JS Campers
JS Campers

Mannlíf

Hreinskilinn kennari  sagði mér að einbeita mér að öðru en tónlist
Þriðjudagur 23. júní 2020 kl. 07:25

Hreinskilinn kennari sagði mér að einbeita mér að öðru en tónlist

Skarphéðinn Guðmundsson er uppalinn í Garðinum en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Sólheima til að hefja ferðaþjónustu stuttu áður þau fengu heimsfaraldur í fangið. Hann segist þó vera bjartsýnn og spenntur fyrir ótal verkefnum í sumar á Grímsnesi. Hann svaraði nokkrum spurningum blaðamanns Víkurfrétta.

– Nafn:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skarphéðinn Guðmundsson.

– Fæðingardagur:

4.maí 1988.

– Fjölskylduhagir:

Unnusta, Helga Þórunn Pálsdóttir, og dæturnar tvær, Kristín Dalrós og Sigurrós Tinna.

– Búseta:

Sólheimar í Grímsnesi.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin:

Sonur Kristínar Júlla, gervahönnuðar, og Guðmundar Skarphéðinssonar, vélstjóra. Bjó barnungur á Siglufirði en sleit barnsskónum í Garðinum.

– Starf/nám:

Forstöðumaður ferðaþjónustu og Sesseljuhúss umhverfisseturs á Sólheimum.

– Hvað er í deiglunni?

Lífið þessa stundina snýst allt um að undirbúa sumarið sem er framundan, starfið og persónulega lífið er eitt og þetta er svo gaman. Ekkert nema skemmtileg verkefni alltaf sem öll snúast um að gleðja aðra. Mögulega er hægt að setja sig í þessi spor með því að kíkja inná instagram síðuna: #solheimareco sem Helga unnusta mín heldur utan um og deilir með þjóðinni okkar daglega lífi í þessu blómstrandi samfélagi sem við búum í.

– Hvernig nemandi varstu í grunnskóla?

Alveg þokkalegur.

– Hvernig voru framhaldsskólaárin?

Skemmtileg! Hefði alveg mátt vera meiri áhugi á náminu.

– Hvað er þitt draumastarf?

Frá því á unga aldri hefur það verið að verða knattspyrnustjóri Manchester United, held ég myndi valda því vel. Að öðrum kosti er það núverandi starf.

– Hver var fyrsti bíllinn þinn?

Toyota Corolla ‘97.

– Hvernig bíl ertu á í dag?

Búinn að yngja upp um eitt ár og kominn á Toyota Rav ‘98 módel.

– Hver er draumabíllinn?

Volvo XC90 er mjög heillandi

– Besti ilmur sem þú finnur:

Vanilla berry sorbet er eitthvað annað ávanabindani ilmur!

– Hvernig slakarðu á?

Í baði, algjör friður! Annað trikk sem ég nota oft til þess að endurnýja orkuna er þegar ég er einn að keyra að hafa slökkt á útvarpinu og algjöra þögn.

– Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. sautján ára?

Akon var a.m.k. ofspilaður í geislaspilara fyrsta bílsins.

– Uppáhaldstónlistartímabil?

Tíundaáratugslög gefa auðvitað góðar minningar eðlilega miðað við aldur en er pínu gamaldags í tónlist og 70‘s er klárlega uppáhalds.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Fátt nýtt en mest öll tónlistin á Gullbylgjunni.

– Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?

Móðir mín er og var sjúkur Bowie-aðdáandi, ef minnið klikkar ekki ómaði hann reglulega í plötuspilaranum.

– Leikurðu á hljóðfæri?

Hef reynt en var með hreinskilin kennara sem benti mér á að einbeita mér bara að öðru.

- Er einhver tónlist sem þú skammast þín fyrir að fíla, svona guilty pleasure?

Ég myndi náttúrlega aldrei segja frá því ef ég skammaðist mín fyrir það – en ég fíla fullt af þjóðsöngvum.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Horfi mjög lítið á sjónvarp, horfi helst á fótbolta. Sem sagt lítið sem ekkert sjónvarp síðustu mánuði en annars hef ég gaman að heimilda- og fréttatengdu efni.

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Man. Utd.-leikjum

– Besta kvikmyndin?

Það var alltaf Pulp Fiction en þegar Boheimans Rapsody kom út held ég að ég hafi horft á hana u.þ.b. tólf sinnum áður en ég hvíldi hana.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða rithöfundur?

Er lítill bókamaður en ævisagan: „Mér leggst eitthvað til“ er mögnuð saga!

– Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?

Raða í uppþvottavélina! Rýmisgreindin kemur sér vel þar.

– Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?

Lasagne sem hefur fengið nafnið pabba lasagne.

– Hvernig er eggið best?

Með beikoni ...

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Níska.

– Uppáhaldsmálsháttur eða tilvitnun:

„Dýr mundi Hafliði allur.“

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Ég er með ótrúlegt minni og margar minningar svo það er ómögulegt að átta sig á hver er elsta.

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Nota of oft „sama og þegiðu“ þegar ég afþakka eitthvað.

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Væri til í að prófa 70‘s en að fara til baka í eigin lífi væri ég til í að upplifa 26. maí 1999 aftur.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Rétt að byrja.

– Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag.

Ætli ég yrði ekki nokkuð vinsæll ef ég myndi vakna í líkama Trump og segði af mér.

– Hvaða þremur persónum myndir þú bjóða í draumakvöldverð?

Eric Cantona, Anthony Hopkins og að sjáfsögðu mömmu.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Skrítið, fluttist búferlum með fjölskyldunni til þess að sjá um ferðaþjónustu en fengum COVID í fangið stuttu eftir flutning. Vorum nánast einangruð frá samfélaginu í tvo mánuði en hins vegar hefur allt verið að snúast og landið að lifna við. Gríðarlega spennandi tímar framundan.

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Mjög mikil, á Sólheimum ríkir bjartsýnin yfir og allt um kring og það smitar út frá sér í alla íbúa og gesti. Staðurinn fagnar líka 90 ára afmæli í sumar með tilheyrandi dagskrá og það fær mann til þess að hlakka til og allir eru velkomnir.

– Hvað á að gera í sumar?

Vera í náttúrunni, sveitasælunni á Sólheimum og taka á móti Suðurnesjafólki og landsmönnum öllum sem ætla að sækja staðinn heim. Ég ætla líka á tólf tónleika í sumar sem allir fara fram á Sólheimum.

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Ætli ég myndi ekki rúnta með þau um Reykjanesskagan, grípa Villa á Pulsuvagninum áður en það kæmi að rúsínunni í pulsuendanum sem væri að fylgjast með sólsetrinu á Garðskaga.

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu ...

Í augnablikinu væri bara frábært að komast í flugvél, færi þá kannski bara í innanlandsflug en miðað við eðlilegt árferði á ég alveg Asíu eftir og væri til í að byrja á Japan.