Bygg
Bygg

Fréttir

Hringtorg fyrsta skrefið við Fitjar
Séð yfir umrætt svæði. VF/Hilmar Bragi
Mánudagur 12. maí 2025 kl. 10:50

Hringtorg fyrsta skrefið við Fitjar

– mikil áhersla lögð á umferðaröryggi og vernd útivistarsvæða

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur staðfest að útfærsla A sé vænlegasti kosturinn við hönnun nýrra gatnamóta Njarðarbrautar, Fitjabakka og Bergáss. Þetta kom fram á fundi ráðsins þann 9. maí þar sem farið var yfir samantekt forsendna og mat á valkostum umferðarmannvirkja á svæðinu.

Í bókun ráðsins segir að útfærsla A skori hæst þegar litið er til umferðarflæðis, öryggis og hagkvæmni – bæði með tilliti til kostnaðar og framkvæmdatíma. Valkostur B, sem einnig var til skoðunar, er sagður dýrari í framkvæmd, veita minni ávinning í öryggismálum og raski auk þess opnu útivistarsvæði sem nýtur hverfisverndar.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Fyrsti hluti samgöngubóta á svæðinu verður hringtorg við gatnamót Njarðarbrautar og Fitjabakka. Ráðið leggur ríka áherslu á að þessi framkvæmd komist sem fyrst á framkvæmdatöflu, enda sé hún lykilatriði í að bæta flæði og öryggi umferðarmynsturs í og við Ásahverfið.

Í framhaldinu mun verða unnið að hönnun nýrra gatnamóta við Grænás og lausna við gatnamót Njarðarbrautar og Bergáss. Einnig verður horft til betri tenginga við Ásahverfið í heild. Lagt er upp með að ljúka hönnunarvinnu fyrir Grænás á árinu 2025.

Markmið með verkefninu í heild er að auka umferðaröryggi, bæta aðgengi og tryggja að nærsamfélagið haldi sínum útivistarsvæðum og hverfisvernd.