Mannlíf

Kom tvisvar út úr skápnum
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 16. ágúst 2021 kl. 09:16

Kom tvisvar út úr skápnum

Ragnar Birkir Bjarkarson og Marcin Pawlak eru samkynhneigðir og búa saman í Reykjanesbæ þar sem þeir ala upp þrjár dætur Ragnars. Ragnar ólst upp í litlu bæjarfélagi út á landi en unnusti hans kemur frá Póllandi. Víkurfréttir ræddu við þá um stöðu samkynhneigðra í dag og hvernig það var fyrir þá að koma út úr skápnum en þeir segja hvorki lítil bæjarfélög né pólska samfélagið vera draumastaðina fyrir þá sem eru hinsegin.

Lítil bæjarfélög oft erfiðir staðir fyrir þá sem eru öðruvísi

„Þetta er svo flókin saga í kringum mig,“ segir Ragnar. „Ég kem fyrst út þegar ég var sautján ára. Móðurfjölskylda mín er úr Reykjanesbæ og Vogum en blóðföðurfjölskyldan frá Grindavík. Ég ólst hins vegar upp í litlu bæjarfélagi út á landi frá fimm ára aldri og varð þar fyrir miklu einelti vegna kynhneigðar, sem byrjaði þegar ég var átta ára. Það var erfitt að alast þarna upp, alla vega á þessum tíma. Ef þú varst eitthvað öðruvísi þá varstu eiginlega skítuga barnið hennar Evu. Ég átti bara einn vin alla mína æsku, sem er líka samkynhneigður ... surprise. Það er ástæðan fyrir því að ég flyt sautján ára gamall til ömmu og afa. Ég var andlega búinn að gefast upp og sagði hreinlega við foreldra mína að annað hvort myndi ég enda lífið eða fá að flytja til ömmu og afa.“

Ragnar fékk að flytja og kom út úr skápnum þegar hann fór til foreldra sinna þá um jólin. Móðir Ragnars lést þegar hann var nítján ára og allt sem var búið að ganga á í lífinu sagði þá til sín. „Andrúmsloftið á þessum tíma var ekkert auðvelt fyrir þá sem voru samkynhneigðir. Maður varð fyrir miklu aðkasti, ekkert í líkingu við það sem Hörður Torfa þurfti að ganga í gegnum skilurðu en ég lenti í mörgum leiðinlegum atvikum tengt því eins og árásum, atvinnumissi og annað líkt því. Ég var í mikilli sorg út af mömmu og öllu sem var búið að ganga á og datt inn í hvítasunnusöfnuð.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Afhommun í trúarsöfnuði

Hann var að vinna á Hrafnistu í Reykjavík um tíma og kynntist þar stelpu sem bauð honum á gospeltónleika.

„Á þessum tíma, þar sem ég var mjög brotinn, þá talaði þetta einhvern veginn til mín og áður en ég vissi af var ég orðinn fastur í hvítasunnukirkju og þar var ég sem sagt „afhommaður“ – það gekk líka svona blússandi vel.“ 

Ragnar kynntist konu í kirkjunni sem varð síðar eiginkona hans og hjónabandið gekk í nokkur ár. Þau eignuðust þrjár stúlkur saman en skildu svo árið 2012.

„Það fór í þann farveg að þær búa hjá mér og hafa gert síðan 2013. Við höfum sameiginlegt forræði en ég er lögheimilisforeldrið. Í dag er mjög fátítt að foreldri sé dæmt fullt forræði, sem er mjög jákvætt því það eru margir sem nota það sem ákveðið vald en börnin eiga auðvitað rétt á samskiptum við báða foreldra og þær fara til mömmu sinnar aðra hvora helgi, í sumarfrí og önnur hver jól.“

Elur þær ekki upp til að vera prinsessur

Stelpurnar þrjár búa hjá Ragnari og Marcin og ganga í hverfisskólann. Okkur liggur forvitni á að vita hvernig það sé fyrir börn að alast upp hjá samkynhneigðu foreldri.

„Þær þekkja náttúrlega ekki neitt annað, pabbi er bara díva og ég beit það mjög fljótt í mig að ala þær ekki upp í feluleik. Pabbi er bara hommi og að sjálfsögðu er alltaf einhver sem kippir sér upp við þetta. „Bíddu, átt þú börn? En þú ert hommi!“ Ég nenni ekki að fara í að útskýra hvernig þetta er, þetta er svo flókið. Ég meina, ég er með háskólagráðu í því að koma út úr skápnum – búinn að gera það tvisvar. Mér finnst ég ekki þurfa að útskýra hlutina fyrir öllum. Svona er þetta, þetta er líf mitt í dag. Ég el þær ekki upp til að vera prinsessur, mig langar að koma þeim til manns til að verða öflugar, sjálfstæðar konur þegar þær verða fullorðnar.

