Mannlíf

MOVE með tónleika hjá Jazzfjelagi Suðurnesjabæjar
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 14. júní 2021 kl. 14:04

MOVE með tónleika hjá Jazzfjelagi Suðurnesjabæjar

Hljómsveitin MOVE leikur á tónleikum hjá Jazzfjelagi Suðurnesjabæjar föstudaginn 18. júní klukkan 20:00. Frítt er inn og fara tónleikarnir að vanda fram í Bókasafni Suðurnesjabæjar, Sandgerði.
„Frá unglingsárum hefur Óskar Guðjónsson verið eftirsóttur saxofónleikari í íslensku tónlistarstórfjölskyldunni. Spunatónlist, jazz (djass), stendur hjarta hans næst. Á þeim vettvangi hefur hljómsveitin ADHD vakið verðskuldaða athygli innan og utan landsteina, tónleikaferðir um Evrópu norðanverða skipa stóran sess í lífi hljómsveitarmeðlima. Þeir eru, auk Óskars, bróðir hans  Ómar gítarleikari, Magnús Tryggvason Elíasson trommuleikari og Tómas Jónsson hljómborðsleikari. Samstarfs Óskars og Skúla Sverrissonar, tónskálds og bassaleikara, hefur einnig verið gæfuríkt og galopnað augu og eyru Óskars fyrir fleiri möguleikum jazztónlistar. Afraksturinn er tvær plötur og ótal tónleikar.

Óskar vildi takast á við sígildasta form jazztónlistar, lúður með píanótríói. Hann stofnaði því kvartettinn MOVE með Eyþóri Gunnarssyni píanóleikara, Valdimar Kolbeini Sigurjónssyni kontrabassaleikara og Matthíasi M.D. Hemstock trommuleikara.  Þeir hafa æft vikulega frá árinu 2017 og leita leiða til að nálgast eigið efni með eigin aðferðum og allri þeirri fjölbreytni sem þeir finna upp á. Fjórmenningarnir eru þekktir í íslensku tónlistarlífi og hafa allir skapað sér sérstöðu með persónulegri nálgun á fjölbreyttustu viðfangsefni. Ekki skortir þar áskoranir, meðal annars þá hvort þeirra aðferðir við tónsmíðar og samleik sé lituð af því sem má eða má alls ekki. Hvort réttar skoðanir, samkvæmt þeim reglum og siðvenjum sem gilda til dæmis um íslenska tungu, hafi áhrif á sköpun og túlkun tónlistar. Þeir vilja brjótast úr höftum slíkrar rétthugsunar í tónsmíðum og túlkun, leika lausum hala.“
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024