Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Mannlíf

Kolniðamyrkur þegar féð kom að rétt
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 22. september 2023 kl. 06:16

Kolniðamyrkur þegar féð kom að rétt

Réttað var í Grindavík á mánudag, degi seinna en venjulega, en vegna slæms veðurs á laugardag var smölun frestað fram á sunnudag. Það var orðið kolniðamyrkur þegar féð var komið að réttinni á sunnudagskvöld og nokkrar rollur náðu að slíta sig frá hópnum en komust ekki langt. Rollurnar voru hjá Bjarmalandi sem er nafn á húsi Ómars Davíðs Ólafssonar. Hann sagði að vel hefði gengið að koma þeim rollum á réttan stað.

„Við lögðum í hann klukkan átta í gærmorgun [sunnudagsmorgun], þá var búið að koma öllum hestunum upp á Vigdísarvelli. Þetta gekk seint, stundum rekst bara illa og það var komið myrkur þegar við komum með féð hingað í gærkvöldi. Því var ekkert annað að gera en rétta í dag [mánudag]. Hér áður fyrr var þetta alltaf gert þannig, þá var tveggja daga smal og réttað á mánudegi svo þetta er ekkert mál. Það voru einhver tólf stykki sem tóku sig út úr safninu í gær, náðu að fela sig í myrkrinu en við vorum fljótir að finna þær í morgun. Það er ekki gott að segja hvernig heimtur eru, fyrst klárum við að draga í dilka og teljum svo. Við Bjarki Sigmarsson erum með u.þ.b. 30 á vetrarfóðrum, ég á von á einhverjum 40 lömbum,“ sagi Ómar í samtali við Víkurfréttir á mánudag.

Bjarki hefur verið í rollubúskap með Ómari í tólf ár. „Við höfum búið félagsbúi, Ómar á svo gott fjárhús í Bjarmalandi og ég fæ að vera með mínar rollur hjá honum. Við skiptum verkunum bróðurlega á milli okkar, erum viku og viku. Þá er þetta þægilegt, ekki annað hægt í svona frístundabúskap, það væri ekki ekki gott að vera bundinn við þetta öllum stundum allan veturinn. Þegar ég er með fjárhúsið kem ég eftir vinnu seinni partinn og gef. Það er alltaf gaman að smala, ef maður er með kindur þarf maður að skila sínu dagsverki. Það var held ég alveg nóg af smölum í ár,“ sagði Bjarki.

Sigrún Eggertsdóttir er ættuð úr Vík en fjárbúskapur hefur farið þar fram til fjölda ára. „Ég hef verið í réttum frá því ég fæddist held ég. Amma og afi hafa alltaf verið með rollur, ég var ung þegar ég fór að taka þátt og er núna með börnin mín með mér. Ég hef venjulega smalað á hesti en var á fjórhjóli núna, það var öðruvísi upplifun, hesturinn er liprari en fjórhjólið fer hraðar yfir. Ég hef aldrei komið svona seint með féð í rétt, þetta var pínu óþægilegt en gott að allt gekk vel að lokum,“ sagði Sigrún.