Bygg
Bygg

Fréttir

Sterk rekstrarstaða í Reykjanesbæ árið 2024
Föstudagur 9. maí 2025 kl. 13:33

Sterk rekstrarstaða í Reykjanesbæ árið 2024

Ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir árið 2024 var samþykktur með tíu atkvæðum á bæjarstjórnarfundi í vikunni þar sem reikningurinn var til síðari umræðu. Margrét Þórarinsdóttir (U) sat hjá við afgreiðsluna.

Meirihluti bæjarfulltrúa Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir yfir ánægju með fjárhagslega stöðu bæjarfélagsins árið 2024. Í bókun sem Guðný Birna Guðmundsdóttir lagði fram á fundi bæjarstjórnar kemur fram að rekstur sveitarfélagsins hafi verið öflugur og niðurstaðan umtalsvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Tekjur bæjarsjóðs námu 27,8 milljörðum króna en gjöld 25 milljörðum. Samstæðan í heild (A- og B-hluti) var rekin með 40,5 milljarða tekjur og 32,5 milljarða útgjöld. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar eftir fjármagnsliði og aðra liði var jákvæð um 2.577 milljónir króna, sem er 1.357 milljónum betri niðurstaða en áætlað var.

Fjárfest var fyrir sex milljarða, meðal annars í skólauppbyggingu, leikskólum og íþróttamannvirkjum. Þar ber helst að nefna áframhaldandi framkvæmdir við Holtaskóla og Myllubakkaskóla, opnun leikskólanna Asparlautar og Tjarnarlundar og undirbúning vegna Drekadals. Þá var ný körfuboltahöll opnuð í Innri-Njarðvík og stefnt er að opnun nýrrar sundlaugar þar í sumar.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar nam 7,4 milljörðum króna, sem er hækkun um 1,1 milljarð frá fyrra ári. Skuldahlutfall er enn innan ásættanlegra marka – 121,98% hjá bæjarsjóði og 136,7% í samstæðu, sem er undir 150% lögbundnu hámarki. Skuldir á hvern íbúa nema nú um 1,4 milljón króna.

Meirihlutinn telur ársreikninginn staðfesta heilbrigðan rekstur í ört vaxandi sveitarfélagi og lýsir yfir traustri trú á áframhaldandi þróun og vexti Reykjanesbæjar.

Guðný Birna Guðmundsdóttir lagði fram á fundinum eftirfarandi bókun meirihluta bæjarfulltrúa Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar:

„Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fagnar árinu 2024 sem gekk mjög vel og heilbrigður ársreikningur staðfestir það.

Tekjur bæjarsjóðs (A-hluti) var 27,8 milljarðar en gjöld bæjarsjóðs voru 25 milljarðar kr.

Tekjur samstæðu (A og B hluti) voru 40,5 milljarðar en rekstrargjöld 32,5 milljarðar kr.

Mikilvægar tölur hér þar sem tekjur standa undir gjöldum, bæði hjá bæjarsjóði og hjá samstæðunni. Enn eitt árið gættum við þess að tekjur séu umfram gjöld og að það sé afgangur fyrir fjárfestingar.

Fjárfest var á árinu 2024 fyrir sex milljarða og ber þar helst að nefna áframhaldandi verkefni okkar við að stækka og betrumbæta Holtaskóla og Myllubakkaskóla. Auk þess opnuðum við tvo leikskóla, Asparlaut og Tjarnarlund og erum að vinna að því að klára þann þriðja, leikskólann Drekadal. Auk þess opnuðum við stórglæsilega körfuboltahöll í Innri-Njarðvík og stefnt er að opnun nýrrar sundlaugar þar nú í sumar.

Áætlun ársins með viðauka gerði upphaflega ráð fyrir 149 miljóna króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu bæjarsjóðs sem endaði í 1.113 milljónum. Staðan er því mun betri en gert var upphaflega ráð fyrir, eða 964 milljónum betri niðurstaða. Ástæðan fyrir þessum mikla mun á tekjum liggur nær eingöngu í hækkun á útsvari, þ.e. mikill fjöldi íbúa er að flytja í okkar frábæra bæ en fjölgun íbúa undanfarin ár hefur verið að meðaltali um 1.000 nýir íbúar á ári undanfarin ár.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir, fjármagnsliði, skatta og hlutdeild minnihluta nam 8 milljörðum króna. Að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 2.577 milljónir króna en áætlun ársins gerði ráð fyrir 1.220 milljóna króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu hjá samstæðu sveitarfélagsins, eða 1.357 milljón króna betri rekstrarniðurstaða en gert var ráð fyrir.

