Flugger
Flugger

Mannlíf

Félagsmenn duglegir að sækja viðburði
Það var setið í hverju stól á aðalfundi FEBS.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 1. apríl 2024 kl. 07:19

Félagsmenn duglegir að sækja viðburði

Húsfyllir á aðalfundi FEBS. „Ástandið ekki nógu gott hjá mörgum eldri borgurum, sumir geta ekki veitt sér þann munað að leysa út lyf,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður.

„Það voru yfir hundrað manns sem mætti á aðalfundinn – setið í hverjum stól,“ sagði Kristján Gunnarsson, formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum (FEBS), eftir aðalfund félagsins sem fór fram á Nesvöllum föstudaginn 15. mars síðastliðinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Kristján formaður að þakka fráfarandi stjórnarmönnum langt og gott starf í þágu FEBS.

Kristján sagði að fundurinn hafi verið með hefðbundnu sniði en þó hafi ein tillaga hlotið sérstaklega góðar undirtektir. „Það var lögð fram tillaga um að Grindvíkingar verði undanþegnir félagsgjöldum og haldi fullum réttindum á meðan ástandið er eins og það er. Þetta er meira táknrænn gjörningur til að sýna stuðning en félagsgjöldin okkar eru með því lægsta sem þekkist,“ sagði hann jafnframt og var tillagan einróma samþykkt.

Félagsmenn mjög virkir

Árið var líflegt hjá FEBS og fjölmargir viðburðir að vanda. „Ég er mjög ánægður með það hvað félagsmenn okkar eru duglegir að sækja alla okkar viðburði. Sama hvort það er þorrablót, árshátíð eða leikhúsferð, miðar seljast vanalega upp á klukkutíma,“ segir Kristján og bætir við: „Við vorum með tvo sérstaklega áhugaverða fræðslufundi á árinu, annars vegar um lögræði og hins vegar um tannheilsu. Báðir fundirnir voru haldnir fyrir fullu húsi, enda málefnin eitthvað sem við þessi eldri þurfum að kynna okkur betur.

Fræðslufundurinn um tannheilsu kom fundargestum sérstaklega á óvart, það er gömul mýta sem er innbrennd í okkur að tannlækningar séu svo dýrar, kosti arm og fótlegg. Dimitri, tannlæknir, kom og leiðrétti þann misskilning þegar hann sagði m.a. frá þátttöku Tryggingastofnunar í tannlækningum. Svo var það með lögræði, málefnið getur verið viðkvæmt og tekið á fjölskyldumeðlimi þegar kemur að þeim tímapunkti að það þurfi að svipta okkur lögræði. Fjármálin færast af okkur og það er gott að vera búinn að ganga frá sínum málum áður en til þess kemur, t.d. að vera búinn að gera erfðaskrá svo það sé alveg á hreinu hver fær hvað eftir okkar dag. Ég veit að margir fóru í það að kynna sér þessi mál eftir fræðslufundinn.“

Eldri borgarar tæknivæðast

Meðal nýjunga hjá FEBS má nefna að félagið opnaði heimasíðuna febs.is á síðasta ári þar sem er að finna hagnýtar upplýsingar um starfsemina – og eldri borgarar láta ekki staðar numið þar.

„Félagsskírteinin okkar verða rafræn í ár,“ segir Kristján. „Við ætlum að hætta með þessi gömlu pappírskort og færa okkur inn í nútímann. Við munum aðstoða þá sem þurfa við að koma þessu í símann hjá sér, svo eru einhverjir sem eru ekki með snjalltæki og þeir geta fengið kort á gamla mátann.

Ég verð að segja að við erum svo þakklát þeim fyrirtækjum sem hafa tekið okkur svo vel og veita félagsmönnum afslátt af sinni þjónustu. Það er nánast sama hvert við leitum, allir taka okkur vel – og ég vil hrósa afgreiðslufólki sérstaklega, það er líka duglegt að spyrja hvort við séum í félaginu ef það gleymist. Við sem erum komin á efri ár höfum mörg hver ekki mikið á milli handanna svo það munar um þessa afslætti – það eru peningar.“

Kjara- og réttindabarátta eldri borgara

Kristján hefur mikla og langa reynslu af kjarabaráttu sem fyrrverandi formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis (VSFK). Hann var að klára fyrsta tímabil sitt sem formaður FEBS og segir það hafa komið sér á óvart hversu erilsamt það það er. „Við í FEBS erum virk í kjarabaráttu eldri borgara og sóttum landsþing eldri borgara á árinu. Ástandið er hreinlega ekki nógu gott hjá mörgum eldri borgurum, sumir geta ekki veitt sér þann munað að leysa út lyf. Fólk sem hefur skilað sínu ævistarfi og greitt í lífeyrissjóði alla tíð þarf að velta hverri krónu fyrir sér því ríkið hirðir svo stóran hluta ellilífeyrisins. Það er ríkið en ekki lífeyrissjóðirnir, lífeyrissjóðirnir eru að standa sig. Ríkið skerðir lífeyrisgreiðslurnar og ég efast um að nokkur hefði rétt upp hönd og samþykkt stofnun lífeyrissjóða á sínum tíma hafi þetta fyrirkomulag legið fyrir þá,“ sagði baráttumaðurinn Kristján að lokum.