Flugger
Flugger

Mannlíf

Grindvíkingar ekki ánægðir með Þórkötlu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 26. maí 2024 kl. 10:06

Grindvíkingar ekki ánægðir með Þórkötlu

Fasteignafélagið Þórkatla hefur verið mikið á milli tannanna á Grindvíkingum síðan félagið var stofnað af íslenska ríkinu, til að kaupa fasteignir þeirra Grindvíkinga sem þurfa að koma undir sig fótunum á nýjum stað utan Grindavíkur. Elísa Haukdal er ein óánægra Grindvíkinga og hún segir farir sínar ekki sléttar gagnvart Þórkötlu.

„Í síðustu frétt frá fasteignafélaginu Þórkötlu kemur fram að umsóknir um uppkaup á húsnæði í Grindavík séu um 766 og að meirihlutinn sé búinn að fá samþykkt en samþykkt er ekki það sama og fólk heldur!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við fengum þetta plagg um að það sé búið að samþykkja að kaupa okkar hús en svo heyrist ekki neitt meira. Við sóttum um þann 8. mars, um hádegi. 8. mars var fyrsti dagurinn sem hægt var að sækja um. Við flýttum okkur að senda inn umsókn til þess að lenda ekki aftast í röðinni þar sem okkur liggur á að klára þetta. Þeir sögðust ætla að vinna þetta eftir dagsetningum á umsóknunum. Í dag er 13. maí og við bíðum enn!

Við erum búin að senda mörg email en eina svarið sem ég fékk var staðlað svar sem var sent á fullt af fólki og hafði engar upplýsingar. Þetta email fékk ég eftir að ég sagði við þá að ég færi í fjölmiðla ef ég fengi ekki svar. Þeir ljúga stanslaust og vinna þetta eins illa og hægt er.

Leigusamningurinn okkar rennur út núna 1. júní og ég sé fram á að þurfa að flytja með fjölskylduna mína í fimmtán fermetra kofa úti í sveit ef þetta klárast ekki núna. Við eigum sem sagt lítinn kofa úti í sveit sem hefur hvorki rennandi vatn né klósett. Við flúðum þangað þann 10. nóvember þegar allt fór til fjandans og við vorum þar í skítakulda í fimm daga. Rétt er að taka það fram að við erum fimm í fjölskyldu og heimilishundurinn tekur jafn mikið pláss og fullorðinn einstaklingur, þar sem hún er mjög stór eða um 70 kíló.

Þetta er algjörlega óboðlegt og við erum gjörsamlega búin á því andlega, jú og líkamlega líka eftir endalausa flutninga. Foreldrar mínir missa leiguíbúðina sína líka 1. júní og þau sjá fyrir sér að þurfa að búa í bílnum. Þau eru komin á efri ár og geta þetta ekki. Pabbi minn er mikill sjúklingur og heilsunni hans hrakar stöðugt.

Þau sóttu um sín uppkaup 9. mars og hafa ekkert heyrt heldur. Fullt af fólki sem sótti um í lok mars er búið að ganga frá sölunni sinni og fengið greitt líka.

Við krefjumst þess að okkar mál klárist strax í dag, við erum buguð og brotin og getum ekki meira,“ sagði Elísa að lokum.