Við systur höfum alltaf hugsað mikið með höndunum
Brynhildur Þórðardóttir byrjaði í textíl- og fatahönnun en sneri sér svo að hönnun fyrir heimilið
Brynhildur Þórðardóttir er hönnuður sem ættuð er frá Keflavík. Hún og systur hennar hafa allar notið samvista við listagyðjuna en Brynhildur var komin á tvítugsaldurinn þegar hún steig fyrstu skrefin á listabrautinni. Hún byrjaði á Akureyri, kynnist þar eiginmanni sínum og eftir nám í Listaháskólanum og framhaldsnám í Leeds í Englandi, stofnaði hún merkið Lúka ásamt Gunnhildi systur sinni. Textíl- og fatahönnun skaffaði krónurnar fyrir saltinu í grautinn til að byrja með en svo breytti Brynhildur um stefnu og hannar hún mest muni fyrir heimilið í dag. Hún tók nýverið þátt í HönnunarMars og sér fyrir sér að íslenskir hönnuðir geti haldið stærri sýningar hérlendis sem myndu laða erlenda kaupendur til Íslands.
Brynhildur er fædd og uppalin í Keflavík og í raun byrjaði listagyðjan mjög snemma að banka upp á hjá henni, þó svo að hún hafi ekki fetað þann menntaveg fyrr en upp úr tvítugsaldri.
„Ég á minningar af mér að teikna og mála þegar ég var mjög ung, ég samdi sögur en auðvitað gera mörg börn það kannski án þess að leiðast út í listir en snemma var ég byrjuð að sauma með mömmu minni. Mamma ætlaði sér að verða kjólameistari en lagði bílamálun fyrir sig og var fyrsta konan til að feta þá slóð. Auðvitað má segja að það sé ákveðin list fólgin í því en annars hafa foreldrar okkar ekki verið í listinni þó við systkinin höfum öll fetað listabrautina. Ég var sem sagt byrjuð snemma að sauma og því má kannski segja að ég sé mjög ung þegar fyrstu frækornunum var sáð. Ég fór í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og á þeim tíma vildi ég læra eðlisfræði eða arkitektúr, mjög ólík fög en það var ekki hægt að læra arkitektúr á Íslandi þá. Mér fannst í raun öll fög áhugaverð og skemmtileg þó einhver hafi verið í meira uppáhaldi en önnur svo það tók mig tíma að ákveða hvað ég vildi leggja fyrir mig. Ég ákvað að venda kvæði mínu í kross þegar ég var um tvítugsaldurinn og flutti til Akureyrar og skráði mig í fagurlistir í Myndlistaskólanum á Akureyri. Þetta er svona millistig milli framhaldsskóla og háskóla, ég fann mig vel í náminu og áttaði mig þarna á hvað ég vildi læra og leggja fyrir mig. Þetta var sannkölluð ferð til fjár má segja því ég kynntist eiginmanni mínum líka á Akureyri. Við fluttum svo suður eftir tvö ár fyrir norðan og ég komst inn í textíl- og fatahönnun í Listaháskólanum og útskrifaðist árið 2004. Þaðan fór ég til Bretlands í master, mig minnir að ég hafi klárað námið í lok árs 2006. Það var boðið upp á að klára alla kúrsana í beit í stað þess að taka masterinn á tveimur árum, ég var því úti í tæp tvö ár. Minn skóli var í Leeds en maðurinn minn sem menntaði sig líka, var í York, við bjuggum á báðum stöðunum. Þetta var frábær tími og við komum svo heim í árslok 2006 og ég var byrjuð að vinna sjálfstætt í ársbyrjun 2007. Ég byrjaði strax í kennslu samhliða hönnunarvinnunni og er ennþá að kenna, það getur verið einmanalegt að vera hönnuður og því var og er frábært að geta hitt nemendur og aðra kennara þess inn á milli.“
Lúka Art & Design
Brynhildur á tvíburasystur sem hefur verið áberandi í listalífinu í Reykjanesbæ, Gunnhildi Þórðardóttur. Systurnar stofnuðu vörumerkið Lúka og var formlegt stofnár 2009 en undirbúningur hófst ári fyrr. Gunnhildur er bæði ljóðskáld og myndlistamaður en myndlist og hönnun eiga oft samleið og tengjast á vissan hátt. Systurnar voru saman í þessu í tvö ár en svo vildi Gunnhildur einbeita sér meira að sinni listsköpun og fór því út úr fyrirtækinu og eftir nokkur ár átti viðskiptahugmyndin eftir að breytast.
