu aldar og er spennandi, lifandi frásögn. Hún var valin glæpasaga ársins 2024 í Svíþjóð.
Ragnheiður Gunnarsdóttir mun segja frá höfundinum og leiða samtal um bókina. Ekki er nauðsynlegt að vera meðlimur í Norræna félaginu til að taka þátt í leshringnum og eru íbúar hvattir til að mæta.
Mýtur í samskiptum Íslands og Danmerkur
Næsti viðburður félagsins verður í febrúar þegar Bogi Ágústsson fjallar um mýtur í sögu samskipta Íslands og Danmerkur. Þá er stefnt að viðburði með þingmönnum Íslands í Norðurlandaráði í mars.
Verða þessir og fleiri viðburðir auglýstir nánar þegar nær dregur.
Markmiðið að efla norrænt samstarf og skilning
Samkvæmt lögum félagsins er tilgangur Norræna félagsins á Suðurnesjum að efla norrænt samstarf á öllum sviðum samfélagsins, efla frið og skilning á milli Norðurlandaþjóðanna sem og gagnvart öðrum þjóðum.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að stuðla að samskiptum milli einstaklinga, félagsdeilda og byggðarlaga og í samskiptum við systurfélög á Norðurlöndum innan vébanda Sambands Norrænu félaganna, í samstarfi við Norræna félagið á Íslandi.
Einstaklingar, skólar, bókasöfn og aðrar stofnanir, félög, félagasamtök og fyrirtæki geta gerst meðlimir í félaginu. Stjórn félagsins hyggst á næstu misserum kynna félagið sérstaklega fyrir íbúum, skólum og fyrirtækjum á Suðurnesjum og hvetja fleiri til þátttöku í starfinu.
Ný stjórn Norræna félagsins á Suðurnesjum
Í stjórn félagsins sitja:
Oddný G. Harðardóttir, formaður
Jónína Holm, gjaldkeri
Margrét I. Ásgeirsdóttir, ritari
Johan D. Johansson, meðstjórnandi
Eydís Hentze Pétursdóttir, meðstjórnandi
Ivan Kay Frandsen, meðstjórnandi
Varamenn í stjórn eru:
Ragnheiður Gunnarsdóttir
Þorvaldur Örn Árnason
Stjórnin segir mikinn áhuga á því að byggja upp öflugt norrænt menningar- og fræðslustarf á Suðurnesjum og hvetur Suðurnesjamenn til að fylgjast með viðburðum og taka virkan þátt.






