bygg 1170
bygg 1170

Mannlíf

Flugneminn sem fékk áhuga á bakstri
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
sunnudaginn 10. maí 2020 kl. 14:04

Flugneminn sem fékk áhuga á bakstri

Rut Helgadóttir er tvítug og býr á Nýja-Sjálandi þar sem hún leggur stund á flugnám. Rut er fædd og uppalin í Danmörku en flutti til Keflavíkur þegar hún var tíu ára gömul. Foreldrar hennar, ásamt tveimur yngri systrum, búa í Bretlandi.

– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?

„Ég komst inn í flugnámsprógram hjá Icelandair sem heitir „Flugmenn til framtíðar“. Icelandair er í samstarfi við flugskóla sem heitir L3 Harris Airline Academy og er með starfsstöð á Nýja-Sjálandi og var ég svo heppin að fá að flytja til Nýja-Sjálands til að stunda námið.“

– Saknarðu einhvers frá Íslandi?

„Ég sakna fjölskyldunnar og vina mikið en allra mest sakna ég þó ömmu minnar.“

– Hve lengi hefurðu búið erlendis?

„Ég flutti út í nóvember 2018 þannig það er komið eitt og hálft ár síðan.“

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?

„Nýja-Sjáland er frábært land og algjör náttúruparadís. Fólkið hérna er virkilega almennilegt, hjálpsamt og er ekki mikið að stressa sig á hlutunum. Náttúran hérna er stórkostleg og hérna er að finna fossa, hveri og fallegar gönguleiðir hvert sem maður fer.“

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Dagarnir hérna eru frekar óhefðbundnir en ég get verið bókuð í flug hvenær sem er yfir daginn. Dagana sem ég á bókað flug byrja ég á að undirbúa flug dagsins. Ég þarf að plana hvaða leið ég ætla að fljúga, skoða veðrið, yfirfara flugvélina og fara yfir sem ég ætla að gera í fluginu með flugkennara. Dagarnir sem ég er ekki bókuð í flug eru vel nýttir í lærdóm og að njóta Nýja-Sjálands.“

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

„Hérna á Nýja-Sjálandi er sumarið á enda og haustið gengið í garð en já, ég er bara mjög spennt fyrir komandi tímum þó það væri gott að geta upplifað íslenska sumarið aðeins, þar sem það jafnast ekkert á við það.“

– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?

„Aðaláhugamálið mitt er að fljúga og ástandið hefur gert það að verkum að ég hef ekki geta flogið en ég hef verið dugleg að stunda líkamsrækt og spila fótbolta með skólafélögunum sem hefur stytt stundirnar helling. Ég hef einnig fundið nýtt áhugamál á þessum skrýtnu tímum en ég hef verið að baka óspart í þessu samkomubanni.“

– Hvað stefnirðu á að gera í haust?

„Stefnan er að klára námið með haustinu og flytja svo heim að því loknu. Þar sem ég á bara nokkra mánuði eftir hérna í Nýja-Sjálandi verður tíminn hérna vel nýttur í að skoða allt á bucket-listanum“.

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?

„Ég átti að vera að klára fyrsta stig flugsins núna í byrjun apríl og flytja þá til Bretlands þar sem við áttum að klára flugnámið en vegna COVID-19 breyttist það allt og mun ég klára flugnámið hérna á Nýja-Sjálandi í staðinn.“

– Hvernig hefur COVID-19 haft áhrif þar sem þú býrð?

„Stjórnvöld hérna á Nýja-Sjálandi tóku hart á þessu og landið var sett strax á hættustig fjögur sem þýðir að öllu var lokað, nema matvörubúðum og apótekum, í fimm vikur. Að fimm vikum liðnum fór landið niður í hættustig þrjú og þar erum við enn. Veitingastaðir með Take Away eru byrjaðir að opna og það er leyfilegt að fara út á meðal fólks, þó svo það verði auðvitað að passa hreinlæti og tveggja metra regluna. Skólinn minn er ennþá lokaður en við vonumst eftir að landið fari á hættustig tvö á næstu vikum svo allt geti farið í venjulegra horf.“

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur? Hefur margt breyst?

„Staðan hjá okkur hefur verið mjög góð miðað við annars staðar. Við erum um tvö hundruð nemendur sem búum saman á heimavist sem skólinn sér um. Við erum nánast úti í sveit svo við höfum verið heppin með að geta farið út og hreyft okkur og fengið frískt loft. Stjórnvöld hérna í Nýja-Sjálandi hafa tekið mjög hart á COVID-19-faraldrinum svo síðustu vikur hef ég bara verið á heimavistinni og reynt að gera það besta úr þessu.“