Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

  • Heimatilfinningin kom fljótt
    Karen og Stefán hafa búið í Danmörku frá árinu 2016 og líkar það vel.
  • Heimatilfinningin kom fljótt
    Karen kann vel við sig á golfvellinum enda afbragðs kylfingur.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 18. maí 2020 kl. 11:35

Heimatilfinningin kom fljótt

– Steig út fyrir þægindarammann og lærði margt um sjálfa sig

Karen Guðnadóttir (28 ára) og eiginmaður hennar, Stefán Már Jónsson (30 ára), tóku sig til fyrir þremur árum og fluttu til Danmerkur.
Karen starfar á elliheimili þar og hefur verið með hóptíma í líkamsrækt en Stefán vinnur við forritun.

– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?

„Fyrst og fremst til að prófa eitthvað nýtt og verða reiprennandi í öðru tungumáli. Ég er mjög opin og forvitin um annað fólk og lönd og hef lengi vitað að ég vildi prófa að búa erlendis.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

– Saknarðu einhvers frá Íslandi?

„Auðvitað, ég sakna íslenska íssins úr vél ekkert lítið. Fjölskyldunnar helling og vinanna sem búa á Íslandi. Sérstaks matar saknaði ég mest til að byrja með en hægt og rólega leið það hjá, annars fæ ég reglulega harðfisk og fleira séríslenskt.

Akkúrat þessa stundina sakna ég mest fjölskyldunnar, sérstaklega vegna óvissunnar um hvenær við náum að hittast aftur.“

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?

„Klárlega landamærin. Við búum í Suður-Danmörku, innan hálftíma frá Þýskalandi. Þar er hægt að versla mun ódýrara, sérstaklega matvöru. Líka gaman að geta fengið upplifun beggja landa, t.d. að hlusta á útvarpið bæði á þýsku og dönsku.

Fyrst áttum við heima í litlum bæ sem heitir Gråsten en núna búum við í Rødekro, þó er Gråsten ennþá stór partur af okkar lífi þar sem við erum bæði að vinna þar.

Varðandi Danmörku sem kost, þá er það kostur hversu fljótur maður er að aðlagast hérna eins og í eigin heimalandi ásamt því að læra tungumálið.“

– Eitthvað komið þér á óvart við að búa erlendis?

„Mest hversu fljótt heimatilfinningin kemur í nýja landinu.

Það hefur líka komið mér helling á óvart hversu heitt getur orðið hérna að vori til, hversu miklu lengri sumur eru hér miðað við Ísland. Núna sem dæmi erum við að skríða inn í miðjan maí en samt eru alveg stuttbuxur búnar að vera notaðar í fimm plús daga.

Að sakna fjalla og finnast tré út um allt stundum of mikið er líka eitthvað sem ég hugsaði ekki um fyrirfram.“

– Við hvað starfarðu í Danmörku?

„Ég hef verið að vinna sem afleysingarstarfsmaður á elliheimili síðustu tvö árin. Þrátt fyrir að leysa bara af eru vaktir í hverri viku.

Einnig hef ég verið að kenna hóptíma í rækt síðustu rúm tvö árin. Var komin með um tólf hóptíma á viku þegar mars skall á [COVID-19].“

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Núna er ég bara á elliheimilinu því ræktarstöðvar eru lokaðar. Þá daga sem ég vinn vakna um fimm, byrja að vinna klukkan sjö. Það er um hálftíma akstur þangað. Stundum vinn ég til eitt og stundum til þrjú. Líklega er ég annað hvort mætt á golfvöllinn, farin út að labba eða hlaupa eða gera æfingar heima eftir vinnu. Við hjónin löbbum mikið, elskum að skoða um og labba  t.d. í skógum.“

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

„Jú, jú. Aðallega út af veðrinu og ég trúi á að við fáum að spila golf allan tímann.“

Afreksíþróttamanneskja með marga hæfileika

Karen er snjall kylfingur og keppti lengi í golfi hér heima áður en hún flutti út, hún varð m.a. átta sinnum klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja og keppti fyrir hönd íslenska landsliðsins.

– Nú hefur þú keppt í golfi lengi og hefur m.a. skipað landslið Íslands, ertu ennþá í golfi?

„Já, golf er vel partur af lífinu og ég er í klúbbliði hérna. Við áttum að keppa í maí en því var aflýst, svo er spurning með júní og rest sumars.

Þegar við völdum til hvaða bæjar við vildum nákvæmlega flytja þá var golfvöllur stór partur af þeirri ákvörðun. Hins vegar höfum við nú búið í tveimur bæjum og verið í tveimur mismunandi golfklúbbum.“

– En ertu ennþá að keppa?

„Já en einungis í liðakeppni. Það var mikið stökk niður fyrir mig að keppa bara fjórar helgar yfir sumarið í stað þess að vera að keppa u.þ.b. aðra hverja helgi eins og ég var vön að gera á Íslandi.“

– Áttu fleiri áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á áhugamálin?

