Mannlíf

Ferskir vindar blésu um heimili Jóhönnu
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 2. febrúar 2020 kl. 07:59

Ferskir vindar blésu um heimili Jóhönnu

Jóhanna Kristín Hauksdóttir hefur búið í Garðinum á annað ár og er smíðakennari við grunnskólann þar. Hún segist kunna vel við sig í bæjarfélaginu og er mjög ánægð með skólastarfið og samstarfsfélagana. Fyrsta desember flutti hún í mjög stórt leiguhúsnæði í bænum og fékk fyrirspurn í kjölfarið um hvort hún gæti hugsað sér að leyfa listamönnum að gista heima hjá henni í heilan mánuð, þátttakendum Ferskra vinda. Hún sagði já og segir það hafa verið mjög skemmtilega upplifun.

Jóhanna hitti blaðakonu Víkurfrétta fyrst úti á Garðskaga þar sem Jóhanna stillti sér upp í myndatöku fyrir framan risastórt listaverk listamannsins Jord INN, verk sem átti að brenna upp til agna en vegna óveðurs varð ekkert af þeirri athöfn. Listaverkið stendur enn og er þá líklega eina listaverk þessa listamanns sem stendur uppi því öll verkin hans hverfa af sjónarsviðinu þegar hann kveikir í þeim, sem er lokasköpun verksins.

Líkar vel í Garði

„Þetta er annað árið mitt í Garðinum og mér líkar vel að búa hér og kenna. Ég er frá Fáskrúðsfirði, er alin upp á milli fjalla en kann einnig að meta víðáttuna í Garði. Í skólanum er mjög gott að starfa en þar kenni ég smíði ásamt valgreinum í silfursmíði, málmsmíði, glervinnu og allskonar. Ég starfa með góðu fólki, það hefur mikið að segja.“

Fljót að segja já

„Ég flutti í rúmgott leiguhúsnæði 1. desember hér í Garðinum. Svo var hringt í mig og spurt hvort ég vildi hýsa listamann eða -menn, þátttakendur Ferskra vinda, og þar sem ég hafði þetta mikla pláss þá tók ég þrjá listamenn inn á heimili mitt. Ég var fljót að segja já og sé alls ekki eftir því, þetta var virkilega gaman. Hjá mér bjuggu hjón, hann er íslenskur og kona hans hollensk, og þriðji listamaðurinn var frá New York. Þetta gekk eins og í sögu með dásamlegu fólki,“ segir Jóhanna og brosir.

Gestirnir lítið heima

„Allt var þetta fólk á svipuðu reki og ég sjálf. Þau voru ekki mikið heima vegna þátttöku þeirra á listahátíðinni. Við hittumst aðallega á kvöldin og stundum á morgnana. Þau borðuðu ásamt öllum hinum listamönnunum í samkomuhúsinu í Garði og héldu þar einnig jól og áramót. Mér var boðið í mat alla daga ef ég vildi en gerði það ekki því ég var mikið að vinna yfir jólin hjá vinkonu minni í Reykjavík sem rekur þar verslun. Stundum kíkti ég í kaffi í samkomuhúsið til þeirra. Það var mjög gaman að vera þátttakandi á hliðarlínunni á listahátíðinni. Ég sagði við krakkana mína, þegar ég tók þessa ákvörðun um að hýsa listamennina, að við gætum öll haldið jól saman heima hjá mér. Það væri bara gaman en svo æxlaðist það þannig að listamennirnir voru með hópnum á jólum sem tók þátt í listahátíð Ferskra vinda. Ég held að krakkarnir mínir hafi bara verið fegnir,“ segir Jóhanna og hlær.

Gaman að geta hjálpað

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jóhanna opnar heimili sitt fyrir ókunnum, það gerði hún einnig á Fáskrúðsfirði þegar hún bjó þar en þá bauð hún ungum íþróttamanni frá Argentínu að búa heima hjá sér í tvö ár. Jóhanna á þrjú uppkomin börn og fjögur barnabörn en dóttir hennar er stundum hissa á því hvað mamma hennar er frjálsleg hvað þetta varðar.

