Menningarfélag Hafna með tónleika með Hjálmum og Elízu Newman sunnudaginn 7. september
Allur ágóði tónleikanna fer í viðhald Kirkjuvogskirkju og safnaðarheimilisins
„Við nokkrir listamenn stofnuðum Menningarfélag Hafna á sínum tíma þegar ég bjó þar frá árunum 2014 til 2022 og þessir tónleikar í Kirkjuvogskirkju í Höfnum á sunnudegi á Ljósanótt hafa algerlega fest sig í sessi og er alltaf uppselt. Í ár fengum við Hjálma til að koma og eins og alltaf hita ég upp,“ segir tónlistarkonan Elíza Newman en hún er stofnfélagi í Menningarfélagi Hafna, sem heldur alltaf metnaðarfulla tónleika á sunnudegi á Ljósanótt. Vinsælustu tónlistarmenn Íslands mæta og í ár eru það hinir einu sönnu Hjálmar.
Elíza er ánægð með að hafa átt þátt í stofnun Menningarfélags Hafna og fór yfir söguna.
„Ég bjó í Höfnum í u.þ.b. átta ár og á þeim tíma stofnaði ég ásamt fleira listafólki, Menningarfélag Hafna. Við höfum reynt að vera dugleg að bjóða upp á alls kyns menningarlega viðburði, m.a. tónleika og hefur verið fastur punktur hjá okkur að halda tónleika á Ljósanóttinni. Flest helsta tónlistarfólk Íslands hefur komið, Ragnheiður Gröndal og Gummi P voru í fyrra, Magnús Þór og Jóhann Helga hafa verið, Laylow, GÓSS og svona gæti ég lengi haldið áfram. Ég hef alltaf opnað tónleikana með nokkrum lögum og kynni viðkomandi tónlistarmann á svið. Þetta hefur haldið sér öll þessi ár og líta margir á þetta sem frábæran endapunkt á Ljósanóttinni, að koma á tónleika í þessari æðislegu kirkju sem er vel að merkja, elsta kirkja Suðurnesja. Þetta er lítil kirkja og má segja að það verði áskorun að koma Hjálmunum öllum fyrir en þarna sannast að þröngt mega sáttir sitja. Þeir 70 áhorfendur sem mæta, eru mjög nálægt tónlistarmönnunum og þá myndast þessi yndislega nánd og úr verður rafmögnuð stemning, þótt að tónleikarnir séu í raun eins og órafmagnaðir. Allur ágóði af tónleikunum fer í viðhald á þessari yndislegu kirkju og safnaðarheimilinu, mér hlýnar alltaf í hjartanu þegar við stöndum fyrir viðburði og vitum að við erum að safna pening sem fer í þarft málefni.“
Alltaf uppselt
Það hefur alltaf verið uppselt á þessa tónleika og Elíza á ekki von á öðru núna.
„Ég flutti frá Höfnum árið 2022 en þykir alltaf afskaplega vænt um þennan stað en aðrir taka nú við keflinu í Menningarfélaginu en ég verð þeim innan handar. Ég hlakka mikið til komandi Ljósanætur, hef verið extra upptekin í ár því ég er hluti af ´75 árgangnum sem leiðir árgangagönguna í ár. Ég er búin að vera í undirbúningsnefndinni ásamt fulltrúum frá öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum og hefur verið í nægu að snúast, m.a. að undirbúa partýið okkar á föstudagskvöldið í K-húsinu. Fínt að nýta tækifærið í þessu viðtali hér að minna alla af þessum frábæra árgangi á partýið og svo auðvitað árgangagönguna á laugardaginn. Ég hlakka mikið til,“ sagði Elíza að lokum.