„Ég sem mikið ljóð og hreyfing almennt er líka áhugamál. Ég get ekki beinlínis sagt að áhugasviðið hafi breyst mikið á þessum tímum en hins vegar hefur það verið mikil hvatning og skemmtun að setja inn myndir og myndbönd á Facebook til að hvetja fólk til að hreyfa sig. Þar sem ég er hóptímakennari hérna þá vil m.a. hvetja þau sem hafa verið í tímum hjá mér.“

– Þú ert virk á samfélagsmiðlum, segðu okkur hvað þú ert að gera þar.

„Upp á síðkastið (á COVID-tímum) hef ég mjög mikið verið að dreifa þeim skilaboðum að þrátt fyrir að allar líkamsræktastöðvar séu lokaðar getur maður samt haldið sér í formi. Mitt markmið í þessu er að hvetja hvern og einn áfram, ég sýni gjarnan æfingar sem ber ekki endilega mikið á annars staðar.

Ég vil líka mikið koma því á framfæri á mínum samfélagsmiðli (Facebook) að allir lifi því lífi sem þá langar og að læra að vera alveg sama hvað öðrum finnst almennt. Þessum boðskapi blanda ég mikið saman við hreyfi- og heilsuboðskap minn og þetta felst oft líka inn í ljóðum mínum sem ég deili.“

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

„Ég fæ mögulega að kenna smá á golfvellinum sem aðstoðarþjálfari, annars eru það vaktir á ellliheimilinu, spila golf, stunda ræktina, heima og úti, og vonandi tjaldferðalög.“

Fjölskyldan var á leiðinni í heimsókn

Karen var farin að hlakka til að fá foreldra sína í heimsókn um páskana en þau eiga enn eftir að koma í heimsókn til hennar og Stefáns frá því að þau fluttu til Danmerkur.

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?

„Púha! Ég er nú ein af þeim sem hef samt sem áður verið frekar heppin.

Í fyrsta lagi átti ég von á að fá pabba, mömmu og bróðir minn í heimsókn um páskana. Við höfum búið hérna síðan 2016 og þetta hefði orðið fyrsta heimsókn foreldra minna, ásamt því að ég hafi ekki hitt þau í tvö ár. Einnig áttum við að hitta þau í Frakklandi í ágúst, þar sem pabbi átti að fara að keppa í golfi og við því að ætluðum keyra þangað – en þeirri ferð var aflýst.

Ég var komin vel af stað í að kenna hóptíma, sem ég var búin að byggja upp hægt og rólega af þátttakendum, og var bara búin að kenna í fyrsta sinn tvo danstíma. Þannig að því leyti þarf ég nánast að byrja upp á nýtt. Við eigum ferð heim um jólin, sjáum til hvernig það fer.

Einnig var ég farin að skoða aðrar vinnur en er heppin að geta enn tekið vaktir á elliheimilinu.“

– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?

„Við erum á einu af þeirra svæða í Danmörku þar sem fá tilfelli hafa verið en sömu reglur gilda þó í öllu landinu. Það helsta sem gerðist hjá okkur var að landamærin lokuðu. Við höfum ekki verslað þar í tvo mánuði en vorum vön að gera það þrisvar, fjórum sinnum í mánuði.“

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?

„Tilveran hefur heilt litið yfir verið fín þar sem við höfum ekki beint misst innkomu, nema hóptíma mína en þá hef ég verið að taka vaktir meira á elliheimilinu í staðinn. Golfvöllurinn lokaði hins vegar í tólf daga í mars/apríl sem var akkúrat þegar byrjaði að vora og golfið hefði verið byrjað á fullt.

Nú vinn ég á elliheimilinu með plasthlíf fyrir andlitinu. Lokun landamæranna, að fara ekki í heimsóknir eða fá heimsóknir og svo að komast ekki í ræktina eru auðvitað stærstu breytingarnar.“

Óhrædd við að reyna nýja hluti

Í upphafi sagði Karen að hafi þau ekkert verið búin að ákveða hvort þau ætluðu að búa stutt, lengi eða alla ævi erlendis en aðspurð um hvort þau reikni núna með því að ílengjast eða hvort þau stefni heim segir Karen erfitt að segja, að fátt hafi í raun breyst. „Þó tel ég meiri líkur en minni á að við munum vera lengi búsett erlendis.“

– Er eitthvað sem þú vilt bæta við að lokum?

„Að flytja til útlanda fær mann til að læra betur á sjálfa sig. Ég prófaði  t.d. í fyrsta sinn að vera með uppistand eftir að ég flutti út. Núna hef ég gert það þrisvar sinnum, alltaf á íslensku.

Mér finnst ég líka hafi samið betri ljóð eftir flutninginn út en ég hef samið í nánast tvo áratugi. Það brjótast öðruvísi tilfinningar út þegar maður hefur prófað búsetu erlendis og þannig verða oft góð ljóð til.

Svo hef ég farið í grunnnám í einkaþjálfun hérna í Danmörku og öðlast réttindi hóptímakennara en ég hef ekki náð að halda áfram með námið því ég hef ekki ennþá náð fullum vinnusamningi við ræktarstöð.

Þetta eru hlutir sem breyttust hjá mér, því þetta hafði ég aldrei gert á Íslandi áður.“

Hér er hægt að lesa viðtalið og sjá fleiri ljósmyndir í vefútgáfu Víkurfrétta