Það er líka mjög mikilvægt að ala þær upp við að lífið eigi ekki að vera feluleikur, það ætla ég mér aldrei að gera aftur.“

Hittust fyrir fimm árum

Ragnar og Marcin hittust fyrst fyrir fimm árum hér á Íslandi. Áður höfðu þeir verið að tala saman á stefnumótasíðu fyrir samkynhneigða, þá bjó Marcin ennþá í Póllandi en var að undirbúa flutning til Íslands.

„Fyrsta stefnumótið okkar var 15. júní 2016 og við höfum verið saman síðan,“ segir Ragnar.

Marcin er frá Poznan sem er frekar stór borg og á son þar. Poznan er fimmta stærsta borg Póllands og þar býr ríflega hálf milljón manns.

„Ég var í sambandi með barnsmóður minni í þrettán ár en giftur í þrjú ár. Sonur minn, sem er þrettán ára, býr hjá móður sinni. Allan tímann sem ég bjó í Póllandi var ég „streit“, auðvitað upplifði ég það á unglingsárunum að velta fyrir mér hvort ég væri kannski ekki gagnkynhneigður en þar sem pólska þjóðin er alin upp í kaþólskri trú þá er okkur innrætt að sambönd eigi að vera milli karls og konu og allt annað er bannað og stríðir gegn trúnni.

Þegar ég var að alast upp leit ég á mig sem tvíkynhneigðan og þótt ég væri að hitta karlmenn þá taldi ég mig aldrei geta verið í föstu sambandi eða í sambúð með þeim.

Ég var tuttugu og eins þegar ég byrjaði að hitta konuna sem ég síðar giftist. Hún var tólf árum eldri en ég og átti börn fyrir, svo eignuðumst við son saman. Við áttum okkar góðu stundir og slæmu eins og í öllum hjónaböndum.“

Ein helsta ástæða þess að Marcin flutti til Íslands var vegna atvinnu en umbreytingin gaf honum einnig tækifæri til að byrja upp á nýtt. 

„Ég vissi að það að flytja til Íslands myndi þýða nýtt upphaf fyrir mig og það má segja að ég hafi komið út úr skápnum á Íslandi. Konan mín vissi að ég hafi átt sambönd við menn meðan á okkar hjónabandi stóð en það var eitthvað sem var falið inni í skápnum.

Í Póllandi eru hjónabönd álitin heilög, ef við rífumst í dag þá skiljum við ekki á morgun. Nei, það virkar ekki þannig. Þar eigum við að finna lausn á vandanum, hugsa um börnin. Ekki skilja þegar upp koma vandamál og vera komin með nýjan maka eftir ár. Það er svo algengt á Íslandi, ekki í Póllandi. Í Póllandi erum við að byggja fjölskyldu og skiljum ekki jafnvel þótt hjónabandið sé augljóslega ekki að ganga, jafnvel þótt það sé t.d. drykkjuvandamál eða barsmíðar á heimilinu að þá skilur fólk ekki svo auðveldlega. Ég held að þetta sé mögulega vegna trúarinnrætisins en geti líka verið þegar einstaklingar eru lítið menntaðir og hugsa lítið um hvað sé gott fyrir þá sjálfa.“

Kaþólska kirkjan í Póllandi leyfir aðeins eitt kirkjubrúðkaup og fráskildir fá ekki að giftast aftur í kirkju. Ekki nema þeir hafi misst maka sinn, séu ekkja eða ekkill.

Fluttist ungur að heiman

Að sumu leyti er saga Ragnars og Marcin svipuð. Þeir fluttu báðir ungir að heiman – af ólíkum ástæðum þó.

„Foreldrar mínir eru látnir en þau voru áfengissjúklingar og sautján ára flutti ég til ömmu minnar,“ segir Marcin. „Ég bjó hjá henni þangað til samband mitt og konunnar hófst. Þannig að ég var alltaf upp á sjálfan mig kominn. Ég á systur en við erum ekki í neinu sambandi við hvort annað. Eina fjölskyldan sem ég á í Póllandi er sonur minn.“

Þegar við ræðum um hvaða augum sonur Marcin líti það að hann sé samkynhneigður segir Marcin að þetta sé í vinnslu.

„Hann er unglingur og hann hefur fullan skilning á þessu en á sama tíma finnst honum ég hafa yfirgefið sig. Þetta eru blendnar tilfinningar en jafnvel þótt ég hefði skilið og búið áfram í Póllandi hefði ég sennilega ekki getað haldið áfram að búa í sömu borg.“

– Hefur hann heimsótt þig hingað?

