Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Mannlíf

Íslandsgangan í Rostov og ótrúleg upplifun á HM
Laugardagur 1. september 2018 kl. 11:18

Íslandsgangan í Rostov og ótrúleg upplifun á HM

– Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, rifjar upp áhugavert sumar

HVERNIG VAR SUMARIÐ 2018? //„Sumarið 2018 hefur verið ansi áhugavert hjá mér. Þar stendur ferðin til Rússlands á HM upp úr. Það var ótrúlega gaman að upplifa að fara á stórmót í fótbolta þar sem Ísland er með. Sú ferð var frábær í alla staði en það sem stóð upp úr að mínu mati var gönguferðin frá fanzone í Rostov á leikvöllinn,“ segir Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, spurð um sumarið 2018.
 
Guðjónína heldur áfram að lýsa gönguferðinni í Rostov: „Það var eflaust 1–1 ½ klst. ganga þar sem hópurinn söng stanslaust íslenska söngva og allir vegfarendur voru svo glaðir og íslensku stuðningsmönnum var alls staðar svo vel tekið. Lagið „Vertu til er vorið kallar á þig“ var óspart sungið og það kunnu nú Rússar vel að meta en lagið er rússneskt og var frumflutt sem kveðja til rússneskra hermanna voru á leið á vígstöðvarnar í seinni heimstyrjöldinni. En nú var það sungið til fótboltastrákanna okkar“.
 
Guðjónína fór víða í sumar: „Margt annað var nú gert líka bæði farið til Noregs, Akureyrar á N1 mótið og Kanaríeyjar. Svo slappaði maður líka af heima og fór í fjölmargar gönguferðir en upp á fjöllum líður mér ótrúlega vel. Sérstakt áhugamál hefur verið í ár að ganga sem flest fell/fjöll á Reykjanesinu og voru þau mörg gengin í sumar en upp á fjöllum fær maður mestu orkuna og afslöppunina að mínu mati“.
 
Hvernir verður Ljósanótt hjá þér?
„Ljósanótt hefur sérstakan sess í mínum huga. Fyrstu ljósanóttina ætlaði ég eins og flestir að kíkja niður í bæ á hátíðina en fór í staðinn á fæðingardeildina og eignaðist mitt þriðja barn og horfði á flugeldasýninguna út um glugga á fæðingardeildinni. Því hef ég alltaf sagt að Siggi minn sé ljósanæturbarnið mitt. Hann verður fullveðja í ár sem og hátíðin sjálf og er ég mjög stolt syninum sem og hátíðinni sem mér finnst hafa þróast einstaklinga vel öll þessi ár. Ég ætla að mæta á Með blik í auga en ég hef mætt á allar sýningarnar og þær eru bara svo stórkostlegar. Einnig ætla ég að kíkja á tónleikana í garðinum hjá henni Álfheiði í gamla bænum, það finnst mér flott framtak. Svo finnst mér árgangagangan alveg frábær og vona nú að Garðpúkarnir fæddir árið 1970 mæti nú og gangi með árganginum niður Hafnargötuna“.

Sólning
Sólning