Mannlíf

Jólagleði í bílnum á Keflavíkurveginum gleymist seint
Rannveig Garðarsdóttir ætlar að vera í sumarbústaðnum um jólin.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 29. nóvember 2020 kl. 07:55

Jólagleði í bílnum á Keflavíkurveginum gleymist seint

Rannveig Garðarsdóttir kaupir flestar jólagjafirnar á Suðurnesjum

Rannveig Garðarsdóttir, eða Nanný göngugarpur til margra ára, á margar góðar minningar frá jólum og heldur í nokkrar hefðir eins og það að baka eplaköku sem er borðuð á jóladag. Gítar er ein eftirminnilegasta og ein óvæntasta jólagjöfin sem hún hefur fengið.

– Ertu byrjuð að kaupa jólagjafir? 

Já, ég er byrjuð að kaupa jólagjafir og reyni að kaupa flestar jólagjafirnar hér á Suðurnesjum en ég hef líka verið að kaupa á netinu. Það er alveg ný en áhugaverð reynsla fyrir mig. 

– Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?

Ég byrja alltaf snemma að tína til jólaskrautið og það sem kemur alltaf fyrst upp úr jólakassanum á hverju ári er gamall, hvítur og feitur snjókarl sem spilar og ruggar sér í lendunum. Það er búið að mynda öll börn í fjölskyldunni við að dansa við karlinn og er hann orðinn eins konar fjölskyldueign.  

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

– Skreytir þú heimilið mikið?

Ég hef alltaf skreytt mikið fyrir jólin og hef mjög gaman af bæði gamaldags og náttúrulegu jólaskrauti eins og jólakúlur frá ömmu og afa sem brotna mjög auðveldlega og svo er gaman að nota nýhoggið jólatré úr náttúrunni. 

Í ár verður jólunum eytt í sumarhúsinu og verður spennandi að skreyta þar.

– Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst? 

Þegar maður er búin að koma sér í það að borða ekki sykur og allur matur á helst að vera lífrænn þá þarf ekki að baka fyrir jólin en þá kemur sér vel að eiga systur sem bakar af list. Hún sér um að ég fái að smakka t.d. hálfmána og sörur um hver jól. 

Það er ein gömul hefð sem mér þykir vænt um og ég hef viðhaldið frá langömmu ef ekki lengra aftur, það er að búa til eplaköku fyrir jólin eftir gamalli uppskrift frá þeim. Ég ólst upp við það að borða þessa eplaköku alltaf á jóladagsmorgun.  

– Hvernig sérðu desember fyrir þér í jólastemmningu í ljósi Covid-19? 

Ég sé fyrir mér og vona að nánasta fjölskyldan geti hist en það verður beðið með stærri fjölskylduboð.

– Eru fastar jólahefðir hjá þér? 

Jólahefðir eru nokkrar í fjölskyldunni minni. Ein er sú að við stórfjölskyldan hittumst og skreytum piparkökur, bæði litlar og einnig fær hver fjölskyldumeðlimur eitt stórt piparkökuhjarta sem er alltaf sniðið af gamalli teikningu frá mömmu minni til að skreyta. Svo skemmtir fólk sér við að geta upp á hver gerði hvað, síðan fá allir með sér sitt hjarta heim til að hengja upp heima hjá sér.  

– Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir? 

Fyrstu jólin sem ég man eftir eru þegar ég hef verið u.þ.b sex ára og bróðir minn tveggja ára. Við bjuggum á efri hæð við Hafnargötu í Keflavík, mamma og pabbi ráku leikfanga- og húsgagnaverslun á neðri hæðinni. Það var mikið um að vera í kringum verslunarreksturinn á þessum árum, pabbi og mamma voru mikið í búðinni og við systkinin lékum okkur í kjallara hússins sem var eins konar kyndiklefi með olíuofni. Þar var líka gamall peningakassi úr verslun langafa okkar og langömmu sem ráku þarna verslun frá því snemma á tuttugustu öld. 

Í minningunni er eins og verslunin hafi verið opin langt fram á kvöld, öll kvöld, en það þarf ekki að vera rétt, alla vega var verslunin opin til klukkan 23:00 á Þorláksmessu og þá átti pabbi eftir að keyra út húsgögnin og setja þau saman fyrir kaupendurna. Það gat tekið hálfa nóttina og langt fram á aðfangadag. Á þessum tíma eyddum við alltaf aðfangadagskvöldi með stórfjölskyldunni hjá ömmu á Snorrabraut í Reykjavík og það var alltaf svolítil spenna um hvort við næðum alla leið fyrir klukann 18.00. Þessi jól sem ég man fyrst eftir hafði pabbi komið í seinna lagi heim en þegar hann kom var mamma tilbúin með okkur systkinin í jólafötunum og lagt var af stað á Keflavíkurveginn sem hann hét þá. Við vorum komin rétt fram hjá fallegu tjörnunum (sem eru nú horfnar) í Kúagerði þegar jólaklukkurnar byrjuðu að klingja í útvarpinu og fréttaþulur bauð okkur gleðileg jól. Ég gleymi seint jólagleðinni sem ríkti þarna inni í Dodge Veapon bílnum í bikamyrkri þegar við þræddum okkur yfir Hvassahraun.   

 – Eftirminnilegasta jólagjöfin?

Ég hef fengið mjög margar eftirminnilegar jólagjafir í gegnum tíðina, t.d. ein jólin í kreppunni þegar litlu hlutirnir skiptu svo miklu máli fékk ég pakka frá manninum mínum og í honum voru gítarneglur. Ég var alveg himinglöð með gjöfina en svo birtist annar stærri pakki og í honum var ekki bara gítartaska heldur líka nýr gítar, mjög eftirminnilegt. 

– Er eitthvað sérstakt sem þig langar í jólagjöf? 

Efst á óskalistanum mínum er að fá góðar fréttir af bóluefni fyrir Covid19.

– Hvað verður í matinn hjá þér á aðfangadagskvöld?

Eftir að börnin fóru að heiman höfum við hjónin verið að einfalda lífið hjá okkur og erum komin í þá stöðu að okkur er boðið í mat á aðfangadagskvöld.

Matarhefðir hjá fjölskyldunni hafa verið mjög fjölbreyttar en hefðbundnar en stundum hefur verið margréttað á borðum, t.d er hamborgarhryggur fyrir manninn minn og þau sem borða svínakjöt og svo er fylltur kjúklingur eða hnetusteik fyrir mig.

Leikfanga- og húsgagnaverslunin Garðarshólmi við Hafnargötu í Keflavík í gamla daga.