Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Gáfu 150 samfellur til fæðingardeildar HSS
Sunnudagur 27. desember 2020 kl. 07:20

Gáfu 150 samfellur til fæðingardeildar HSS

Fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var á aðventunni færð myndarleg gjöf frá þátttakendum í Samvinnu starfsendurhæfingu. Þau tóku þátt í námskeiði sem var á vegum Samvinnu, sem er deild innan Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.

Námskeiðið fjallar um þróun vöru og þjónustu og á því er komið inn á þætti eins og vöruþróun, vöruhönnun, samskipti, markaðs- og sölumál ásamt þjónustu við samfélagið.

Í ár, eins og í fyrra, var unnið að gerð samfellu fyrir nýbura á fæðingardeild HSS. Á samfelluna var prentuð falleg mynd sem listamaðurinn Þórarinn Örn teiknaði en hann var þátttakandi í námskeiðinu.

Lindex í Reykjanesbæ gaf 150 bómullarsamfellur til verkefnisins og Reykjanesapótek styrkti verkefnið með því að greiða fyrir prentun á myndinni á samfellurnar.

Myndin var tekin þegar samfellurnar 150 voru afhentar en það var Jónína Birgisdóttir yfirljósmóðir á HSS sem veitti gjöfinni viðtöku.