„Við systur höfum alltaf hugsað mikið með höndunum og þaðan kemur nafnið á fyrirtækinu, lúka er annað orð yfir hönd. Þetta er alþjóðlegt nafn og er þjált fyrir útlendinga, allavega mun þjálla en BRYNHILDUR! Lúka var fatahönnunarmerki til að byrja með og var farið að ganga vel og fötin farin að seljast út í heimi m.a. í Japan, Írlandi og Danmörku. Svo fékk ég pínu nóg af þessu þar sem maður þurfti að eiga svo mikið í öllum stærðum og mér fannst vera svo mikil pressa að koma sífellt með nýja stíla, í stað þess að hægt sé að selja þá hönnun sem fyrir var. Fólk vill alltaf eitthvað nýtt og þess vegna spretta fram skynditískukeðjur og öll vandamálin sem þeim fylgja. Ég fór því að einbeita mér meira að hönnun alls kyns muna fyrir heimilið og er mest í því í dag en er þó með smá fatahönnun á kantinum, hanna t.d. sokka og nærföt fyrir Smart socks. Mig langar til að hanna og búa til vörur sem endast og verða sígildar. Ég var komin á gott skrið með „fatabisnessinum“ og held ég sé að komast á svipaðan stað með fyrirtækið í dag, ég hef tekið þátt í ótal sýningum og svo er mín hönnun m.a. til sölu í Hönnunarsafni Íslands og Rammagerðinni,“ segir Brynhildur.
HönnunarMars og stór sýning á Íslandi?
HönnunarMars er hönnunarhátíð á Íslandi þar sem framsækin hönnun og nýjungar leiða saman sýnendur og gesti. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og var eins og nafnið ber með sér, alltaf haldin í mars en það breyttist í covid. Brynhildur hefur oftar en ekki tekið þátt og vill sjá Íslendinga gera meira af því að halda flottar sýningar og laða kaupendur að hvaðanæva úr heiminum.
„Ég var með einhverja tugi muna til sýnis á sýningunni í Norræna húsinu í ár, allt frá skrautpúðum í sófa, teppi, skurðarbretti og kertastjaka svo dæmi séu tekin. Sýningin gekk mjög vel, ég fékk góð viðbrögð og seldi talsvert af hlutum. Ég myndi samt vilja sjá okkur gera meira út á svona sýningar, ég man þegar ég fór á tískusýningar erlendis með fatahönnunina mína, þarna komu saman hönnunarfyrirtæki og kaupendur hvaðanæva úr heiminum. Ég veit að eigendur gjafavöru- og tískufataverslana á Íslandi fara á sýningar erlendis í þessum tilgangi, því getum við Íslendingar ekki búið til flotta vörusýningu hérlendis og fengið erlenda kaupendur til okkar?? Hugsanlega geta aðilar eins og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Íslandsstofa og til þess bærir aðilar, sameinað krafta sína og beitt sér í þessum málum. Við vitum hversu vinsælt Ísland er, það er eitthvað við okkur sem heillar heiminn og ég er sannfærð um að íslenskir hönnuðir gætu heillað heiminn á langri helgi í flottum sýningarsal,“ sagði Brynhildur að lokum.
Myndirnar tók Sandijs Ruluks.