„Ekki ennþá. Við ætluðum að fá hann hingað í fyrra en út af þessu Covid-ástandi gerðist það ekki. Við reynum kannski í ár en það er erfitt að ákveða eitthvað eins og staðan er núna.“

Heldur sig fyrir utan pólska samfélagið

Aðspurður um viðbrögð Pólverja á Íslandi við kynhneigð sinni segir Marcin að hann hafi engin tengsl við pólska samfélagið hér.

„Auðvitað þekki ég einhverja Pólverja en flestir þeirra eru samkynhneigðir eins og ég. Ég hef ekki viljað tengja mig við pólska samfélagið því ég finn ekki samleið með þeim. Ég á erfitt með að skilja þá sem koma hingað, hópa sig saman til að halda einungis í pólskar hefðir og  lifa eins og þau séu í Póllandi. Þau senda börnin sín í íslenska skóla en halda þeim inni í þessari kúlu.

Svo verður oft samkeppni hjá Pólverjum sem búa í öðrum löndum, það fer að metast um hver sé með bestu vinnuna, hver eigi mest o.s.frv. Lífið verður að einhvers konar keppni þótt þetta eigi auðvitað ekki við um alla Pólverja sem hingað koma. Þetta er ekki svona heima í Póllandi, þar snýst lífið fyrst og fremst um fjölskylduna.

Auðvitað sakna ég föðurlandsins stundum, mismikið. Ef ég á pólska vini hérna þá vel ég þá gaumgæfilega, ég kæri mig ekki um að láta dæma mig fyrir að vera eins og ég er. Pólverjar átta sig á að réttindastaða samkynhneigðra á Íslandi er sterk og þeir leyfa sér ekki að hegða sér eins og þeir myndu gera í Póllandi.“

Marcin segist stoltur af unga fólkinu í heimalandi sínu sem þorir að standa uppi í hárinu á þarlendum yfirvöldum.


Staða samkynhneigðra í Póllandi mjög slæm

Réttindi samkynhneigðra eru engin í Póllandi segja þeir Ragnar og Marcin. Þegar Marcin var að alast upp á tíunda áratugnum var enginn réttindabarátta hafin en hann segist mjög stoltur af unga fólkinu í dag sem hefur þor og dug til að láta í sér heyra.

„Staðan er mjög slæm núna því núverandi ríkisstjórn er mjög fylgjandi kirkjunni og beitir hörku til að kæfa baráttuna. Ég var ekki nógu hugrakkur þegar ég var unglingur til að standa uppi í hárinu á fólki en auðvitað eru aðrir tímar núna og það er gott að fólk sé að berjast fyrir tilveru sinni – en það eru margar orrustur framundan og ég vona að samkynhneigðir beri sigur úr býtum.

Þegar kosningar eru í Póllandi fer ég í pólska sendiráðið í Reykjavík og kýs ég með breytingum, því ég hef rétt til að kjósa. Þetta gerist í skrefum og þótt samkynhneigða samfélagið njóti ekki stuðnings ríkisstjórnarinnar njótum við stuðnings frá Evrópusambandinu. Ég vona að þetta verði ekki blóðugt eins og gerðist í Ungverjalandi en maður veit aldrei.“

Ragnar bendir á að þú gætir verið laminn út á götu í Póllandi fyrir að vera samkynhneigður en þú getur ekki lagt fram kæru. „Þú getur lagt fram kæru fyrir að vera barinn en ekki vegna kynhneigðar,“ segir Marcin. „Því þeir viðurkenna ekki samkynhneigð, hún er ekki til,“ bætir Ragnar við.

„Þótt við myndum giftast yrði það ekki viðurkennt í Póllandi, jafnvel þótt við myndum búa í Póllandi þá myndum við bara vera skilgreindir sem vinir. Við höfum farið tvisvar sinnum saman til Póllands,“ segir Ragnar; „og mér fannst ég ekki öruggur. Pólland er mjög fallegur staður en ég dirfðist ekki að haldast í hendur við Marcin þegar við vorum þar. Hér á Íslandi getum við haldist í hendur hvar sem er en úti í Póllandi getur maður verið barinn illilega fyrir það eitt að sýna ástúð á almannafæri.“

Marcin bætir við að Pólverjar láta sem þeim sé sama um samkynhneigð svo framarlega að hún sjáist ekki. „Þeir mega gera það sem þeim sýnist bak við luktar dyr heimilisins en um leið og það sést út á við eru Pólverjar mótfallnir því. Ef þeir þurfa ekki að horfa upp á það er það í lagi.“

„Ef við væru giftir og byggjum í Póllandi og Marcin myndi deyja þá mætti ég ekki láta jarða hann, mín yrði ekki minnst við minningarathöfnina og samkynhneigðir mega ekki ættleiða í Póllandi. Yfirvöld þar eru meira að segja að vinna í því að breyta reglum því einstæðir mega ættleiða en komi í ljós að þeir séu samkynhneigðir verði það ekki hægt,“ segir Ragnar.

