Gunnhildur Þórðardóttir með sýningu í Jónshúsi
Kerfi í Jónshúsi í Kaupmannahöfn til 20. september 2025
Sýningin Kerfi með listaverkum eftir Gunnhildi Þórðardóttur opnaði í Jónshúsi í Kaupmannahöfn 9. ágúst. Sýningin mun standa til 20. september. Gunnhildur Þórðardóttir er myndlistarmaður, skáld og kennari og hefur áður haldið einkasýningu í Jónshúsi eða fyrir rúmlega tuttugu árum síðan. Listaverk Gunnhildar fjalla oft um heimspekileg fyrirbæri en í listaverkum sínum túlkar hún vangaveltur sínar um lífið og tilveruna auk þess sem hringrásarhagkerfið hefur alltaf verið ofarlega á baugi í hennar verkum enda mikill umhverfissinni. Öll verkin á sýningunni Kerfi eru gerð úr endurunnum listaverkum á striga en einnig verða ný grafíkverk sem eru eins konar tilraunir með form.
Listin er alþjóðlegt hreyfiafl og þannig vill listamaðurinn túlka heiminn í gegnum verk sem hreyfa við áhorfandanum með jafnvægi lita og forma eða meta fegurðina og einfaldleikann í að endurnota og uppvinna efni (skapandi endurvinnsla).
Meðan á opnunni stendur mun listamaðurinn lesa upp ljóð úr óútkominni ljóðabók sinni Vetrarmyrkur. Sýningin stendur í 6 vikur eða til 20. september og verður opin á opnunartíma Jónshúss þriðjudaga - föstudaga 11-17 og laugardaga og sunnudaga 10-16. Allir velkomnir og léttar veitingar.