Vinstri Grænir
Vinstri Grænir

Mannlíf

Midnight Librarian ætlar sér stóra hluti
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 23. ágúst 2021 kl. 09:27

Midnight Librarian ætlar sér stóra hluti

Hljómsveitin Midnight Librarian er skipuð sjö strákum af Suðurnesjum og þeir eru meira en tilbúnir til að skella sér í tónleikahald á fullu. Frægð og frami bíður handan við hornið en sveitin gaf út sitt fyrsta lag fyrir skemmstu, Funky Fresh, og hefur það fengið góðar undirtektir. Nú er fyrsta breiðskífa Midnight Librarian að líta dagsins ljós en hún ber nafnið From Birth Till Breakfast og er aðgengileg á streymisveitum. Víkurfréttir litu inn á æfingu hjá strákunum og ræddu við Þorstein, söngvara sveitarinnar, og Arnar, annan tveggja gítarleikara Midnight Librarian.
Þorsteinn og Arnar á æfingu.

„Þetta byrjaði í einhverjum bílskúr fyrir þremur árum, þá vorum við bara þrír en erum orðnir sjö núna,“ segir Þorsteinn. „Það er voða lítið annað hægt að segja.“

„Þetta hefur þróast mikið á þremur árum,“ bætir Arnar við. „Ég kom inn í bandið fyrir einu og hálfu ári ...“

Viðreisn
Viðreisn

„Fengum einmitt trommarann (Val, bróður Arnars) og auka gítarleikara og pródúser,“ grípur Þorsteinn fram í. „Eftir það byrjuðum við bara að taka upp á fullu.“

Þeir strákar segja að allir meðlimir hljómsveitarinnar komi frá Suðurnesjum en bandið skipa þeir Þorsteinn Helgi Kristjánsson (sér um sönginn og er úr Garðinum), Haukur Arnórsson (leikur á hljómborð og er úr Grindavík), Atli Reynir Baldursson (gítarleikari úr Garði), Arnar Ingólfsson (leikur á gítar og Talkbox, úr Njarðvík), Atli Marcher Pálsson (bassi, Njarðvík), Jón Böðvarsson (saxófónleikari úr Njarðvík) og Valur Ingólfsson (trommur, Njarðvík).

„Stoltir Njarðvíkingar í meirihluta,“ segir Arnar og glottir.

Hvað í fjandanum er þetta?

Midnight Librarian gaf út lagið Funky Fresh fyrir rétt um viku síðan og settu þeir lagið í spilun á Spotify. Þeir gerðu einnig tónlistarmyndband við lagið sem er aðgengilegt á YouTube.

– Hvernig hafa viðtökurnar verið við laginu?

Bara geggjaðar,“ segir Arnar heldur áfram: „Við erum búnir að plana þetta svo lengi líka, að gefa út þessa plötu. Við erum örugglega búnir að vera í ár núna að taka hana upp og vorum alveg fastir á því að gefa hana ekki bara út. Ef við gerum ekkert í kringum útgáfuna þá gerist ekkert.“

„Týnist bara í öllum þessum milljón lögum sem eru gefin út á hverjum degi,“ skýtur Þorsteinn inn í.

„Já, við vorum búnir að plana útgáfudaginn, svo kemur platan út viku eftir það og við erum að undirbúa útgáfutónleika í lok mánaðar. Við ætlum að fylgja þessu eftir og láta fólk taka eftir okkur – láta það spyrja hvað í fjandanum er þetta?“

– Þetta er ekki hefðbundin popptónlist sem þið eruð að flytja, hvernig skilgreinið þið ykkur?

„Það er málið sko, það er eiginlega ekki hægt,“ svarar Þorsteinn. „Platan er eiginlega bara við að prófa okkur áfram. Svo auðvitað sjáum við hvað fólk tekur best í.“

„Þetta er einhverskonar R&B, ballöður með fönki og einhverju diskó ... rokk líka – þetta er einhvern veginn út um allt.“

Byrja á streymisveitum

Platan From Birth Till Breakfast inniheldur ellefu lög og verður gefin út á helstu streymisveitum, allavega til að byrja með.

„Við höfum ekki farið út í það að gefa þetta út á diskum eða vínil,“ segja strákarnir. „Platan verður á þessum helstu streymisveitum; Spotify, YouTube og fleirum, en ef fólk er að fíla þetta og væri til í að eiga plötuna á vínil þá værum við alveg til í að gera það. Gefum þessu smá tíma og sjáum hvernig fólk grípur í þetta.“

Strákarnir hafa séð um allt útgáfuferlið sjálfir fyrir utan masteringu en um hana sá Sigurdór Guðmundsson sem er með Skonrokk Studios í Danmörku. „Við horfðum svolítið í kringum okkur en var alltaf bent á þennan dúdda – og við erum „heavy“ sáttir við útkomuna.“

– Þannig að hann kom inn á lokametrunum, þið sáuð um allt annað.

„Já, hann var svona „go to“ gaurinn og það var bara geggjað að vinna með honum,“ segir Arnar. „Þetta er annars bara allt tekið upp í tölvunni, þetta er orðið svo þægilegt í dag.“

„Það sem ég er að syngja er bara tekið upp heima hjá honum,“ segir Þorsteinn. „Við erum ekkert að flækja þetta. Ég myndi samt segja að þetta „soundi“ eins og það hafi verið tekið upp einhvers staðar annars staðar. Mér finnst það allavega og ég er búinn að fá að heyra það frá öðrum.“

Sjö plús

Midnight Librarian er sjö manna hljómsveit en þeir strákar eru alls ófeimnir við að fá aukahljóðfæraleikara inn í bandið finnist þeim eitthvað vanta.

„Ef okkur vantar eitthvað í bandið þá fáum við fleiri í lið með okkur. Núna er til dæmis básúnuleikari á æfingu með okkur, kona saxófónleikarans, svo við leitum bara í kringum okkur – til vina og svoleiðis. Það er skemmtilegt að hafa þetta stórt.“

Flestir í hljómsveitinni hafa lagt stund nám í tónlist, mismikið þó, en það er þéttur hljómur í tónlist Midnight Librarian og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Fyrsta breiðskífa Midnight Librarian, From Birth til Breakfast, er aðgengileg á Spotify (smellið hér til að hlusta)

Hljómsveitin er með vefsíðuna midnightlibrarian.is og svo er líka hægt að fylgjast með þeim á samfélagsmiðlunum Facebook, Instagram og víðar (allir tenglar eru á vefsíðunni).