Mannlíf

Hvað get ég gert til að vera betri í samskiptum?
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 25. febrúar 2023 kl. 07:33

Hvað get ég gert til að vera betri í samskiptum?

Hvað einkennir góð samskipti á vinnustað og hvað er vinnustaðamenning? Félag kvenna í atvinnulífinu á Suðurnesjum stóð fyrir erindi um vinnustaðamenningu. Steinunn Snorradóttir, félagi í FKA Suðurnes, er lærður grunnskólakennari og hefur lokið meistaranámi í náms- og starfsráðgjöf. Hún vann í Heiðarskóla í Reykjanesbæ í tíu ár, fyrst sem náms- og starfsráðgjafi og síðar sem deildarstjóri. Nú vinnur hún sem námsbrautarstjóri flugverndarbrautar hjá Isavia. Á kynningarfundi FKA Suðurnes sagði hún frá verkefni sem Isavía vinnur nú að um vinnustaðamenningu þar sem búið er að skipta hegðu upp í þrjá flokka.

Hvað getur þú sagt okkur um vinnustaðamenningu. Ég get ekki séð að þetta hafi verið stórt atriði í atvinnulífinu fyrir tíu til tuttugu árum síðan.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Sem betur fer þá hefur nú margt breyst. Vinnustaðamenning gengur út á það hvernig samskipti við erum að eiga hvert við annað, sama hvort það er í atvinnulífinu, heima eða í tómstundum. Þá skiptir máli hvernig samskiptin eru okkar á milli. Við erum að ræða það hvernig við getum átt sem best samskipti í vinnunni, talað saman og haft sama skilning á hlutunum og rætt þá á uppbyggilegan máta.“

Er þetta vandamál víða í fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi, að það sé ekki nógu góð vinnustaðamenning? Er samvinnan ekki nógu mikil?

„Nú þekki ég ekki fyrirtæki almennt á Íslandi en ég held, alveg sama hvert við förum, við getum alltaf gert eitthvað betur. Við getum alltaf grætt á þessu.“

Í þessu erindi sem þú fluttir hjá FKA Suðurnes varst þú að ræða um fas og framkomu, augnsamband, góð ráð í samskiptum, fullt af mjög góðum ábendingum.

„Þetta gengur helst út á það að við séum að skoða okkur sjálf. Eina manneskjan sem við getum borið ábyrgð á erum við sjálf. Þetta gengur út á hvað ég geti gert til að stuðla að góðum samskiptum við þá sem ég er að vinna með og er í kringum. Þannig erum við svolítið í naflaskoðun. Hvernig er traust á milli fólks og hvernig getum við eflt það? Einnig hvernig við tölum við hvort annað, þannig að allir séu jafnir og geti talað við hvort annað á jafningjagrundvelli og að allir fái að koma sínum skoðunum á framfæri.“

Að viðra skoðanir án þess að særa eða meiða

Á þínum vinnustað, Isavia í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli, hafið þið verið að skipta hegðun upp í þrjá flokka. Getur þú sagt okkur hvernig þið gerðuð þetta?

„Það eru rannsóknir á bak við þetta sem við erum að fara eftir. Það er búið að skipta samskiptaminstrinu upp í þrjá flokka. Það er þessi drottnandi menning þar sem fólk er svolítið að sýna hver ræður og er með svolítil yfirráð. Þá eru það þeir sem eru hörfandi og ekki alltaf til í að segja sína skoðun og fara frekar til baka. Við erum líka með þessa uppbyggjandi menningu sem við viljum helst vera í þar sem við getum talað við hvert annað og sagt skoðanir án þess að særa eða meiða og að allir séu jafnir.“

Hvernig hefur þetta gengið hjá ykkur? Þið eruð stór vinnustaður.

