HMS
HMS

Mannlíf

Hrollvekjandi draugahús í Akurskóla
Miðvikudagur 27. október 2021 kl. 09:40

Hrollvekjandi draugahús í Akurskóla

- og nemendur áhugasamir um lestrarupplifunina Skólaslit

„Þetta heppnaðist svo vel. Við ákváðum að aldursblanda öllum skólanum frá fyrsta upp í tíunda bekk og höfum verið með þema í anda hrollvekju sem tókst rosalega vel. Það voru margir góðir gestir hjá okkur hér í dag,“ sagði Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla, í viðtali við Víkurfréttir eftir opið hús í Akurskóla þar sem öllum nemendum, ásamt foreldrum og forráðamönnum, var boðið í ferðalag í gegnum draugahús og að skoða metnaðarfullar hrekkjavökuskreytingar í skólanum. Íbúar Innri-Njarðvíkur hafa einmitt verið duglegir síðustu ár að halda upp á hrekkjavökuna og hafa skreytt hverfið sitt fyrir þann dag. Skólastjórinn segir að það skipti máli að foreldrar eða forráðamenn sjái hvað börnin eru að gera í skólanum.

Það hefur greinilega verið lögð mikil vinna í þetta?

Bílaverkstæði Þóris
Bílaverkstæði Þóris

„Já en samt á stuttum tíma. Það lögðu sig allir fram og kennararnir unnu í hópum og engin kennsla á meðan. Þetta var bara frábært og krakkarnir mjög áhugasamir.“

Hrekkjavakan hefur verið að stækka undanfarin ár.

„Já og sérstaklega hérna í Innri-Njarðvík. Foreldrar hafa verið duglegir að skreyta húsin sín og þá hafa krakkar verið að ganga á milli húsa, banka upp á og fá sælgæti í poka. Þá hefur foreldrafélagið í skólanum verið mjög virkt á hrekkjavökunni.“

Á göngum skólans mátti sjá ýmsa hrollvekjandi muni. Risakönguló hafði étið einhvern þannig að aðeins voru fætur sem stóðu út úr munninum á henni. Líkkista var á einum stað og vofur og köngulær hangandi niður úr loftum og á veggjum og skólastjórinn talar um að það sé mikill hugmyndaauðgi í skólanum og það sé nauðsynlegt að brjóta upp skólastarfið hjá krökkunum með svona viðburði.

„Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem við getum gert eitthvað svona,“ segir Sigurbjörg og vísar til kórónuveirufaraldursins. Aðspurð að því hver hafi verið kveikjan að draugahúsinu í skólanum segir Sigurbjörg það vera lestrarupplifunina Skólaslit sem m.a. allir skólar í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum taka þátt í núna í október. Þar fer Ævar Þór Benediktsson á kostum með hrollvekju sem gerist í ónefndum skóla á Suðurnesjum á hrekkjavökunni.

Hvernig hafa viðbrögðin við Skólaslitum verið?

„Bara mjög góð. Krakkarnir eru áhugasamir og hlusta á hverjum einasta degi. Það er beðið eftir því á hverjum einasta degi þegar kennararnir kveikja á spilaranum eða lesa sjálfir fyrir nemendur.“

Sigurbjörg segir að Skólaslit kveiki áhuga allra á lestri, ekki bara drengja. Hún vonast til að framhald verði á verkefninu.

Við höfum öll áhyggjur af því að krakkar og sérstaklega strákar séu ekki nógu duglegir að lesa. Hefur þú trú á að svona aðgerð hafi góð áhrif?

„Það hefur allt áhrif. Aðaláhrifin hafa líka foreldrar, að sýna áhuga á lestri og ýta undir þetta heima, það hefur gríðarleg áhrif. Þetta kveikir líka undir í foreldrum að koma hingað og sjá þetta og vonandi hefur þetta allt áhrif á lesturinn,“ segir Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla, í samtali við Víkurfréttir.