Kosið í kvöld um stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ
Auka aðalfundir hjá Reyni og Víði klukkan 20:00
Í kvöld, mánudaginn 12. maí, verða haldnir auka aðalfundir hjá Knattspyrnufélaginu Reyni og Knattspyrnufélaginu Víði, þar sem kosið verður um tillögu um stofnun nýs íþróttafélags.
Fundirnir fara fram samtímis, klukkan 20:00. Fundur Víðis verður haldinn í Gerðaskóla í Garði og fundur Reynis í Reynisheimilinu í Sandgerði.
Atkvæðarétt á fundunum hafa skráðir félagsmenn 16 ára og eldri. Þeir sem eru félagar í báðum félögum geta aðeins greitt eitt atkvæði.
Félögin hafa unnið að undirbúningi tillögunnar undanfarna mánuði og nú liggur málið fyrir félagsmönnum til afgreiðslu. Ákveði meirihluti félagsmanna að samþykkja tillöguna tekur ferlið næsta skref í átt að sameiningu.
Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta á fundi sinna félaga og taka þátt í atkvæðagreiðslunni.