„Já, þetta er stór vinnustaður og það eru um 800 manns sem eru að taka þátt í þessu verkefni og það er heljar mikið verkefni að halda utan um það. Þetta hefur gengið mjög vel og það var alveg skýrt frá upphafi að það þyrfti að byrja á efsta laginu. Það var byrjað á því að forstjóri og framkvæmdastjórar fóru í þessa vinnu og vinnustofur. Fyrst var gerð könnun á því hvernig vinnustaðamenningin var í upphafi verkefnisins fyrir einu og hálfu ári síðan. Þá var kannað hvert við vildum fara. Efsta lagið var tekið og það var farið í vinnustofur, þjálfun og naflaskoðun; hvað við getum gert. Allir sem eru framkvæmdastjórar og forstjóri fengu niðurstöður úr skoðanakönnun um hvernig þeir væru í samskiptum. Allir þurftu að meta sjálfan sig og fá tíu til tólf einstaklinga sem eru í kringum þig til að meta. Þetta var langur spurningalisti að fara í gegnum og svo fengu þeir niðurstöðuna; hvernig fólk var að sjá sig sjálft og einnig hvernig hinir voru að sjá samskiptaminstrið hjá fólki. Þetta gengur fyrst og fremst út á naflaskoðun. Við erum að skoða hvað við getum gert, hvað ég get gert, til að vera betri í samskiptum.“

Forstjórinn sýnir gott fordæmi

Þú nefndir í erindi þínu að forstjórinn hafi gengið fremstur í flokki og jafnvel stoppað fund því það vantaði að taka öndun, því það hjálpaði til.

„Auðvitað hjálpar það til að Sveinbjörn Indriðason, forstjóri fyrirtækisins, gengur á undan með mjög góðu fordæmi. Hann hefur verið ótrúlega virkur og flottur þátttakandi í þessu. Við reynum að byrja fundi þannig að við jarðtengjum okkur og tökum þá létta öndun eða förum léttan hring um það hvernig við erum stemmd í dag. Sem betur fer hefur hann og aðrir framkvæmdastjórar gengið á undan með góðu fordæmi“.

Er gott að taka öndun á undan upphafi fundar og jarðtengja sig?

„Mér finnst jóga mjög skemmtilegt og þeir sem hafa farið í jóga líður vel á eftir. Maður er slakur og skilur eftir fyrir utan fundinn það sem á ekki að vera með manni á fundinum. Öndun er mjög góð og það er alltaf þannig að ef manni líður ekki nógu vel þá fer maður í grunna öndun. Það er því gott að taka djúpa öndun til að jafna sig og að líkaminn fái það súrefni sem hann þarf og þá vinnur heilinn betur.“

Getur þú sagt okkur hverjar voru helstu niðurstöðurnar hjá ykkur, án þess að nefna persónur og leikendur. Hvað hefur þessi könnun ykkar leitt í ljós, var hægt að bæta vinnustaðamenninguna hjá Isavía?

„Það er alltaf hægt að bæta, það er alveg sama hversu góð vinnustaðamennningin er, það er alltaf hægt að bæta hana og geta eitthvað betur. Þessi könnun var gerð fyrir einu og hálfu ári síðan og niðurstaðan var að það var svolítið um drottnandi menningu og eins líka þeir sem voru að hörfa til baka og þora ekki að segja. Við viljum fara meira í þessa uppbyggjandi menningu. Það hefur ekki verið gerð könnun aftur en hún er fyrirhuguð á þessu ári og það verður gaman að sjá niðurstöðurnar. Okkar tilfinning er tvímælalaust sú að þetta er að hafa góð áhrif og fólk er virkilega að vanda sig.“

Að við getum treyst hvort öðru

Þú ert með dæmi um að að fundur hafi gengið illa, því andinn var ekki nógu góður á fundinum og núningur. Eftir fundinn hafi svo einn fundarmanna sagt að fundurinn hafi ekki gengið nógu vel og það þyrfti að endurtaka fundinn.

„Ég var ekki sjálf á þessum fundi en hef heyrt svona dæmi. Einn starfsmaður sagði við annan að þetta hafi ekki gengið vel og fundurinn var því bara endurtekinn og þá gekk mun betur.“

Þið talið um að bæta samskipti sem leiði þá til betri samvinnu og árangurs. Það eru því öll þessi grunngildi sem allir eiga að temja sér.

„Þetta snýst fyrst og fremst um traust, þannig að við getum treyst hvort öðru og á þann hátt að ég þori að segja það sem mér liggur á hjarta, hafa skoðanir og að við séum að fá þá bestu niðurstöðu sem við mögulega getum í hverju og einu verkefni.“

Að lokum. Lykilorð fyrir góð samskipti?

„Það er að sjálfsögðu traust og heiðarleiki, gagnvart bæði sjálfum sér og öðrum. Og að sjálfsögðu gleðin. Við verjum ótrúlega miklum tíma í vinnunni og ef það er ekki gaman í vinnunni, þá eigum við væntanlega ekki mjög spennandi daga. Gleðin er númer eitt, tvö og þrjú.“