Mannlíf

Menningarheimar mætast – Fjölmenningarhátíð í Reykjanesbæ
Föstudagur 2. júní 2023 kl. 10:43

Menningarheimar mætast – Fjölmenningarhátíð í Reykjanesbæ

Allir menningarheimar eiga það sameiginlegt að skilja mikilvægi þess að koma saman, til að létta lundina í leik, njóta tónlistar og matar. Heimurinn tilheyrir okkur öllum og við eigum öll að vera velkomin hvar sem er. Reykjanesbær er gróskumikið fjölmenningarsamfélag og er það vel til fundið að halda fjölmenningarhátíð fyrir alla íbúa til að koma saman. Það er gott orðspor fyrir samfélag að allir séu jafnir og fái tækifæri til að blómstra.

Í samstarfi við Alþjóðateymi Reykjanesbæjar hefur Khalifa Mushib, skjólstæðingur samræmdrar móttöku flóttafólks í Reykjanesbæ, ákveðið að stefna til hátíðarhalda. Allir eru velkomnir til að upplifa fjölbreytta menningu með mat frá ýmsu heimshornum, þar sem ungir jafnt sem aldnir geti skemmt sér. Markmið hátíðarinnar er að menningarheimar Reykjanesbæjar mætist. Khalifa hefur mikla ástríðu fyrir matargerð og veit að matur er mannsins megin og góður grunnur til að sameina fólk.

Public deli
Public deli

Hann sótti um styrk fyrir hátíðina til Andrýmis, en Andrými er verkefni á vegum Reykjanesbæjar þar sem lögð er áhersla á að efla notkun á opnum svæðum í sveitarfélaginu, og stuðla að sjálfbærri þróun þeirra svæða.

Fjölmenningarhátíðin Menningarheimar mætast verður haldin laugardaginn 3. júní frá klukkan 14:00 til 17:00 á Ráðhústorginu, við Tjarnargötu 12.

Boðið verður upp á fjölbreyttan mat frá ýmsum þjóðum og skemmtidagskrá fyrir börn. Frítt er á viðburðinn og allir hjartanlega velkomnir.