Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Mannlíf

Gefur mér mesta ánægju að láta aðra skína
Þriðjudagur 2. september 2025 kl. 13:50

Gefur mér mesta ánægju að láta aðra skína

- segir Magnús Orri Arnarson sem er að fara að frumsýna Sigur fyrir sjálfsmyndina

„Framtíðin er þeirra sem láta drauma sína rætast,“ segir Magnús Orri Arnarson, kvikmyndagerðarmaður úr Garði, sem nú stígur sín stærstu skref á hvíta tjaldinu. Þann 30. september verður heimildarmynd hans Sigur fyrir sjálfsmyndina frumsýnd í Bíó Paradís. Myndin veitir einstaka innsýn í heimsleika Special Olympics sem fram fóru á Ítalíu fyrr á árinu – frá undirbúningi íslenska hópsins til sjálfra leikanna – og fangar þann anda sem hreyfingin stendur fyrir: mannúð, virðingu og jöfn tækifæri. Fyrsta heimildarmynd Magnúsar Orra

Að baki myndinni stendur Magnús Orri Arnarson, kvikmyndagerðarmaður úr Garði, sem á sér bæði persónulega og faglega tengingu við Special Olympics. Hann keppti sjálfur á heimsleikunum í Abu Dhabi árið 2019 í fimleikum. Þar kviknaði hugmyndin að kvikmyndaferli sem hefur síðan þróast hratt.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Ég gerði kynningarmyndband fyrir íslenska hópinn á leikunum í Abu Dhabi. Það verkefni varð byrjunin á öllu þessu. Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi, gaf mér það tækifæri og eftir það opnuðust nýjar dyr. Ég hef síðan fengið stærri verkefni, unnið með RÚV og fleiri miðlum, og fylgt Special Olympics á fleiri leika,“ segir Magnús. Hópurinn og andi leikanna

Í Sigur fyrir sjálfsmyndina fylgdi Magnús íslenska hópnum á leið sinni frá undirbúningi heima á Íslandi til þátttöku á leikunum í Ítalíu. Hópurinn samanstóð af fimm keppendum í dansi, alpagreinum og listhlaupi á skautum, auk tveggja grænlenskra íþróttamanna sem fengu að nýta kvóta Íslands í skíðagöngu. „Ég fylgdi hópnum allan tímann – frá æfingum hér heima og út til Ítalíu. Það var ótrúleg upplifun að sjá hvernig þau bjuggu sig undir leikana og hvernig þau blómstruðu þegar þau stigu á svið eða í keppni,“ segir hann.

Myndin fangar anda leikanna sem byggir á mannúð, virðingu og jöfnum tækifærum. „Special Olympics snýst ekki bara um medalíur eða úrslit, heldur fyrst og fremst um að allir fái að blómstra og sýna hvað þeir geta. Þetta eru sannarlega leikar fyrir sjálfsmyndina,“ segir Magnús.

Magnús Orri ásamt Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, við tökur fyrir sjónvarpsþáttaröðina Með okkar augum.

Sameiginlegt fjölmiðlateymi

Verkið var unnið í samstarfi við Unified Media Team Iceland, fyrsta fjölmiðlateymi sinnar tegundar innan Special Olympics hreyfingarinnar. Þar starfaði Magnús með Jóni Aðalsteini Bergsveinssyni, ritstjóra Skinfaxa og kynningarfulltrúa UMFÍ, og Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur.

„Við mynduðum teymi sem vann að þessu saman og það var algjör nýbreytni innan hreyfingarinnar. Það skapaði mikla jákvæðni og áhuga, bæði heima og erlendis,“ segir hann.

Ástríða kvikmyndagerðar frá unga aldri

Áhugi Magnúsar á myndmiðlun hófst snemma.

„Ég byrjaði mjög ungur, átta ára, með iPad og iMovie. Við félagarnir gerðum litla „þætti“ eins og EM-stofu þar sem við hermdum eftir sjónvarpsþáttum. Í Gerðaskóla fékk ég að vinna með upptökur og klippingar, og í framhaldsskóla stækkuðu tækifærin. Svo fékk ég að gera kynningarmyndbandið 2019 og þá varð ekki aftur snúið,“ segir hann og brosir. Síðan þá hefur hann unnið með fjölmiðlum á borð við Fréttablaðið, þar sem hann starfaði sem ljósmyndari og trailer-klippari fyrir Hringbraut.

Garðinum er yndislegur

Magnús er alinn upp í Garði og er búsettur þar enn.

„Garðurinn er yndislegur staður. Það er rólegt umhverfi, gott fólk og frábært samfélag. Ég hef búið í sama húsinu síðan ég var í leikskóla og er þar enn. Ég er með vinnuaðstöðu í bílskúrnum þar sem ég get unnið að kvikmyndagerðinni og haft þann hávaða sem þarf. Það er algjör lúxus að hafa slíkt bakland.“

Lífið með Tourette

Magnús er opinn um það að hann sé með Tourette-heilkenni. Það hefur stundum haft áhrif á vinnuna, en hann segir sig hafa fundið leiðir til að vinna með það.

„Stundum getur það verið áskorun, sérstaklega þegar ég er að taka upp viðtöl þar sem þögn er mikilvæg. Þá geta kækirnir komið upp, en í eftirvinnslu er hægt að minnka eða fjarlægja hljóðin. Tourette er bara hluti af mér – ég fæ kæki, er með hljóð og hreyfingar, og fólk verður að sætta sig við það,“ segir hann. Þrátt fyrir stundum óþægileg viðbrögð annarra segir hann að skilningur sé miklu meiri í dag en áður. „Það er meiri fræðsla núna, bæði í skólum og samfélaginu almennt. Þannig eykst skilningurinn stöðugt, sem skiptir mig miklu máli.“

Jón Aðalsteinn og Magnús Orri ásamt Önnu Karólínu, framkvæmdastjóra Special Olympics á Íslandi. Magnús er mikið þakklátur Önnu Karólínu fyrir þau tækifæri sem hún hefur veitt honum.

„Ég vil láta aðra skína“

Magnús segir að heimildarmyndin hafi kennt honum mikilvæga lífslexíu: að segja alltaf „já“ við tækifærum.

„Ég hef þurft að stíga út fyrir þægindarammann margoft, jafnvel þó það hafi krafist mikils af mér. Ég hef staðið á sviði og haldið ræður fyrir þúsundir manns, jafnvel á ensku, sem ég hélt að ég myndi aldrei gera. En með hverju verkefni hef ég vaxið.“

Framtíðarmarkmiðin eru skýr.

„Ég vil halda áfram að vera fyrir aftan myndavélina sem framleiðandi og leikstjóri. Það sem gefur mér mesta ánægju er að láta aðra skína – að segja sögur sem skipta máli og geta hvatt bæði fólk með fötlun og almennt fólk til að elta drauma sína. Framtíðin er þeirra sem láta drauma sína rætast,“ segir Magnús Orri Arnarson, kvikmyndagerðarmaður úr Garðinum.

Frumsýning Sigurs fyrir sjálfsmyndina fer fram í Bíó Paradís 30. september. Almennar sýningar hefjast daginn eftir, 1. október.

Hér er Magnús Orri á Instagram

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25