Mannlíf

Heiðra minningu Ölla með nýjum körfuboltavelli
Vígsla Öllavallar fór fram 17. júní í Ungmennagarðinum
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 22. júní 2022 kl. 09:25

Heiðra minningu Ölla með nýjum körfuboltavelli

Öllavöllur var formlega vígður á 17. júní í Ungmennagarði Fjörheima í Reykjanesbæ. Völlurinn heitir Öllavöllur eftir körfuboltamanninum og Njarðvíkingnum Örlygi Aroni Sturlusyni sem lést af slysförum langt fyrir aldur fram. Völlurinn mun halda uppi minningu Ölla og heiðra hann en einnig vekja athygli á Minningarsjóði Ölla. Viðstaddir vígsluna voru meðal annars fulltrúar frá minningarsjóðnum, fulltrúar unglingaráðs Fjörheima, fulltrúar ungmennaráðs Reykjanesbæjar og umsjónarmaður ráðanna auk gesta og gangandi.

Margrét Norðfjörð Karlsdóttir, formaður unglingaráðs Fjörheima, flutti ræðu fyrir hönd ungmennanna sem létu hugmyndina að vellinum verða að veruleika. „Í byrjun skólaárs ákváðum við að einblína á eitt stórt fjáröflunarverkefni sem myndi nýtast í Ungmennagarðinum og þá kviknaði hugmyndin að Öllavelli,“ segir hún. 

Unglingaráðið hefur unnið að þessu verkefni í tæpt ár og tókst þeim að fjármagna völlinn með happdrætti og styrk frá ungmennaráði Reykjanesbæjar. „Þetta hefur verið afar lærdómsríkt og krefjandi verkefni en í dag er ég afar þakklát fyrir að það sé orðið að veruleika,“ sagði Margrét. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ólafur Bergur Ólafsson, umsjónarmaður unglingaráðs Fjörheima og ungmennaráðs Reykjanesbæjar, sagðist vera afar stoltur af ungmennum ráðanna: „Löng og ströng vinna er að skila sér hér í dag. Þessir flottu krakkar eru búnir að sýna það og sanna að það sé allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.“

Minningarsjóður Ölla styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna. Sjóðurinn var stofnaður til minningar um Ölla sem átti bjarta framtíð í íþróttinni. Hann hóf feril sinn með meistaraflokki Njarðvíkur árið 1997, aðeins sextán ára gamall og var lykilmaður í liðinu sem varð Íslandsmeistari árið 1998. Ungmennum unglingaráðsins er það hugleikið að öll þau börn sem vilja stunda íþróttir eigi að hafa kost á því. Ólafur segir þetta ekki vera fyrsta verkefni ráðsins sem er tileinkað minningarsjóðnum. „Árið 2020 hélt unglingaráðið góðgerðartónleika í Hljómahöll þar sem allur ágóði tónleikanna rann til sjóðsins. Á hápunkti Covid tókst þeim að safna 400.000 krónum, sem er bara magnað,“ sagði Ólafur. 

Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á reikning sjóðsins: 0322-26-021585, kt. 461113-1090.