Lögreglumaður fyrstu Ljósanæturnar
Þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason hefur verið í búsettur í Reykjanesbæ meira og minna síðan hamfarirnar áttu sér stað í Grindavík. Hann er því farinn að njóta alls sem Ljósanóttin hefur upp á að bjóða en fyrstu Ljósanæturnar var hann í vinnunni, sem lögreglumaður. Fjölskyldan nýtti sumarið vel, talsvert var farið á íþróttamót og þau fóru líka til Spánar í þrjár vikur. Villi prófaði golf og í vetur ætlar hann að setjast á skólabekk samhlið þingstörfum.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?
Naut sumarsins hér á Suðurnesjum ásamt því að vera á Spáni í 3 vikur og var allskonar brallað.
Hvað stóð upp úr?
Samvera fjölskyldunnar í góðu veðri þar sem íþróttaiðkun vann á. Kynntumst því að spila padel, golfið kom sterkt inn og náði ég að hlaupa töluvert.

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Íslenska veðrið. Veðrið er búið að vera frábært hér í sumar, en við vorum á Spáni í rúmlega 30 gráðum um verslunarmannahelgina.
Áttu þér uppáhalds stað til að heimsækja innanlands?
íslensk náttúra um land allt.
Er eitthvað sérstakt á verkefnalistanum í vetur?
Ég ákvað að fríska aðeins upp á þekkinguna og skráði mig aftur á skólabekk. Ég verð í MBA-námi í vetur í Háskólanum í Reykjavík sem er skipulagt fyrir fólk í fullri vinnu. Ég er spenntur að takast á við þetta verkefni sem fer vel af stað.
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
Ljósanótt er magnaður viðburður sem gefur mannlífinu hér í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum öllum mikið líf. Ljósanótt er viðburður sem er miklu lengri en akkurat Ljósanæturhelgin sjálf. Ljósanótt skapar mikla stemningu meðal bæjarbúa og eykur samheldni. Það verður að vera gaman.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
Það er ekki alveg komið á hreint ennþá en heimatónleikarnir er einn af viðburðunum sem ég á eftir að prófa. Annars reyni ég að njóta sem flestra viðburða sem eru í boði.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
Það er í raun bara samveran og gleðin með öllu því fólki sem maður hittir á hátíðinni. Það stendur alltaf upp úr eftir mismunandi viðburði ár eftir ár.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Ekki beint, fyrstu árin mín á Ljósanótt var ég alltaf í vinnunni sem lögreglumaður og nú er bara Ljósanótt númer tvö eftir að við fluttum í Reykjanesbæ. Það sem við höfum samt oftast gert er að koma öll fjölskyldan saman í kjötsúpuna og á hátíðartónleikana.