„Jafnvel þótt við værum búnir að búa saman til fjölda ára og ala upp barn saman, ef annar aðilinn myndi deyja fengirðu ekki að halda börnunum – þótt þú værir búinn að vera í lífi þeirra kannski í tíu, fimmtán ár.“

„Pólland er mörgum áratugum á eftir Íslandi í þessum málum. Hins vegar get ég gefið blóð í Póllandi þótt ég sé samkynhneigður, á Íslandi má ég það ekki,“ segir Marcin. „Það er mjög fáránlegt.“

– Hvernig finnst ykkur staða samkynhneigðra vera á Íslandi í dag?

„Við erum í frekar góðum málum,“ segir Ragnar. „Það er gott að vera samkynhneigður maður á Íslandi. Hér er gott að búa og finna öryggið í íslensku samfélagi. Réttindastaða samkynhneigðra eru sterk og andrúmsloftið í samfélaginu er yfirleitt styðjandi en svo koma fleiri hinsegin málefni sem þarf að vinna betur í, til dæmis málefnum transfólks en ekki er jafn góð staða þar.

Við vorum að horfa á mynd fyrir nokkrum dögum sem heitir Boy Erased og er um svona Gay Conversion (lækningu á samkynhneigð) og það eru bara fimm lönd í heiminum sem eru opinberlega búin að banna svona starfssemi  – Ísland er ekki eitt þeirra. Þótt hér sé þetta ekki skipulagt eða opinbert þá er svona við lýði í mörgum trúfélögum, það er bara dulið. 

Í heildina eru Samtökin ‘78 og íslensk stjórnvöld að vinna gott starf. Þú ert viðurkenndur sem jafngildur samfélagsþegn og aðrir en það þarf að halda áfram og einnig vinna betur að öðrum hinsegin málefnum.“

Hinsegin Plútó

Ragnar segir að hann hafi lítið starfað með Samtökunum ‘78 eftir að hann kom út í seinna skiptið en hann hefur unnið í Hinsegin Plútó ásamt Guggu og Katrínu [Guðrúnu Maríu Þorgeirsdóttur og Katrínu Júlíu Júlíusdóttur] undanfarin þrjú ár sem er félagsstarf fyrir ungt hinsegin fólk á Suðurnesjum á aldrinum tólf til sautján ára, þar sem boðið er upp á fræðslu, stuðning og samveru.

„Við erum að hefja fjórða starfsárið núna í ágúst. Hinsegin Plútó er starfrækt yfir skólaárið og við hittumst einu sinni í viku, á fimmtudagskvöldum.

Það er ákveðinn hópur sem mætir reglulega og það er gaman að sjá þá vináttu sem hefur myndast. Það var ekkert félagsstarf fyrir hinsegin ungmenni á Suðurnesjum fyrir, fullt af félagsstarfi fyrir gagnkynhneigð börn en það er eins og það hafi gleymst að pæla í hinsegin börnum. Það byrjar ekkert endilega þegar þú ert sextán ára. Ég man eftir því að hafa verið skotinn í strák alla mína grunnskólagöngu. Gagnkynhneigðarhyggjan var svo ríkjandi, sérstaklega í þá daga. Það var engin fræðsla í gangi þá og þú varst bara ógeðslegur ef þú varst samkynhneigður. Hinsegin Plútó sinnir öllum Suðurnesjum því næsta félagsstarf fyrir hinsegin börn þarf að sækja alla leið í miðborg Reykjavíkur. Ég held að það séu þrjú sveitarfélög á landinu sem eru með eitthvað skipulagt félagsstarf fyrir hinsegin ungmenni, sem er bara allt, allt of lítið. Hinsegin Plútó er allt unnið í sjálfboðastarfi en í samstarfi við 88-húsið með aðstöðuna. Í Hinsegin Plútó ríkir 100% trúnaður af virðingu við þá sem mæta. Félagsstarfið er haldið einu sinni í viku, í 88-húsinu á fimmtudagskvöldum frá klukkan átta til hálftíu, og er tekið vel á móti öllum á aldrinum tólf til sautján ára.

Ragnar hefur unnið í sjálfboðastarfi hjá Hinsegin Plútó síðustu þrjú ár.