Veltufé frá rekstri bæjarsjóðs árið 2024 var 3 milljarðar, hækkun um 700 milljónir frá árinu áður.

Veltufé frá rekstri samstæðu árið 2024 var 7,4 milljarðar króna í samstæðu, hækkun um 1,1 milljarð frá árinu áður.

Veltufé frá rekstri er ein mikilvægasta stærðin sem segir til um það fjármagn sem stendur eftir og hægt er að nýta í fjárfestingar eða niðurgreiðslu skulda. Veltufé frá rekstri lýsir heilbrigði reksturs til að standa undir fjárfestingum. Við tókum lán á árinu 2024 fyrir 2,6 milljarða króna sem er eðlilegt á uppbyggingarfasa.

Þegar horft er til skulda þá er skuldaviðmið bæjarsjóðs 97,7% og skuldaviðmið samstæðunnar 105,6%. Skuldahlutfall bæjarsjóðs er 121,98% og samstæðunnar var 136,7%.

Þessar stærðir eru mjög mikilvæg viðmið fyrir sveitarfélög. Sveitarfélög á Íslandi geta ekki lagalega skuldsett sig óendanlega og þurfa að uppfylla skuldaviðmið sem er hlutfall heildarskulda af heildartekjum sveitarfélagsins en hlutfallið á að vera undir 150%. Skuldir á hvern íbúa Reykjanesbæjar er um 1,4 milljónir króna.

Þrátt fyrir lántökur á árinu 2024 og þrátt fyrir sex milljarða framkvæmdir – þá er þetta niðurstaðan.

Heilbrigður ársreikningur hjá kröftugu sveitarfélagi í hröðum vexti. Reykjanesbær heldur áfram að vaxa og dafna og munum við styðja við okkar frábæra sveitarfélag, nú sem endranær.“

Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Sigurrós Antonsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).

Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

„Í ljósi erfiðrar stöðu fjármála í Reykjanesbæ undanfarna mánuði er ánægjulegt að niðurstaða ársreiknings ársins 2024 sýni að rekstrarafgangur nemi 1,1 milljarði og að tekjur séu tæpum 3 milljörðum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Helstu ástæður aukinna tekna eru að útsvarsgreiðslur íbúa aukast um tæpa 2 milljarða á milli ára og þjónustutekjur sveitarfélagsins aukast um tæpan 1 milljarð. Eins og alkunna er hefur meirihlutinn þann háttinn á að vanáætla tekjur hvers árs og því má velta fyrir sér hver eðlilega áætluð tala hefði orðið.

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar einnig áhyggjur sínar af aukningu rekstrarkostnaðar líkt og undanfarin ár. Það er verulegt áhyggjuefni að rekstrarkostnaður sveitarfélagsins hækkar mikið á hverju ári, og nemur hækkunin samkvæmt ársreikningi nú um 3 milljörðum á milli ára og er langt yfir áætlun.

Fyrir ári síðan, við yfirferð ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2023, benti Sjálfstæðisflokkurinn á að handbært fé væri að lækka mikið og að bæjarsjóður gæti lent í vandræðum með að standa við skuldbindingar sínar.

Í ársreikningi 2024 kemur fram að handbært fé í lok árs 2024 var um 133 milljónir. Til að setja þá fjárhæð í samhengi eru rekstrargjöld um 2 milljarðar á mánuði og þar af eru laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins rúmlega 1 milljarður á mánuði. Við vekjum athygli á því að inni í þessum tölum er ekki kostnaður vegna fjárfestinga. Það er því ljóst að Reykjanesbær er kominn í vandræði með að standa við skuldbindingar sínar eins og kom fram í bókun okkar á síðasta ári.“

Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir Sjálfstæðisflokki.

Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Umbótar:

„Umbót gerir ekki athugasemdir við réttmæti ársreiknings Reykjanesbæjar og ber fullt traust til vinnu starfsmanna og löggilts endurskoðanda. Hins vegar varpar ársreikningurinn ljósi á alvarlega lausafjárstöðu sem Umbót hefur áður varað við, meðal annars vegna þess að handbært fé nam einungis 133 milljónum króna um áramót.

Umbót situr hjá við samþykkt ársreikningsins til að undirstrika nauðsyn á gagngerri endurskoðun á fjármálastjórn sveitarfélagsins, þótt engar athugasemdir séu gerðar við réttmæti hans.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót