Bygg
Bygg

Fréttir

Sjávarfallaorkan: Órannsökuð auðlind með mikla möguleika
Hér hafa verið teiknuð inn á Íslandskort þau svæði við landið sem ríkust eru af sjávarfallaorku. Byggt er að mestu á hinu reiknaða sjávarfallalíkani sem birt er á vef Vegagerðarinnar, en einnig á reynslu sjómanna, m.a. eigin reynslu skýrsluhöfundar. Rauður litur merkir svæði þar sem hámarks straumhraði verður um eða yfir 2 m/sek, en þar er orkuþéttni 1 til 4,5 kW á fermetra í þversniði sjávar. Gulur litur táknar svæði þar sem straumhraði verður að hámarki 0,5 til 1 m/sek, og orkuþéttni um 0,2 til 1 kW/m².
Mánudagur 12. maí 2025 kl. 14:45

Sjávarfallaorkan: Órannsökuð auðlind með mikla möguleika

Ný skýrsla varpar ljósi á stærstu ónýttu orkulind þjóðarinnar

Ný skýrsla sem nefnist Sjávarfallaorka 2025 – staða tækniþróunar og nýtingar liggur nú fyrir og vekur upp stórar spurningar um hvernig Íslendingar hafa sinnt – eða öllu heldur hunsað – einn öflugasta mögulega orkugjafa þjóðarinnar: sjávarfallaorkuna. Höfundur skýrslunnar er Valdimar Össurarson hjá Valorku ehf, frumkvöðull sem hefur í áratugi barist fyrir því að sjávarorka fái þá athygli og stuðning sem hún á skilið.

Skýrslan er fyrsta heildaryfirlit sinnar tegundar hér á landi og miðar að því að bæta úr upplýsingaleysi og skorti á stefnumótun í þessum málaflokki. Þar er gerð grein fyrir bæði náttúrufarslegum forsendum, tæknilausnum, helstu verkefnum erlendis og þeirri sérstöðu sem Ísland hefur á þessu sviði – og því tækifæri sem gæti tapast ef ekkert verður að gert.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Sjávarfallaorka – fyrirsjáanleg, endurnýjanleg og umhverfisvæn

Sjávarfallaorka byggir á krafti tunglsins, sem með aðdráttarafli sínu veldur stöðugri hreyfingu hafsins í formi flóðs og fjöru. Þessi orka er bæði fyrirsjáanleg til þúsunda ára og mengunarlaus, ólíkt mörgum öðrum orkukostum sem eru sveiflukenndir, ósjálfbærir eða umdeildir.

Þrátt fyrir það hefur Ísland – eina strandríkið í Evrópu sem enn hefur ekki ráðist í kerfisbundnar rannsóknir á þessari orkulind – nánast horft fram hjá henni. Skýrslan bendir á að lönd á borð við Skotland, Færeyjar, Frakkland og Kanada hafi lagt í stór verkefni og tækniþróun sem þegar skilar árangri. Samkvæmt Alþjóða orkumálastofnuninni gæti sjávarorka árið 2050 lagt til allt að 300 GW afl á heimsvísu og sparað um 500 milljón tonn af losun gróðurhúsalofttegunda.

Ísland stendur eftir – án rannsókna, stefnu eða stuðnings

Valdimar rifjar upp að Alþingi hafi þegar árið 2014 samþykkt þingsályktun þar sem ráðherra var falið að hefja rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku. Engin slík vinna var unnin. Skýrslan gagnrýnir fálæti stjórnvalda, sem hafi alfarið einblínt á vatnsafl og vindmyllur – sem flestir landsmenn séu farnir að vantreysta vegna umhverfisáhrifa og ásýndarspjalla. Þessi skortur á jafnvægi í orkumálum hafi leitt til djúprar vanrækslu í stefnumótun og tækniþróun á sviði sjávarorku.

Í nýlegri könnun Maskínu frá 2022 kemur fram að yfir 70% landsmanna vilja að sjávarfallaorka verði nýtt sem viðbótarorka, en aðeins 59% styðja vindmyllur. Þjóðin er því langt á undan stjórnvöldum í viðhorfum sínum.

Erlend þróun öflug – á meðan Íslendingar sitja hjá

Skýrslan fer ítarlega yfir stöðu tækniþróunar og verkefna erlendis. Þar má nefna:

  • MeyGen í Skotlandi, stærsta þróunarverkefni heims á sviði sjávarorku.

  • Nova Innovation með hverflaver í Hjaltlandseyjum og 60 mánaða samfellt rafmagnsinnlegg.

  • Minesto í Færeyjum, með „svifdrekahverfla“ sem nýta straum mun betur en hefðbundnar vélar.

  • Fjölmörg fyrirtæki í Frakklandi, Hollandi, Japan, Kanada og víðar sem fá ríkisstuðning og starfa í prófunarmiðstöðvum með öflugum tengingum við rannsóknarstofnanir.

Í flestum þessum verkefnum fer fram bæði prófun og rekstur hverfla sem nýta hæga og miðlungs hraða strauma – svipaða þeim sem við Ísland eru algengir.

Valorka ehf – íslenskt frumkvöðlafyrirtæki í straumi andstöðu

Valorka ehf hefur unnið að þróun nýrrar gerðar sjávarfallahverfla frá árinu 2008. Hverflarnir eru hannaðir sérstaklega fyrir hæga strauma og eru einfaldari og hagkvæmari en þungar vélar sem krefjast mikillar dýptar og hárra straumhraða. Valorka hefur smíðað frumgerðir og þróað eigið kerfi sem hægt er að stækka og aðlaga mismunandi aðstæðum. Nýlega hlaut fyrirtækið styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands og vinnur nú að nýrri frumgerð á Selfossi.

Valorka er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur lagt í raunverulega tækniþróun á þessu sviði, og höfundur skýrslunnar segir það að sjálfsögðu fagnaðarefni – en þó óásættanlegt að ekkert regluverk, stefna né fjárfesting komi frá stjórnvöldum.

Skýr skilaboð til stjórnvalda

Í lok skýrslunnar fer höfundur fram á að stjórnvöld breyti nú um stefnu og taki þátt í nýtingu þessarar einstöku orkulindar. Meðal tillagna sem koma fram eru:

  • Að ráðist verði í kortlagningu og rannsóknaáætlun um nýtingu sjávarfallaorku við Ísland.

  • Að sett verði upp prófunarstöð fyrir íslenska tækni á eigin forsendum.

  • Að fjárfest verði í þróunarstarfi á borð við það sem tíðkast annars staðar í Evrópu.

  • Að sett verði á laggirnar almenn stefna um nýtingu sjávarorku og uppbyggingu innviða til framtíðar.

Höfundur telur að með réttum stuðningi gæti sjávarorka orðið stór hluti af framtíð Íslendinga – sem útflutningsvara, sjálfbær orkulind og hluti af loftslagslausnum framtíðar.