Mannlíf

Keflavíkurmær leikur, syngur og dansar í Chicago
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 31. desember 2022 kl. 09:00

Keflavíkurmær leikur, syngur og dansar í Chicago

Elma Rún Kristinsdóttir er 22 ára listakona, dansari og danshöfundur frá Keflavík.
Elma hóf að æfa dans aðeins níu ára gömul en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Árið 2022 hefur verið viðburðaríkt hjá henni en hún átti meðal annars stóran þátt í góðum árangri Team DansKompaní á heimsmeistaramótinu í dansi og er nú í fullum undirbúningi fyrir sýningar á söngleiknum Chicago í uppsetningu Leikfélags Akureyrar.

Hvernig er árið þitt búið að líta út? Þetta er búið að vera stórt ár hjá þér með mörgum persónulegum sigrum ...

„Fyrstu mánuði ársins var ég meira og minna í DansKompaní að kenna og æfa á fullu. Ég tók þátt í forkeppni og úrslitakeppni Dance World Cup með Team DansKompaní með góðum árangri. Í byrjun sumars landaði ég hlutverki hjá Leikfélagi Akureyrar í söngleiknum Chicago og í sömu viku og ég komst að því fékk ég pláss í mjög flottu dansprógrammi í skóla í New York. Þá kom að ákvörðunartöku, hvort verkefnið átti ég að velja? Ég ákvað að kýla á Chicago enda draumur að vinna í leikhúsi. Ég kíkti þó til New York í sex vikur áður en æfingar á Chicago hófust í haust. Þar naut ég þess að fara oft og mikið í leikhús og í marga tugi flottra danstíma. Ég varði svo nóvember meira og minna á Akureyri við æfingar á Chicago en kom suður í desember og var þá á fullu í DansKompaní að semja keppnisatriði fyrir Dance World Cup-forkeppnina sem verður 2023. Við erum komin vel á veg með atriðin mín og það verður mjög spennandi að sjá þau á stóra sviði Borgarleikhússins í febrúar.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Team DansKompaní náði góðum árangri á heimsmeistaramótinu í dansi sem fór fram í San Sebastian í sumar og kom Elma að þrettán atriðum á mótinu, hún var danshöfundur níu þeirra, dansaði í þremur og samdi og dansaði í einu.

Hvað finnst þér um þetta góða gengi DansKompaní á heimsmeistaramótinu?

„Árangur liðsins í úrslitakeppninni var algjörlega framar öllum mínum vonum. Team DansKompaní átti níu atriði sem lentu í topp tíu í sínum flokki sem er sturlað góð frammistaða. Þar af var eitt atriði sem ég var danshöfundur að sem landaði gulli og annað sem landaði silfri, alveg ruglaður árangur sem ég er mjög stolt af.“

Með fleiri en eitt hlutverk í Chicago

Elma fer með hlutverk Maddý, sem og nokkur smærri hlutverk, í sýningunni Chicago.

Frá samlestri á Chicago

Nú styttist óðfluga í sýningar, hvernig leggst það í þig?

„Það leggst bara nokkuð vel í mig. Það verður ágætis törn núna í janúar fram að frumsýningu og svo taka sýningar við. Svona törn er krefjandi en á sama tíma skemmtileg og gefandi en ég er að dansa, leika og syngja í sýningunni. Ferlið er búið að vera allskonar; lærdómsríkt, gefandi og krefjandi. Sýningin er smátt og smátt að smella saman og ég er mjög spennt að klára að móta heildarútkomuna í janúar og opna dyrnar fyrir gestum.“

Hverju ertu stoltust af á árinu sem er að líða?

„Ég hugsa að ég sé stoltust af því hvað ég hef verið dugleg að fylgja því eftir sem mig langar að gera. Bæði hef ég verið dugleg að ferðast ein og í frábærum félagsskap. Ég hef líka reynt að passa að taka bara að mér verkefni sem ég hef gaman af og ástríðu fyrir að sinna.“

Ertu með einhver áramótaheit eða markmið fyrir næsta ár?

„Ég er hvorki dugleg að strengja áramótaheit né setja mér markmið en ég reyni að vera dugleg að hreyfa mig og verja tíma með skemmtilegu fólki sem fyllir mig gleði og þakklæti.“

Hver er stefnan fyrir framtíðina? Hvað langar þig að gera?

„Stefnan í framtíðinni er að halda áfram að skapa. Mig langar til þess að semja meira og draumurinn er að vera danshöfundur í atvinnuleikhúsi, helst barnasýningu. Annars finnst mér líka gaman að koma fram sjálf og er spennt að sjá hvað ég mun gera á því sviði á næstunni. Eins þykir mér ofsalega vænt um DansKompaní og held að ég muni alltaf vera með annan fótinn þar.“