Mannlíf

Heldri borgarar Grindavíkur á víð og dreif
Birna og Kolbrún inni á herbergi sínu í Skógarbæ.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 17. febrúar 2024 kl. 06:00

Heldri borgarar Grindavíkur á víð og dreif

Þegar fyrri rýmingin í Grindavík átti sér stað 10. nóvember á síðasta ári var eitt stærsta verkefnið að koma öllu vistfólki á Víðihlíð, sem er elliheimilið í Grindavík, á öruggan stað. Flestir byrjuðu á að fara á sjúkrahúsið í Keflavík en svo tókst starfsfólki að koma fólkinu fyrir á hinum og þessum stofnunum víðsvegar um suðvesturhornið. Vinkonurnar Birna Óladóttir og Kolbrún Einarsdóttir enduðu í Skógarbæ, sem er eitt af öldrunarheimilum Hrafnistu á höfuðborgarsvæðinu.

Birna bjó í nýrri hlutanum á Víðihlíð, íbúð hennar er sú fyrsta í viðbyggingunni og er sá hluti Víðihlíðar ónýtur. Við jarðhræringarnar 10. nóvember myndaðist sprunga í gólfinu og þegar komið var í íbúðina sunnudaginn 11. febrúar var útveggurinn við gamla hlutann búinn að færast talsvert frá og rétt fyrir utan íbúðina er nýrri hlutinn búinn að rífa sig meira frá gamla hlutanum. Að sögn Sigurðar Karlssonar, sem er umsjónarmaður fasteigna Grindavíkurbæjar, er austurhlutinn á Víðihlíð ónýtur en gamli hlutinn þar sem sjúkraheimilið er virðist vera í lagi. Hins vegar sé ekki hægt að meta allt húsnæðið á meðan atburðurinn er enn í gangi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Skemmdir á íbúð Kolbrúnar (l.t.v.) og Víðihlíð.

Við hamfarirnar 10. nóvember byrjaði  Birna á að fara með elsta syni sínum, Einari, í bústað hans í Fljótshlíð og Kolbrún fór með dætrum sínum, Laufeyju og Valgerði, í sumarbústað rétt hjá Búrfellsvirkjun. Nokkrum dögum síðar voru þær komnar í Skógarbæ og voru öruggar um að geta verið í þrjá mánuði hið minnsta. Birna hefur síðan þá sótt um að geta verið lengur. „Það losnaði hérna og ég komst inn, Kolla mágkona kom svo nokkrum dögum síðar. Það fer vel um okkur hérna, maturinn er mjög góður. Ég var í íbúð á Víðihlíð en hún er ónýt myndi ég halda. Það er sprunga sem liggur í gegnum hana og ég á ekki von á að ég flytji aftur þangað úr því sem komið er en ég ætla mér að flytja aftur til Grindavíkur. Auðvitað eru þetta mikil viðbrigði, ég hafði allt til alls í íbúðinni minni, gat alltaf farið niður eftir hádegi og hitt Grindvíkinga og svo dundaði ég mér á saumavélinni minni, í prjónaskap og öðru þess á milli. Ég hitti börnin mín og barnabörnin oft svo auðvitað er þetta mikil breyting, það er ekki hægt að þræta fyrir það,“ sagði Birna.

Kolbrún bjó ennþá í eigin húsnæði í Grindavík og er farin að leita sér að húsnæði í Keflavík, hún vill ekki setjast að í Reykjavík eins og Birna. „Ég gat séð um mig sjálf að mestu og var ekkert farin að huga að því að flytja í Víðihlíð. Það gefur auga leið að þetta er mikil breyting fyrir mig, ég gat keyrt um í Grindavík og farið þangað sem mig langaði en ég treysti mér ekki til að keyra hér í Reykjavík. Ég get ekki hugsað mér að búa hérna og er því farin að skoða íbúðir í Reykjanesbæ. Annars hefur mér liðið vel hér, það er vel hugsað um okkur. Ég er venjulega komin á stjá um níuleytið, les Moggann minn og fæ mér morgunmat, Birna lúrir lengur. Svo förum við saman í hádegismatinn, ég get víst ekki hrósað matnum því ég tapaði bragðskyninu árið 2019. Við spilum félagsvist á mánudögum og þegar einhverjir kíkja í heimsókn til okkar erum við fljótar að plata viðkomandi í manna, okkur finnst gaman að spila. Því miður eru flestir sem búa hér með okkur frekar mikið veikt fólk, við Birna erum eins og unglömb við hliðina á mörgum þeirra. Það lifnar alltaf yfir á mánudögum þegar fólkið sem býr í íbúðum hér í kring kemur og spilar við okkur félagsvist.“

Vinkonurnar Birna Óladóttir og Kolbrún Einarsdóttir.

Vinkonunum leiðist ekki og nýverið var sjónvarp Birnu sótt á Víðihlíð svo hér eftir geta þær horft í ró og næði inni á sínu herbergi. „Það er fínt að geta horft á fréttirnar og annað í sjónvarpinu inni á herberginu okkar, þar getum við verið í ró og næði. Ég er búin að vera í vandræðum með heyrnina í mér en var hjá lækni um daginn og er búin að fá heyrnartæki. Það er ekki gaman fyrir Kollu mágkonu að geta ekki haldið uppi neinum samræðum við mig en þetta stendur allt til bóta. Ég stefni á að vera hér áfram, hér líður mér vel. Svo verðum við bara að sjá hvernig málin þróast í Grindavík, það er ekki nokkur leið að spá fyrir um þetta,“ sagði Birna að lokum.