Flugger
Flugger

Mannlíf

Heimskonur hittast í Reykjanesbæ
„Hlutverk mitt er að hjálpa þessum konum að finna leiðina í íslensku heilbrigðiskerfi," segir ljósmóðirin Edythe.
Fimmtudagur 28. febrúar 2019 kl. 06:00

Heimskonur hittast í Reykjanesbæ

Hvernig myndi þér líða ef þú ættir heima í Rússlandi eða Kína, værir ófrísk og kynnir ekki tungumálið?

Þá væri nú gott að fá svona fræðsluengil sem hefur áhuga á að fræða erlendar konur um réttindi sín í landinu en það gerir einmitt hin ameríska-filippeyska, Edythe L. Mangindin. Hún flutti hingað til Íslands árið 2009, er gift Val Arnarsyni og saman eiga þau tvö börn. Edythe útskrifaðist sem hjúkrunarfæðingur frá Háskóla Íslands árið 2015 og sem ljósmóðir árið 2018.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Hún vil taka þátt í samfélaginu
„Ég flutti hingað til Íslands árið 2009, eftir að ég kynntist manninum mínum og líkar mjög vel. Ég var fljót að læra íslensku því eiginmaður minn og tengdamamma voru svo dugleg að tala við mig á íslensku. Með þeim gat ég æft mig og var aldrei dæmd ef ég talaði vitlaust. Það var samt mjög auðvelt að tala ensku hér á landi því margir Íslendingar tala ensku en ég vildi tala íslensku frá upphafi, því ég vildi taka þátt í samfélaginu. Þá er best að skilja tungumálið sem Íslendingar tala. Ég vildi ekki vera utangarðs en það gerist frekar ef maður talar ekki íslensku. Mér fannst mjög áríðandi þegar fyrra barnið okkar fór á leikskóla að ég vildi skilja málið. Maðurinn minn hvatti mig einnig til að fara í háskólanám og spurði hvað mig langaði að verða. Mamma mín og tvær systur mínar eru allar hjúkrunarfræðingar og það ýtti við mér að verða einnig hjúkrunarfræðingur. Ég skráði mig í Háskóla Íslands, í hjúkrunarfræðideildina, svo hélt ég áfram að læra og er núna útskrifuð ljósmóðir. Það var auðvitað mjög erfitt að læra í íslenskum háskóla, því þó að námsefnið væri á ensku þá töluðu allir kennararnir íslensku og glærurnar voru á íslensku. Nú er ég smátt og smátt að læra réttar íslenskar áherslur,“ segir Edythe sem talar þokkalega góða íslensku og starfar á Landsspítalanum Háskólasjúkrahúsi.

Hvers vegna þessi fræðsla?
„Þegar ég var hjúkrunarfræðinemi þá tók ég fyrst eftir því hvað sjúklingar, fólk af erlendu bergi brotið, var í miklum vandræðum sem sjúklingar og vissi ekki nóg um réttindi sín. Þá fannst mér ég vera mjög heppin að eiga íslenska fjölskyldu sem studdi mig og hjálpaði mér hér á landi. Ég fann til með þessu erlenda fólki. Svo þegar ég varð ófrísk að fyrsta barninu okkar þá man ég hvað mér fannst erfitt upp á eigin spýtur, að finna alls konar upplýsingar um íslenska kerfið og hvað það býður verðandi mæðrum upp á. Í Bandaríkjunum þar sem ég ólst upp eru til dæmis fæðingarlæknar sem stýra ferli fæðingar en hér á landi eru það ljósmæður ef allt er eðlilegt. Mér fannst þetta hlutverk þeirra mjög merkilegt og mikilvægt, enda heita þær ljóssins mæður, sem mér finnst eitt fallegasta íslenska orðið. Samfélög eru svo mismunandi þegar kemur að fæðingu og réttindin mjög ólík á milli landa. Þess vegna vildi ég fara af stað með fræðslu og fékk styrk hjá Velferðarráðuneyti og Þróunarsjóði innflytjendamála. Nú flyt ég þessi erindi í Reykjavík og hér á Suðurnesjum en á þessum svæðum eru langstærstu hópar erlendra íbúa. Það er mjög gaman þegar konur koma saman og uppgötva í leiðinni hver aðra og jafnvel samlanda sína. Hlutverk mitt er að hjálpa þessum konum að finna leiðina í íslensku heilbrigðiskerfi, að vita hver réttindi þeirra eru. Til dæmis þegar kona er ófrísk, vantar túlk eða finnst fagaðili ekki bera virðingu fyrir sér og skynjar jafnvel fordóma í garð sinn og veit ekki að hún má skipta um fagaðila. Alls konar spurningar vakna: Hvernig virka sjúkratryggingar á Íslandi og hversu langt er fæðingarorlofið. Hvert geturðu leitað með flóknar fjölskylduaðstæður en þær vita jafnvel ekki að félagsráðgjöf býðst. Almenn líkamsheilsa og geðheilsa. Það er nauðsynlegt að fræða konurnar því sumar eru aldar upp við einangrun eða eru giftar eiginmanni sem vill stjórna þeim og lokar þær jafnvel inni eða hótar þeim. Konur búa við alls konar aðstæður og þær eru jafnvel hræddar. Sumum er sagt að þær geti misst börnin sín ef þær hlýða ekki eiginmanni sínum og svona. Þjóðir eru mjög mismunandi með tilliti til réttinda kvenna. Íslenskar konur eru yfirleitt mjög sjálfstæðar og vita meira um íslenska heilbrigðiskerfið en þær erlendu. Þegar kona býr hér á landi og hefur ekki íslenskt stuðningsnet þá getur hún lent í vandræðum ef logið er að henni af makanum. Við mætum konum þar sem þær eru og sumar þeirra eru að hittast í fyrsta sinn. Það gefur þeim svo mikið að geta tjáð sig við konur frá sama heimalandi og þá vefst ekki tungumálið fyrir þeim. Ég hvet allar konur til að koma og hlusta, kynnast nýjum konum. Íslenskar konur eru einnig velkomnar,“ segir Edythe hlýlega og brosir út að eyrum.

Næstkomandi laugardag 2. mars klukkan 11 verður fróðlegur viðburður, heilbrigðisspjall, á vegum Samtaka kvenna af erlendum uppruna, Velferðarráðuneytisins og Þróunarsjóðs innflytjendamála, í Bókasafni Reykjanesbæjar, þar sem ljósmóðirin Edythe L. Mangindin mun bjóða upp á almennt heilsuspjall. Hún mun fjalla um íslenska heilbrigðiskerfið og einnig fræða erlendar konur um barneignaþjónustu hér á landi. Léttar veitingar verða. Allar konur hjartanlega velkomnar! Það er hægt að skrá sig með því að senda tölvupóst á [email protected]

[email protected]