„Ég hef tekið fólk í gistingu sem vantaði gistingu eina nótt, fólk sem ég þekkti ekki neitt eða  hafði ekki séð áður. Ég set sjálfa mig í þessi spor og þá er mjög létt að segja já, því ég myndi vilja að fólk gæti hýst mig ef ég þyrfti á því að halda. Það er lærdómsríkt að kynnast fólki á þennan hátt. Dóttir mín hefur stundum haft áhyggjur þegar mér dettur í hug að bjóða fólki gistingu en ég treysti fólkinu og fæ það traust endurgoldið. Mér finnst áreynslulaust að hjálpa fólki á þennan hátt. Það eina sem er öðruvísi er að ég er ekki ein heima og hleyp ekki um á brókinni. Stundum kom ég ferðafólki til hjálpar á Fáskrúðsfirði sem þurfti húsaskjól. Strákurinn frá Argentínu er í dag eins og sonur minn eftir að hafa búið hjá mér í tvö ár og í sumar ætlar hann að gifta sig þar sem hann er búsettur, í Litháen, og er búinn að bjóða mér í veisluna,“ segir Jóhanna.

Víkkar sjóndeildarhringinn

Þegar listahátíðin Ferskir vindar fer fram er reynt að finna húsnæði handa þátttakendum innan bæjarmarka Garðs því listafólkið er fótgangandi og þarf að koma sér á vinnustofuna sem staðsett er í samkomuhúsinu. Þetta hefur gengið upp vegna velvilja bæjarbúa í Garðinum í öll þessi ár. Jóhanna er ánægð með sinn þátt í að hjálpa til við að koma listamönnunum fyrir í heimahúsi.

„Þetta var mjög ljúft og ég er reynslunni ríkari. Ég bauð þetta fólk velkomið, sýndi því traust og það var einstaklega tillitssamt í allri umgengni. Í gegnum þessa gesti tengdist ég umheiminum og lærði af þeim, sérstaklega New York-búanum en hjónin eru búsett á Íslandi. Hann hafði aldrei áður upplifað svona mikið myrkur eins og er hér á Íslandi á þessum árstíma og kom stundum heim og lagði sig vegna myrkursins. Hann gerði það samt bara fyrst á meðan hann var að venjast, myrkrið hafði þessi áhrif á hann í upphafi dvalarinnar. Við Íslendingar látum okkur hafa allt þetta myrkur, rífum okkur upp á morgnana og förum í skóla og vinnu. Listamaður þessi býr einn í New York og á enga fjölskyldu þar. Hann hafði orð á því hvað honum fannst gaman að sjá börnin mín og barnabörn því hann var ekki vanur fjölskyldulífi. Þetta fannst mér áhugavert, alin upp á Íslandi, í fjölskyldusamfélagi þar sem við höldum jól og áramót með ástvinum og aðfangadagur er nánast heilagur fjölskyldudagur, ásamt jóladegi.“

Mælir Jóhanna með þessu?

„Já, ég mæli algjörlega með þessu og á þessum árstíma. Það er gaman að vera gestgjafi og í leiðinni heyra hvað fólki finnst um landið þitt og samfélag. Við lærum að meta umhverfi okkar betur, á annan hátt. Ég hélt að ég þyrfti að hafa meira af þessu fólki að segja en ég gerði. Listafólkið þjappaðist allt saman í samkomuhúsinu, þar var þeirra aðalvettvangur. Heimili mitt var aðallega svefnstaður þeirra. Það er gott að geta gert einhverjum greiða, maður myndi vilja að einhver gerði svona fyrir mann ef á þyrfti að halda. Maður fær alltaf eitthvað út úr þessu því þetta víkkar sjóndeildarhringinn. Vinátta myndast og við tengjumst áfram á fésbókinni sem gerir þetta allt svo skemmtilegt,“ segir Jóhanna.